Wednesday, March 13, 2013

Af leistum, óróum og mannvitsbrekkum

Hef alltaf haft alveg óstjórnlegan áhuga á orðum og texta. Vil klístra texta allsstaðar þar sem ég mögulega get - á veggi, skápa, myndir, púða og ég veit ekki hvað og hvað - við mismikla hrifningu nærstaddra. Mér finnst eitthvað svo ótrúega fallegt við vel skrifaðan texta, fæ bara hýtt í hjartað. Ég á meira að segja uppáhaldsorð og allt!

Leistar: Verð fimm ára og endasendist í huganum beint til ömmu Jóhönnu þegar ég heyri þetta orð, sem gerist reyndar nánast aldrei í dag. Hún kallaði ullarsokka, já og kannski held ég flesta sokka leista. Það var þá, þegar ég gekk enn í sokkum, líklega vegna þess að öndunarfærin í mér voru enn á sínum stað, en ekki komin niður fyrir ökkla eins og í dag. 



Fíaskó: Hef aldrei sé almennilega þýðingu á þessu orði en það er notað yfir einhverskonar klúður eða klessu af einhverju tagi. Þrátt fyrir merkinguna finnst mér svo mikil gleði í því - hljómar svo ótrúlega skemmtilega og það sem meira er, finnst það svo fallegt á prenti. Eitthvað svo litríkt og ljómandi!




Órói: Hefur alltaf verið eitt af uppáhaldsorðunum mínum. Er svo gegnsætt og lýsir fyrirbærinu svo vel. Ó, það eru svo margar skemmtilegar hugmyndir hér.




Blússa: Annað gamalt frá ömmu - en ég var mikið þar sem barn, þess vegna er ég kannski 150 ára í anda. Finnst orðið blússa frábært. Ég geri greinarmun á skyrtu og blússu. Skyrta er bara skyrta en blússa er fínni, úr siffoni eða silki - helst víð og lús. Æji, þið skiljið. Keypti þessa hér í uppáhaldinu mínu, Gyllta kettinum um árið.




Mannvitsbrekka: Elska það, það er ekkert flóknara. Er það notað yfir þann sem býr yfir mikilli þekkingu, en þó oft nýtt á kaldhæðin hátt. Finnst það eitthvað svo risastórt og tignarlegt. Sá það fyrst þegar ég las Laxness auk þess sem Sigurður Guðmundsson og Memfismafían koma því fyrir í texta sínum Nú mega jólin koma fyrir mér.

Lúði: Finnst það skemmtilegt og undarlega notarlegt.


Æji, ég veit - ég ER lúði!

2 comments:

  1. blússa og skyrta já - það er alveg stór munur þar á!

    ReplyDelete
  2. Leistar, golla og blússa minna mig á ömmu Siggu. Knús H

    ReplyDelete