Sunday, September 28, 2014

Svefnskóli Kristborgar Bóelar tekur til starfa

Svefnskóli Kristborgar Bóelar tekur til starfa hér í Bakkagerði 10 á mánudagsmorgun. Klukkan níu að staðartíma, stundvíslega. Aðeins einn nemandi er skráður í námið - Emil Gíslason, tæplega fjögurra mánaða.




Hér má sjá umræddan nemanda. Þó svo hann virki sakleysislegur hefur hann verið töluvert til vandræða upp á síðkastið og telja foreldrar hans að nú sé nóg komið af fígúrugangi.

Þó svo að næturnar hafi hafi alltaf verið frekar skrautlegar hefur steininn gersamlega tekið úr að undanförnu þegar hann hætti með öllu að sofa á daginn, nema í svokölluðum "powernap-dúrum". Þeir hafa ekki verið að gera nokkurn skapaðan hlut fyrir neinn, hvorki umönnunaraðila né þá hann sjálfan þó síður væri.

Unnið verður eftir bókinni Draumalandið eftir Örnu Skúladóttur. Byrjað verður á því að koma nemanda í ásættanlega rútínu á daginn og lengja lúra. Því næst að fækka næturgjöfum, en þá verða allir svo rosalega glaðir.


Hér má sjá handskrifaða stundarskrá sem hangir nú á ísskápnum. Ehh, já. móðir mín myndi hér segja; "Í Guðanna bænum barn, reyndu að skrifa svo það skiljist."

Emil virðist þó með einhverjum hætti skynja hvað liggur í loftinu, en hann tók sér til og svaf þrjá tíma úti í vagni í dag. Ég endurtek, ÞRJÁ TÍMA, en hann hefur einvörðungu splæst í 10-40 mínútur í einu síðustu tvo mánuði.

Amma hans er æsispennt og hyggst keyra alla leið frá Stöðvarfirði á morgun til þess að fylgjast með kennslu. Verður hún að öllum líkindum umsvifalaust skipaður prófdómari.

Spennandi tímar. Æsispennandi.




Friday, September 5, 2014

Með rassakrem á enninu


Þarna má sjá Emil Gíslason. Með olíu í hárinu, ekki brilljantín. Í dag fór fram töluverð aðgerð sem miðaði að því að minnka skán á höfðinu sem oft vill koma hjá ungum börnum. Verkið fólst í því að maka olíu í hársvörðinn, greiða ósómann úr og enda svo allt saman með baðferð.

Ferlið hófst reyndar í gær. Við hárlínuna var Emil einnig með einhverskonar þurrk sem ég gat ekki lengur látið óáreittan. Bara ekki. Tók því til minna ráða og ákvað að bera sérhannað barnarakakrem á ennið. Málið steindautt.

Eitthvað gekk illa að koma kreminu inn í húðina. Emil var þó óvenju slakur og virtist njóta andlitsbaðsins. Kann gott að meta. Þegar við vorum í miðjum klíðum kom Bríet heim úr skólanum.


Bríet: Hvað ertu að gera?

Ég: Bara reyna að losna við þennan þurrk.

Bríet: Af hverju ertu að bera rassakrem á ennið á barninu?!

Ég: Rassakrem? Þetta er ekkert rassakrem. 

Bríet: Iiii, jú! Þetta er sama kremið og var alltaf borið á rassinn á Rúnari (lítill bróðir föðurmegin)


Móðir ársins. Smurði rassakremi framan í barnið sem ætlað er að blokkera bleytu frá húð. Uppskar því ekkert nema hvítar kremklessur ofan í þurrkinn og barn sem leit út eins og trúður.

Bríet, hún er alltaf með hlutina á hreinu - enda mamma númer tvö. Guði sé lof.

Monday, September 1, 2014

Níu ár

Þór tæplega eins árs.

Þrumuguðinn minn fagnar níu ára afmæli sínu i dag. Elsku karlinn minn sem svo rúðustrikaður og blíður í senn.

Hann er svo sannarlega ekki lengur litla barnið í fjölskyldunni, en hann á orðið þrjá yngri bræður! Honum farnast það hlutverk vel úr hendi eins og flest annað.

Allir á sama báti.

Minn maður er alltaf með sitt á hreinu, alltaf.

Gísli; Hvað ætlar þú að verða þegar þú verður stór?

Þór; Atvinnumaður í fótbolta. 

Gísli; En ef það klikkar? Þú verður að hafa varaplan. 

Þór; Söngvari.

Gísli; En ef það klikkar?

Þór; Það klikkar ekki!

Frá Shellmótinu í Eyjum í sumar

Elsku snúðurinn okkar, innilega til hamingju með daginn þinn.