Það er komið sumar. Ég sverða. Allavega hér fyrir austan. Allavega í fyrradag, gær og dag. Kannski ekki á morgun, hver veit? Enda veðrið á Íslandi eins óútreiknanlegt og veðbankarnir í júróvisjón.
Í sumarbyrjun fyllist ég alltaf æsilegri ferðalagaþrá. Já, útlandaþráin stendur yfir allt árin en þessi innlenda hefst fyrsta góðviðrisdaginn.
Ég skrapp nú bara á heimaslóðir í dag með góðri vinkonu minni Jóhönnu Seljan, en á Stöðvarfirði er frábær Blúshátíð um helgina.
Mig langar hins vegar til þess að skoða Austurlandið í krók og kima, enda ekki vanþörf á, hef líklega komið á færri ferðamannastaði hérlendis en meðal Asíubúi.
Nú er að hefjast fjórða sumarið sem ég er ákveðin í því að ganga í Stórurð, til dæmis, og vona að ég standi við það, ólíkt hinum árunum.
Þetta framtaksleysi mitt er ekki aðeins krónísk leti, heldur mikið annríki og líklega örlítill skortur á skipulagi.
Í fyrsta lagi er ég nánast alltaf kasólétt nú eða þá með organdi barn á brjósti. En, nú er það búið, alveg búið – héðan í frá eru magakrampar, ælupollar á öxlum og tanntökur farnar út af mínu borði for gúd og aðrir geta séð um að fjölga mannkyninu enn frekar og þá gengið um gólf allar nætur með kolvitlausa nýbura. Það er bara velkomið en ekki fyrir mig meir, enda nóg komið.
Stórurð er á plani sumsé en það skilst mér að sé á pari við að koma í eitthvað magnað ævintýraland semi inniheldur risavaxna steina, þörungablá vötn og kannski þá blómálfa á sveimi. Já, í Stórurð skal ég þetta árið!
Þá langar mig líka óskaplega að koma í Mjóafjörð en þangað hef ég ekki komið síðan land byggðist, eða svona nokkurnvegin. Helst stefni ég á að fara á sunnudegi þegar hið rómaða kaffihlaðborð er í Sólbrekku, enda ég annáluð fyrir kappát og ást mína á mæjónesu og rjóma, en þarna flæða hnallþórur og brauðtertur með gaffalbitum um allt. Himnaríki fyrir mig.
Þá langar mig að taka „þrennuna“ Bakkafjörður, Raufarhöfn og Þórshöfn því á þá staði held ég svei mér þá að ég hafi aldrei komið. Þar veit ég ekki einu sinni hvað ég ætti að skoða, en án efa leynast þar perlur eins og annarsstaðar. Mér finnst bara ekki hægt að vera orðin svona háöldruð og vita ekki nokkurn skapaðan hlut í minn haus.
Síðast en ekki síst langar mig að loka þessari fyrirhuguðu Austfjarðayfirferð minni í sumar með því að heimsækja Vopnafjörð. Þangað hef ég líklega tvisvar sinnum komið, í annað skipti til þess að spila fótboltaleik með Súlunni sem tapaðist liklega 15-0 en í síðara skiptið á einhverja bæjarhátíð árið 1998, þegar elsti sonur minn, Almar Blær var rétt rúmlega tveggja ára.
Þegar við komum heim með alsælt barnið eftir að hafa hitt Skralla trúð og fleiri góða spurði amma hans hann að því hvar hann hafði verið. Ekki stóð á svari hjá mínum:
„Ég var á Opna-fyrir-mér“. Í hans eyrum útlaggðist bæjarheitið Vopnafjörður sem „Opna fyrir mér“ og höfum við ekki kallað staðinn annað síðan.
Ást&friður.