Saturday, August 31, 2013

Glæný vinna

Ég er komin með vinnu krakkar! Mun ritstýra Austurglugganum. Frá þessu greindi ég á Facebook síðu minni á fimmtudaginn og uppskar óteljandi hamingjuóskir og "pepp". Það gladdi mig óskaplega því vissulega er nýja laugin mín djúp en að sama skapi óskaplega spennandi. 

Það er krefjandi að gefa út blað vikulega og gæta þess að segja frá því helsta sem er að gerast í öllum fjórðungnum. Því geri ég það sama hér og á fimmtudaginn, að biðja ykkur um að vera mín augu og eyru því ég þarf svo sannarlega á samvinnu ykkar að halda. Gerum eitthvað gott - gerum það saman!

Góða helgi


Wednesday, August 28, 2013

Litlu jólin snemma í ár?


Eru komin jól? Litlu jólin í það minnsta. Í dag fékk ég þetta þrennt inn um lúguna mína. IKEA listann sem ég eeeelska, fyrsta tölublaðið mitt af Home magazine og blað um vetrardagskrá Leikfélags Akureyrar. Je minn einasti eini!


Ég fann fyrir svo mikilli ofsakæti við þessa óvæntu þríþættu sendingu að ég sletti í köku. Uppskriftin gerir reyndar ráð fyrir að um bollakökur sé að ræða, en ég tvöfaldaði hana og þá passaði hún svona rosa vel bökunarskúffu. Athugið að hér gef ég upp einfalda uppskrift:

Ein dós kaffijógúrt
Tveir og hálfur bolli hveiti
Tveir bollar sykur (ég minnkaði sykurinn, það er algerlega óhætt)
Ein teskeið lyftiduft
Hálf teskeið matarsódi
Ein teskeið vanillidropar
250 grönn smjör (brætt)
Þrjú egg
Smá salt
100 grömm suðusúkkulaði (saxað)

Allt sett saman í skál og hrært vel. Bakist á 180 gráðum í ca hálftíma. Kakan er svo góð að alger óþarfi er að hafa á henni krem.



Nammm...

Og nei. Það er ekki afmælisboð, bara ósköp venjulegur dagur í B10!




Monday, August 26, 2013

Myndaveggurinn langþráði

Jeii, myndaveggurinn minn er LOKSINS kominn upp. Þeir sem hafa fylgst með blogginu vita að ég er mikil fylgiskona myndaveggja af öllu tagi. Þar sem ég hef ákveðið að stoppa lengur í þessari íbúð en 20 mínútur fórum við út í allskonar minni fegrunarframkvæmdir innanhúss.


Langaði að hafa þennan vegg þaktan fólkinu sem mér þykir vænst um. Ákvað líka að hafa myndirnar "frjálsar" en ekki í römmum - en þannig kem ég jú miklu fleiri myndum fyrir.


Svo má auðvitað skipta út af vild. Nú er bland í poka, myndir af okkur öllum sem litlum skrípum, "saga krakkana" og svo myndir frá sumrinu okkar - allir hafa ótrúlega gaman af því að skoða herlegheitin.



Meira af innanhússframkvæmdum hjónaleysanna bráðlega.

Saturday, August 24, 2013

Skemmtilegar hugmyndir - part 2

Hvað var ég að gera af mér fyrir daga Pinterest? Það bara hreinlega veit ég ekki. Það sem ég get hangið þarna og alltaf sé ég eitthvað sniðugt sem vert er að deila með öðrum



Ég er alltaf með ToDo lista út um allt. Bæði á miðum og á ísskápnum. Ég hef ekki enn fundið hjá mér þörfina fyrir að vera með þá í símanum, mér finnst það bara ekki eins sjarmerandi. Það er eitthvað óskaplega gott og hreinsandi að geta strikað yfir atriði á þessum blessuðu listum. Hér má sjá eina útfærslu sem hægt er að nota.




Ég er forfallinn textafíkill, algerlega og það er fátt fegurra sem ég veit en samspil mynda og texta.Það er sniðug hugmynd að tengja saman texta og myndir af "stórum dögum" í lífi ykkar. Klippa út fyrirsagnir eða blaðagreinar á sem komu út á brúðkaupsdaginn eða hvaða öðrum degi sem þið viljið myndgera og nýta með.




Þó að það sé kannski örlítið "stofnanalegt" að hafa merkingar á klósetthurðinni þá hef ég oft hugsað hvað það væri þarft þegar maður fer á klósettið í ókunnugu húsi og endar með því að kíkja inn í öll herbergi áður en maður rambar á rétta hurð! Kannski og bara mjög líklega er hægt að fá skemmtilega útgáfu af "klósettfólkinu".




Hver man ekki eftir því þegar allir veggir  voru "hraunaðir"? Er þetta eitthvað?



Krakkarnir mínir eru einmitt með samskonar litakassa í gangi þar sem enginn finnur nokkurn skapaðan hrærandi hlut. Sniðug lausn.




Ó elsku skórnir. Það er alger óþarfti að hætta skókaupum vegna plássleysis. Hugsum í lausnum krakkar!

Góða helgarrest

Wednesday, August 21, 2013

Ómótstæðilegur íslandsspegill

Þegar ég kemst yfir blöð sem tengjast hönnun er ég "úti" - það næst voða lítið samband við mig. Skothelt ráð til þess að fá mig til þess að þegja í langan tíma er að hella upp á gott kaffi fyrir mig og rétta mér blaðabunka. Þá er mér meira að segja sama þó svo fólk horfi á enska boltann í kringum mig!

Ég á það líka til að taka myndir úr blöðunum ef ég sé eitthvað sem kallar á mig, eins og þetta "íslandskort" hér.


Þessari hugmynd stal ég úr nýlegu Hús og híbýli blaði - en mér finnst hún alger snilld. Hún Bára Ragnhildardóttir fékk þessa snjöllu hugljómun, að pússla Íslandi á vegginn hjá sér úr speglabrotum. 

Bæði er hægt að teikna myndina upp fríhendis, eða fá einhvern til þess að gera það fyrir sig. Svo stendur gamli góði myndvarpinn alltaf fyrir sínu. Svo er bara að kaupa sér ódýrar speglaflísar og brjóta þær niður - kannski fá einhvern til þess að blessa þær áður til þess að sleppa við sjö ára ógæfu?

Gleðilegt pússl!

Tuesday, August 20, 2013

Kertaást




Vísan um dálæti mitt á haustinu verður aldrei of oft kveðin. Þá má líka hafa kerti um allt hús, það er meira en pínulítið næs.

Á Pinterest má sjá endalausar hugmyndir af öllum sköpuðum hlutum, hér getið þið kíkt á síðuna mína
 
...skreppum í fjöruna og náum í góss til þess að skreyta...


...kanilstangir eru fallegar...


...fallegt, fallegra...

Kaffi er alltaf og allsstaðar gott. 

Væri til í að eiga þennan frá IKEA

...líka þennan...

...og þetta...

...en helst af öllum stjökum í IKEA langar mig í þennan, love it!

Alltaf gott að eiga kerti með góðri lykt, að sjálfsögðu líka frá mínu ástkæra IKEA...

Óh, hvað mig langar í einn Kubus-stjaka.


En. Ást mín á iittala kertastjökum- og vörum almennt verður ekki afgreidd í einni línu.

Friday, August 16, 2013

Að læra að njóta einveru



Mannskepnan er félagsvera í eðli sínu og er því ákveðinn lærdómur fólginn í því að njóta einveru.

Ég ólst upp í litlu þorpi hjá foreldrum mínum, fjölskyldu og vinum. Þaðan lá leiðin í heimavistarskóla þar sem ég kynntist barnsföður mínum. Svo komu börnin mín, eitt af öðru. Þeir sem eiga slíkan fjársjóð vita að með tilkomu þeirra á maður ekki eina einkamínútu aflögu - klósettdyrnar eru barðar utan hvað þá annað, slíkar eru vinsældirnar.

Þegar ég svo skildi fyrir nokkrum árum blasti við mér glænýr veruleiki. Glænýr, segi ég og skrifa. Eins og lög gera ráð fyrir í nútímasamfélagi sömdum við um sameiginlegt forræði og þá jafnan viðverutíma með börnunum.

Og hvað? Hvað átti ég að gera? Heila viku, alein? Ég kunni það ekki, ég hafði aldrei reynt það. Ég var eirðarlaus og með "orm í rassinum" í marga mánuði - þ.e. ég gat ekki verið róleg. Gat ekki með nokkru móti verið ein heima hjá mér, varð alltaf að vera á einhverju randi eftir félagsskap.

Einn daginn kom hún svo, sáttin við að vera ein og njóta þess. Í dag finnst mér mjög gott að vera alein af og til, þó svo ég viti fátt skemmtilegra en að vera í góðra vina hópi.

Í þessum skrifuðu orðum sit ég "ein" á Eymundsson á Akureyri. Auðvitað ekki ein, hér er fullt af fólki. Ein að því leyti að ég þarf ekki að tala við neinn eða gefa neitt af mér nema til sjálfrar mín. Gísla langaði í bíó og mig að nördast hér. Skiptum því liði. Ég gæti sitið hér allan daginn ef því er að skipta, hangið á netinu, lesið blöðin og meganördast - ein með sjálfri mér.

Á eftir verður þó gott að kúldrast og knúsast með bíófaranum. Bæði betra, gott báðu megin.

Góða helgi!




Friday, August 9, 2013

Mér finnst rigningin góð. Mjög.

Ummmm...

Það sem ég elska svona rigningardaga. Þegar húsið er fullt af börnum að leik og enginn fer út úr húsi. Blessunarlega á ég svo þæg og góð börn og þau þæga og góða vini að ég get gert það sem ég vil, þarf aðeins að gefa þeim að borða á nokkurra tíma fresti!

Sesam brauðhús bakaði fyrir mig í dag - af því ég hef svo mikið að gera við að gera ekkert. Eins og að lesa blöðin og prjóna. 

Litlu krakkarnir eru með sinn vininn hvort og ég veit ekki af þeim. Í öðru er tveggja daga Bratz-leikur í fullum gangi en í hinu einhverskonar drekaleikur. Dásamlegt.

Stalst inn og myndaði Bratzheimilið. Get þó ekki betur séð en að á gólfinu sé haus - já og fætur!


Mátti ekki með nokkru móti biðja stelpurnar um að taka saman eftir leik gærdagsins. Ég skildi þær svo vel þar sem ég man eftir þegar maður var búinn að byggja upp leik sem stóð svo í marga daga. Við vinkonurnar lögðum undir okkur heilu herbergin og hæðirnar ef því var að skipta svo dögum skipti. Þetta er alveg eins á Íslandi í dag, sem betur fer - nema nú segja menn "minns og þinns" en ekki "minn og þinn" eins og þá. Hvenær breyttist þetta?


Bríet töffari sæl með húfuna sem ég prjónaði í gærkvöldi.

Gíslapeysa er LOKSINS að verða að veruleika. Hann er semsagt ekki lengur "númer 24 í röðinni". Blessaður maðurinn. 

Er með prjónaæði. Það er ekkert nýtt. Ég tek þetta svona í skorpum. Prjóna og prjóna þar til ég "prjóna yfir mig" og hætti þá í svona hálft ár. Nú er byrjun á einhverju prjónatímabili, augljóslega. Finnst fátt notalegra en að sitja og prjóna, með kaffibolla á kantinum og einhverja kósý tónlist. Helst eldgamla. Elsku Haukur Morthens.

Næs!

Jú. Það er eitt sem jafnast á við þá heilun sem prjónaskapur er. Það eru föstudagar þegar ég fer nógu snemma í búðina og vinn bardagann um að ná síðasta Fréttatímablaðinu! Hversu ömurlegt er það að Fréttablaðið sé ekki lengur borið í hús út á landi. Óþolandi. Finnst mun skemmtilegra að skoða fréttir á blaði en á netinu. Kannski af því ég prjóna og hlusta á Hauk. Ég veit það ekki? Ég veit það hinsvegar að ég skoða blöð alltaf frá síðustu blaðsíðu. Það þykir sambýlismanni mínum undarlegt. Ekki mér.

Góða helgi!

Thursday, August 8, 2013

Af matarpervisma og mágkonum

Ég hugsa bara um mat þessa dagana. Líklega af því ég er að reyna að gera það ekki og vera extra holl. Umhumm. Fórum í Egilsstaði í gær og enduðum á því að elda með mágkonu minni og fjölskyldu.

Það sem ég er heppin að hafa fengið þessar systur í kaupbæti með Gísla, maður lifandi. Þekkti þær ekki í sundur til þess að byrja með, enda tvíburar, nei reyndar þríburar Ragga, Jóa og Guðni. Ógeðslega sniðugt svona "tvær fyrir eina tilboð" - skiptir akkúrat engu máli með hvorri ég hangi, eru hvort sem er alveg eins. Pörfekt.

Þær skömmuðu Gísla reyndar fyrir nokkru að vera að ná sér í kærustu sem hefði eins góðan smekk og þær, en við erum allar með blæti fyrir fallegri hönnun og nú eru þær ekki aðeins tvær að rífast um sömu hlutina, heldur erum við þrjár.

Hér má sjá okkur Jóu eftir við gerðum gasalega góð tekkkaup á dögunum í nytjamarkaðinum á Egilsstöðum. Ég eftirlét henni góssið, svona þar sem hún er að flytja í nýtt húsnæði. Gísli þakkaði bæði Guði og Búdda fyrir. 

Allavega. Við elduðum einn af mínum uppáhaldsréttum, Fajitas. Mér finnst það með því allra besta sem ég fæ. Jóa steikti kjúklinginn upp úr sterku Fajitaskryddi og skellti lauk og gulum baunum út í - maður er alltaf að læra eitthvað nýtt. Skemmst er frá því að segja að blandan var algerlega skotheld! Namm!





Strákarnir fóru í búð og duttu niður á akkúrat passlega þroskuð avakado og því hentum við í "nánast heimatilbúna" Guacamole - svo miklu betri en úr búð.

Aww, namm.  Myndin er því miður stolin af veraldarvefnum þar sem ég hafði engan tíma til að mynda meðan ég var að troða í mig!
Nú heimta úlfarnir bananabrauð. Ó, mig auma!

Tuesday, August 6, 2013

Myntugræn bangsapeysa fyrir haustið

Það gránaði í fjöll hér austanlands í fyrrinótt. Tel mig vera eina um það að setja læk á það - þori alls ekki að segja það upphátt í ótta við að verða fyrir aðkasti.

Ég elska haustið, það er algerlega minn uppáhaldstími ársins. Finnst það upphaf ársins, mun frekar en áramótin. Þegar litlir grísir rölta í skólann vopnuð nýju skóladóti. Þegar fer að dimma á kvöldin og ég get kveikt á lömpum og kertum með góðri samvisku. Þegar ég elda haustmat eins og kjötsúpu og hita kakó.

Sjálfa langar mig alltaf sjúklega í skóla á haustin. Er með allskonar dillur í hausnum á mér akkúrat núna. Steingleymi þá með öllu hvað er ömurlegt að læra öll kvöld og allar helgar. Langar til dæmis í sálfræði, fjölskylduráðgjöf, grafíska hönnun, ljósmyndum, vöruhönnun og innanhúsarkitekt. Vill einhver annar en LÍN borga mér fyrir að fara í skóla? Er fyrirmyndarnemandi.

Allavega er ég loksins búin að klára haustbangsapeysuna mína. Ég á við það vandamál að stríða að ég er enga stund að prjóna hvað sem ég vill en stranda svo alltaf á fráganginum og flíkin bíður þolinmóð mánuðum saman þar til ég fæ einhvern til þess að hjálpa mér. Held þó að ég hafi kannski bara náð tökum á þessu af lærimeistara gærdagins. Takk Þórdís!

Ég gæti alveg hugsað mér að sitja á skólabekk í þessari.




Monday, August 5, 2013

Himneskt kjúklingasalat frá Eldhússögum

Það sem ég var með ferlega góðan mat í gærkvöldi! Kjúklingasalat - og eins og svo oft áður sótti ég grunninn í Eldhússögur.




Ég á samt við töluvert vandamál að stríða þegar kemur að mataruppskriftum. Ég bara get ekki með nokkru móti farið 100% eftir þeim, það virðist bara ekki fræðilegur möguleiki. Allt annað gildir um bakstur, þar fer ég aldrei út af sporinu og fylgi uppskrift í einu og öllu.

Ætlaði svo sannarlega að fjárfesta í avakodo eins og mér var sagt, en þar sem hefði verið hægt að rota mann og annan með þeim eintökum sem til voru í Krónunni í gær þá sleppti ég því. Skipti líka mangói út fyrir gula melónu. 

Eins og segir í uppskriftinni eru lesendur hvattir til þess að sleppa EKKI karmelliseruðu pekanhnetunum og mér datt það ekki í hug - enda sé ég ekki eftir því, þær eru sjúklega góðar á móti reyktu bragði beikonsins. 

Ummm! Nokkrar rötuðu uppí mig á meðan eldamennsku stóð. Ég meina, maður verður nú að smakka þetta allt saman til!

Ég ákvað að gera ekki þá dressingu sem gefin er upp með salatinu, heldur þá sem ég hef alltaf gert með kjúklingasalati. Hún innileldur hunang, dijon-sinnep, olíu, balsamikedik og hvítlauk. Bragðið af henni er dásamlegt tvist af sætu, sterku, súru og hvítlau - og fer einstaklega vel með kjúklingasalati. En, einn daginn á ég eftir að gera þá sem var gefin upp á Eldhússögum. 

Mín dressing er sirka, nokkurnvegin svona (hún er frumsamin og því aðeins til í dassi)
  • Sirka tvær teskeiðar hunang
  • Sirka ein teskeið Dijon-sinnep (passið að það er mjög bragðmikið og dóminerandi)
  • Eitt til tvö hvítlauksrif (fer eftir því hvað ykkur er vel við hvítlauk)
  • Smá sletta af ólifuolíu
  • Balsamikedik 
Byrja á því að hræra saman hunangi, sinnepi og hvítlauk. Set svo smá olíu út í og fylli upp með balsamikediki. Þessa dressingu veður maður bara að smakka til þannig að gullna jafnvægið mitti þessara ólíku bragðtegunda náist. 


Ég væri ekkert að kaupa naan ef ég væri þið

Fyrst ég var fokin í þetta rosalega eldhússtuð lét ég það ekki fréttast að ég færi að kaupa naanbrauð! Nei, mín bara henti í deig frá Eldhússögum og grillaði herlegheitin. Eða nei, Gísli grillaði enda kem ég ekki nálægt þeirri vítisvél eftir að það nánast sprakk í hausinn á mér í fyrra. 

Þarna fór ég að sjálfsögðu alveg eftir uppskrift þar sem um bakstur er að ræða, en penslaði brauðin þó með hvítlauksolíu fyrir grillun. Síðast en ekki síst henti ég í kryddsaltið sem var Maldonsalt og Garam masala - ómissandi þegar brauðið er komið af grillinu. 

Og nei, ég er ekki á prósentum hjá Eldhússögum, finnst þetta bara besta uppskriftasíðan í bænum. Verði ykkur að góðu!


Saturday, August 3, 2013

Stundum er einfaldlega skítt að vakna!

Dreymdi í nótt að við Carrie Bradshaw værum vinkonur, vorum á leið á kaffideit. Það sem ég var fúl þegar ég vaknaði - men! 

Finnst hún einfaldlega langsvölust í bransanum, alltaf. Líka "blóðmóðir hennar" - Sarah Jessica Parker, þær renna einhvernvegin í eitt. 


Eitt af mínum uppáhalds átfittum...

Pelsinn góði - eitt af þeim fáu dressum sem fylgja henni gegnum um allar seríurnar


Upphafsdressið góða!




Alltaf töffari!








Annað uppáhaldsdressið mitt, í brúðkaupi Stanford



Góða verslunarmannahelgi!