Tuesday, November 13, 2012

Í fréttum er þetta helst.


  • Ég er farin að sofa á nýjan leik eftir dreka-útspilið. Þrátt fyrir að hafa hvorki misst útlim eða lent í náttúruhamförum snérist tilveran þó á hvolf og ég neitaði að sofa þrátt fyrir miklar fortölur sjálfrar míns. Vakti bara og vakti út í það endalausa. Var með dólg á nóttunni, fór fram – prjónaði, ristaði mér brauð og bara gerði það sem mér datt í hug. Allt nema sofa í hausinn á mér. Held að aðrir heimilismeðlimir séu einnig fegnirað hugur minn sé ekki lengur á yfirsnúning!
  • Prjónaskapur á mjög upp á pallborðið hjá mér um þessar mundir og engan í ættinni skal undra þó mjúkir pakkar berist frá okkar fjölskyldu þessi jólin.
  • Á morgun munum við Gísli taka eitthvað af okkar hafurtaski úr bílskúrnum hjá tengdó og flytja í „millibilsíbúð“ í Melgerði á Reyðarfirði. Þurfum að skila henni á um áramót þannig að við nýtum líklega gamlársdag til þess að skúra okkur þar út. Enn er ástandið á Reyðó svipað og í Betlehem forðum – en þar er ekkert húsaskjól að fá. Hef mikið hugsað um örlögin síðustu daga hvort þetta sé bara ekki merki um að leita á nýjar slóðir – brottrekstur úr vinnu og ekki sjens að fá húsnæði. Kannski bara faaaaaaaaaaaaarðu kjelling og gerðu eitthvað annað. Nei, ma bara spyr sig?
  • Aðventan er handan við hornið og ég ætla að njóta þess í botn að dúllast með krílunum mínum sem eru búin að vera allt of lítið hjá mömmu sín síðustu vikur. Ætlum að baka, baka og baka. Baka svo meira og baka. Hlusta á jólalög og spila veiðimann. Horfa á DVD, knúsast í klessu og hafa það óendanlega kósý!
  • Ætla að klára allt sem ég get fyrir jólin áður en ég fer í útlandið 6. desember. Það er ekki eins og ég hafi ekki nægan tíma. Það er samt alveg merkilegt, það er alltaf brjálað að gera og ég skil suma daga bara alls ekki hvernig ég kom vinnu yfirhöfuð inn í prógrammið!
  • 6. des. Ohhh, elsku sjötti – komdu eins fljótt og þú getur. Því þá fer ég til London með Gíslanum mínum og fleirum fræknum. Ég hreinlega get ekki beðið, bara ekki!
  • Ég er komin með núll rjúpur í höfn. Það gengur ekki. Á reyndar eftir að fara grenjandi til bræðra mína og biðja um þrjár pínuponsulitlar rjúpur. Ef þið vitið um einhvern díler, þá endilega látið mig vita. Rjúpnalaus koma jólin varla. Svo eru bara nokkrir dagar í skötuna krakkar, vííhhhh!
  • Annað var það svosem ekki. Nema jú, síminn minn kemur á morgun. Það verður nú aldeilis skemmtilegt!

No comments:

Post a Comment