Friday, October 24, 2014

Föstudags



Ég er með botnlausa dellu fyrir Chillisúpu og var þessi borin á borð í B10 í hádeginu. 

Get því miður sjaldan gefið upp heildrænar mataruppskriftir, meira svona dass af þessu og sirka af hinu. Set bara það grænmeti sem ég á, eða er í stuði fyrir hverju sinni. Þó eru þrjú atriði sem alls ekki mega klikka - chilli, hvítlaukur og tómatar. Heilög þrenning líkt og gull, reykelsi og myrra. Annað er aukaatriði, algert. 

Súpa dagsins var nokkurnveginn svona: 

Sex stórir, ferskir tómatar
Fimm hvítlauksrif
Einn stór, ferskur chilli
Íslenskar gulrætur, kannski svona sex
Ein stór, rauð paprika
Einn laukur
Nokkrar kartöflur
Nýrnabaunir

Henti öllu í pott, nema nýrnabaunum. Svissaði smá stund upp úr olíu og bætti svo við vatni og lét sjóða góða stund. Kryddaði með salti, pipar og grænmetisteningum, en þið bara finnið út hvað ykkur þykir best. Nýrnabaunirnar þurfa ekki í pottinn fyrr en rétt í restina. 

Af því föstudagar eru uppáhalds bauð ég upp á harðsoðin egg út á. Já og ost. Laumast oftar en ekki til þess að setja fjórar, fimm eða sex ostsneiðar á diskbotninn sem bráðna
 dásamlega saman við herlegheitin. Fæ sæluhroll við það eitt að skrifa bráðinn ostur. 

Geri oft fullan pott af súpunni á sunnudagskvöldum til þess að eiga í hádeginu eitthvað fram í vikuna. Eins og flestar súpur er þessi enn betri upphituð. Hún tekur oftar en ekki breytingum frá degi til dags, gott er að bæta í kjúklingi, hakki eða öðrum baunum. Einnig að hakka allt lauslega saman í matvinnsluvél og bera fram með sýrðum rjóma.



Emil græðir undantekningarlítið eitthvað prjónles hvern föstudag. Í dag kom amman færandi hendi með einstaklega kósý "vagnsokka". Eeh, látið sem þið sjáið ekki slefið á barninu, það hefur aðeins gleymst að setja á hann smekk í nokkrar mínútur. Hæglega væri hægt að virkja með munnvatnsflæði hans.



Jólin eru loksins komin í IKEA. Hélt þeir ætluðu bara ekki að hafa það af að koma þeim upp. Landsbyggðarbúseta á vissulega sína kosti en einnig sína arfaslæmu galla. Einn þeirra er 700 kílómetra fjarlægðin við sænska himnaríkið.




Hef þó lært að lifa með þessu og fer í mína verslunarleiðangra á IKEA síðunni. Oftar en ekki við kertaljós og með rauðvínsglas innan seilingar. Prýðilegt bara. Gerði jólainnkaupin áðan og aðventubakkinn minn mun skarta rauðum "heimaprjónuðum" kaðlakertum. 



Fyrsta stútkannan hans Emils er komin í hús. Neyðist hér með til þess að uppljóstra enn eitt stórundarlegt blæti mitt.

Veit fátt skemmtilegra en að skoða og kaupa ungbarnahluti á borð við snuð, pela, könnur og naghringi. Sogast að þessum rekka í apótekinu þar sem ég get eytt óþarflega miklum tíma í að spá og spekúlera. Held að mér sé meira kappsmál að barnið hafi snuð til þess að ég geti bætt í safnið, heldur en af praktískum ástæðum. Vandræðalegt.




Þessi beið mín svo í Krónunni í dag. Nóa Sírius bæklingurinn er jafn órjúfanlegur hluti jólaundirbúningsins og skatan. Nei, segi það nú kannski ekki, en fæ alltaf hlýtt í hjartað þegar ég sé hann bíður mín við kassann.

Af gefnu tilefni. Það eru aðeins 60 dagar þangað til ég mun troða í mig svo mikilli kæstri skötu að maginn á mér logar eftir, Elsku Þorláksmessa, besti dagur ársins.

Njótið helgarinnar. 

No comments:

Post a Comment