Þetta er líklega lengsti bloggtitill sem ég hef nokkru sinni skrifað.
Velti því einnig fyrir mér hvort síðan mín sé að transformast í enn eitt íslenska matarbloggið. Nei, nei, alls ekki. Ég er hins vegar mikið að spá í uppskriftum af hollari mat þessa dagana og finnst tilvalið að deila með ykkur þegar ég dett niður á eitthvað skemmtilegt.
Okkur hjónaleysunum langaði í eitthvað gott í kvöldmatinn. Kalt úti og kósýdagur. Við erum mikið fyrir BBQ sósu. Hún er hins vegar full af sykri og í rauninni hef ég ekki hugmynd um hvað hún inniheldur. Ég ákvað því að leita að uppskrift sem við gætum gert sjálf og væri aðeins hollari en sú keypta.
Ég fann strax uppskrift af sósu, þessi var á Pjattinu. Ég átti allt í hana og var enga stund að hræra hana saman og hún er ferlega góð. Meira að segja Gísli var mjög hrifinn af henni og hann er sá mesti BBQ aðdáandi sem ég þekki.
Hollari útgáfa af BBQ sósu
1/2 dl lífræn tómatsósa (Ég á alltaf sósuna frá Himneskri hollustu en krökkunum finnst hún meira að segja betri en sú hefðbundna)
1/4 náttúrulegt hunang
1 msk Tamari sósa (Kemur í stað soja sósu, en Tamari sósa inniheldur engin aukaefni, bragðefni, litarefni né sykur og aldrei hveiti)
1 tsk sinnep (ég notaði gróft sinnep frá Himneskri hollustu, mjög gott)
1 tsk chilli duft
1/4 tsk sjávarsalt
1/4 tsk nýmalaður pipar
Þessu er bara öllu gluðað saman og volla! Frábær og aðeins hollari BBQ sósa í skál.
Kryddaði kjúklinginn aðeins með Eðalkryddi frá Pottagöldrum, en ég reyni að kaupa kryddin frá þeim en þau eru bæði mjög góð og innihalda engin aukaefni á borð við MSG eða Silikon dioxið.
Hellti sósunni svo yfir og leyfði kjúklingnum að liggja í henni frá miðjum degi. Svo bara inn í ofn við 200 gráður í 40 mínútur.
Já takk. Kjúklingurinn var æði. Mjúkur, safaríkur og sósan reif aðeins í. Fullkomið.
Við höfum oft gert okkur franskar í ofni, bæði úr venjulegum kartöflum og sætum. Hafa verið "í kei" en svosem ekkert meira en það. Alltaf of linar og einhvernvegin ekki nógu spennandi.
Um daginn gerðum við útfærsluna af sætum frönskum úr 30 daga bókinni.
Sætar franskar
Sætar kartöflur
Ólifuolía
Eðalkrydd frá Pottagöldrum
Sjávarsalt
Flysjið kartöflurnar og skerið þær í stafi. Gott er að setja þær í plastpoka, hella ólifuolíu yfir og krydda með Eðalkryddi og sjávarsalti. Hristið pokann þannig að allt blandist vel saman. Setjið smjörpappír í ofnskúffu og dreifið úr kartöflunum.
Bakið í ofni í 45 mínútur við 200 gráður.
Stökkar og "karmellaðar".
Dússupva!
No comments:
Post a Comment