Þennan dag fyrir 18 árum var ég sjálf aðeins tvítug og hafði ekki hugmynd um út í hvað ég var að fara. Að eignast barn gerbreytir öllu lífinu, miðdepill athyglinnar færist til og allt snýst upp frá því um hinn nýja einstakling. Ég hef alltaf sagt að mér var valinn og falinn einstaklega vandaður einstaklingur til þess að koma til manns. Verkefnið hefur liðið hjá eins og hlý gola, í takt við seinna nafnið hans sjálfs.
Í dag stendur hann á tímamótum, kominn í fullorðinna manna tölu, aðeins tveimur árum yngri en ég sjálf þegar hann kom í heiminn. Það merkilega er að hann hefur þó einhvernvegin alltaf verið nánast jafn gamall mér. Hefur haft óbilandi áhuga og borið mikla virðingu fyrir sér eldra fólki og alltaf sótt í það. Talaði á við fornmann á sínum yngri árum sem sannast best á myndbroti sem til er af honum þriggja ára þegar hann heilsaði fólkinu í áramótaboðinu með orðunum, "Gott kvöld sveitungar".
Að eiga hann svo ung var mér aldrei erfitt, þvert á móti. Ég lét það ekki stöðva mig á nokkrun hátt, hvorki í námi nér öðru, gerðum bara allt saman. Á hverjum einasta degi - og oft á dag, þakka ég fyrir að fá að bera titilinn mamma hans, en það hefur gert mig að betri manneskju, kennt mér það sem ég kann og fyllt hjarta mitt af endalausri ást og stolti. Í kvöld munum við fagna með kjúklingasúpu og franskri súkkulaðiköku að hætti heimamanna. Líklega rifja upp fleygar setningar úr safni afmælisbarns á borð við þessar;
Júní 2000 (ABS fjögurra ára)
Vorum að keyra eftir Miklubrautinni þegar Almar Blær bendir áhugasamur út um gluggann og segir; "Nei, nei, sjáið allar hestalummurnar". Það sem við blasti voru háir staflar af grasþökum.
Júní 2000 (ABS fjögurra ára)
Almar Blær fór ásamt pabba sínum á Árbæjarsafnið einn sunnudag. Þar skoðuðu þeir meðal annars litlu Árbæjarkirkjuna. Þegar heim var komið var hann að sjálfsögðu með sögustund. "Það var mjög flott prestabúrið í kirkjunni og úti á safninu var líka lítið kramarhús fyrir fólk til þess að pissa í." (Kamar)
Maí 2001 (ABS að verða fimm ára)
"Mamma, þú ert á skákmóti mér!" (Sat ská á móti honum við borð)
Júlí 2001 (ABS fimm ára)
Fjölskyldan var keyrandi suður eftir sumarfrí fyrir austan. "Ég er búinn að stækka alveg rosalega mikið þessar tvær vikur fyrir austan. Ætli það sé ekki fjallaloftið sem ber ábyrgðina á því".
Nóvember 2001 (ABS fimm ára)
Almar Blær segir stórfréttir úr leikskólanum. "Við á Mýri sömdum nýtt lag um Jesúbarnið í dag." Móðir; "Nú, það er aldeilis, hvernig er það?" Almar Blær; "Bjart er yfir Betlehem, blikar jólastjarna..."
Maí 2002 (ABS sex ára)
"Hvenær getum við haft pæjur í matinn?" (Gellur)
Júní 2002 (ABS sex ára)
"Mamma sjáðu, þarna er möffinsköttur" (síamsköttur)
Júlí 2002 (ABS sex ára)
"Mamma, það voru ekki til bílar þegar þú varst lítil er það...?"
Og svo kom litla systir til sögunnar...
Febrúar 2003 (ABS sex ára)
Almar Blær, mamma og amma Jóna fá sér hressingu á köldum febrúardegi, Bríet liggur á teppi á gólfinu, þriggja mánaða.
Almar Blær; "Ég fékk rosalega hugmynd sem ég myndi samt aldrei gera!"
Mamma; "Nú, hvað?"
Almar Blær: "Ég get ekki sagt það."
Mamma; "Jú, jú." Almar Blær; "Hella kakóinu mínu yfir andlitið á Bríeti!"
Almar Blær; "Ég fékk rosalega hugmynd sem ég myndi samt aldrei gera!"
Mamma; "Nú, hvað?"
Almar Blær: "Ég get ekki sagt það."
Mamma; "Jú, jú." Almar Blær; "Hella kakóinu mínu yfir andlitið á Bríeti!"
...nokkrum dögum síðar...
Almar Blær: "Stundum fæ ég svo rosalegt ástarkast á litlu systur mína að mig langar að kreista hana ótrúlega fast. Það var einmitt þannig kast sem ég fékk þegar mig langaði að hella yfir hana kakóinu í gær."
Ágúst 2003 (ABS sjö ára)
"Ef Bríet er alin upp hjá skemmtilegu fólki eins og okkur verður hún sjálfkrafa skemmtileg."
Eitt af fyrstu leikhlutverkunum - Kóngurinn í Tralla í Ártúnsskóla |
Það var mikil leiklist í Ártúnsskóla |
N1 mótið á Akureyri 2009 |
Leiksýning í Grunnskóla Reyðarfjarðar |
Útskriftardagur úr Grunnskóla Reyðarfjarðar |
Fyrsti dagurinn í Menntaskólanum á Egilsstöðum |
Mæðgin taka þátt í Hernámssýningu á Hernámsdegi á Reyðarfirði sumarið 2012 |
16 ára afmælisdagur |
Í hlutverki Jónatans í Kardimommubænum árið 2013 |
Fjársjóður! |
Í hlutverki Idda útfararstjóra í uppsetnigu Leikfélags Fljótsdalshéraðs á verkinu Með gull í tönn - vor 2014 |
Stolt systkin |
Í aðalhlutverki í söngleiknum Cry baby eða Vælukjóa - vorið 2014 |
Elsku karlinn minn, innilega til hamingju með daginn þinn!