Monday, March 18, 2013

Fabjúlöss hugmyndir á mánudagskvöldi

Er algerlega dottin í´ða. Ekki þó rauðvínið að þessu sinni, aldrei sliku vant. Heldur Pinterest myndasíðuna sem allir voru að tala um án þess að ég skildi orð af því sem fólk var að segja. Gerði svo stanslaust grín að Gísla fyrir að festast í Candy Crush! Er ekki orðin nokkru betri sjálf, nema að mér finnst að SJÁLFSÖGÐU gáfulegra að skoða falleg heimili og góðar hugmyndir en að keppast við að torða í mig gúmmíböngsum, nema hvað?

Þess utan dett ég alltaf í tryllingslegan "breyta og bæta- gír" þegar ég átta mig á minnsta votti af vori, sem var reyndar fyrir tveimur vikum, alls ekki núna. En, það breytir því ekki að ég er gersamlega föst og "pinna og pinna" út í það endalausa skemmtilegar hugmyndir á borðin mín. Ætla að deila með ykkur hluta af dýrðinni, frábærum hugmyndum að því hvernig nýta má texta til skrauts. Vá, ég fæ nánast ofsakláðabólur af spenningi við tilhugsunina eina að prófa þetta allt saman, jeminn!



Ó mamma mía! Ég elska landakort og eeeelska texta þannig að á þessari mynd hitti skrattinn ömmu sína, allavega mína. Þegar ég verð komin í mitt eigið húsnæði - sem verður vonandi fyrir áttrætt - ætla ég að skella í eitt svona, það veit ég jafn vel og að á morgun rennur upp þriðjudagur! Væri líka alveg til í að eiga sófann sem er undir verkinu, en það er önnur saga. 


Falleg, hvetjandi og skemmtileg skilaboð fyrir ofan dyrakarminn. Svo mikið sætt og ekkert eins gott og að horfa á uppbyggilegar setningar daglega. 




Æðisleg hugmynd! Mig hefur oft langað til þess að gera eitthvað listaverk úr textunum mínum. Hugsa að ég láti verða af því áður en langt um líður. Só bjútífúl!



Önnur skemmtileg skilaboð fyrir ofan dyrnar. Væri afar nauðsynlegt á mínu heimili þar sem yngri sonur minn telur sig búa í helli og lokar "útihurðinni" fram á stigagang aldrei nokkurntíman. Líka skemmtilegt hugmynd að búa til stafi úr einhverju (til dæmis tré eða áli) þannig að þeir standi út eins og skúlptúr - allavega hugmynd fyrir lengra komna stafanörda. 



Krítarveggur. Getur komið mjög skemmtilega út. Veit reyndar ekki alveg hvort þetta er krítarveggur, eða bara stafir málaðir á svartan vegg. Var með krítarvegg þegar ég bjó í Reykjavík og Bríet var lítil. Hann vakti lukku, já það sem hann vakti mikla lukku...



...þessi hér er hinsvegar 100% krítarveggur. Bæði er hægt að kaupa sérstaka málningu til verksins en vinkona mín er nýbúin að gera svona heima hjá sér og keypti bara extra matta svarta málningu í BYKO. Þetta er minnsta mál og smáfólkið veit fátt skemmtilegra en að fá að krota á vegginn, ég lofa ykkur því! Finnst þessi sérstaklega fallegur af því að listaverk barnanna eru einnig nýtt á efri hlutann. Finnst fólk mætti vera ennþá duglegra að flagga barnalistinni, en hún er fallegust allra að mínu mati. 



Svo þarf ekki endilega að klístra öllum texta á vegg. Hér er texti beint á skápinn - mjög fallegt.


Sjálf er ég með uppskrift af lummum á eldhússkápnum og sem bæði bragðast vel og kemur skemmtilega út. 

Auk þess er ég með fáránlega skemmtilegt textalistaverk í vinnslu í höfðinu á mér, en meira af því þegar það verður að raunveruleika á stofuveggnum mínum. 

Allar þessar skemmtilegu hugmyndir eru að finna á Pinterest, endilega fylgist með síðunni minni þar. Möguleikarnir eru óþrjótandi, elsku leikið ykkur! 

No comments:

Post a Comment