Friday, May 29, 2015

Óþolandi forræðishyggja fyrirtækja


Þessi fjögur eru mér allt. Allt í lífinu. Á ég virkilega að trúa því að dóttir mín fái ekki sömu tækifæri í lífinu og þeir. 

Það er árið 2015. Þrátt fyrir það hef ég, bara núna í vor, heyrt frá fyrstu hendi tvær sögur frá mínu litla landsvæði, Austurlandi. Því má leiða líkur að því að vandamálið sé eins annarsstaðar á landinu.

Hvaða vandamál? Enn og aftur jafnrétti kynjana og í þessu tilfelli gersamlega óþolandi forræðishyggja fyrirtækja. Órétti kynjanna öllu heldur.

Er okkur ekkert að fara fram, í alvöru talað.

Endilega náið ykkur í kaffi, já og kannski súkkulaði ef þið getið, það er nú föstudagur. Hefst nú lesturinn.

Ung og afar frambærileg kona, hámenntuð í sínu fagi, sótti um starf hjá alþjóðlegu fyrirtæki á svæðinu. Nýja mastersgráðan – sem hún lauk með glans á dögunum, meðfram barnauppeldi á sínum tveimur litlu drengjum, rímaði fullkomlega við starfslýsinguna.

Nokkru síðar, þegar dómnefndin hafði ráðið ráðum sínum, var haft samband við hana. Jú, sjáiði til. Samkvæmt ferilsskrá var hún langhæfasti umsækjandinn innan hópsins. Eins og starfið hafi verið hannað fyrir hana.

En, það var hængur á. Starfið krafðist mikilla ferðalaga og jafnvel hlutadvalar í öðru landi. Eftir að hafa talið saman stigin og horft í kristalskúluna, mat dómnefndin það sem svo að konan unga væri ekki fær um að taka starfið að sér.

Ha? Nú? Bíddu, var ekki verið að segja að hún væri besti kandídatinn? Var þetta ekki skrifað í skýin?

Ahhh. Já. Hún á tvö ung börn sem pössuðu ekki inn í módelið. Eftir að hafa troðið þeim inn í jöfnuna fékk hún ekki „dússupva“ lengur, heldur skaust niður í sextánda sætið eins og ICY flokkurinn forðum. Vegna þess að hún err móðir þessara tveggja litlu dásamlegu drengja var talið að hún gæti ekki sinnt starfinu. Hún gæti bara ekki verið að flandrast um heiminn í vinnunni. Það væri bara ekki hægt með hennar heimilisaðstæður.

Ég get varla skrifað meira, ég verð alltaf svo reið þegar ég hugsa um þetta. Og hvað. Jú, hún hefur vissulega skyldum að gegna í sínu einkalífi, eins og við öll. En, mátti hún virkilega ekki bara meta það sjálf hvort hún treysti sér í þetta eða ekki? Það skal tekið fram að maðurinn hennar studdi hana 100% við í ferlinu og hvatti hana til þess að sækja um starfið, algerlega tilbúinn til þess að taka slaginn – enda fullfær um að sinna börnunm sínum og heimili.

Nú skulum við aðeins snúa dæminu við. Hefði verið komið svona við hann, hefði hann komið með glænýja, sérhannaða mastersprófið sitt og sótt um starfið. Nei, því miður góði minn, við sjáum ekki að þú getir sinnt þessu vegna drengjanna þinna. Hefði hann mætt þessu niðurlægjandi og gersamlega óþolandi forræðishyggju? Aldrei nokkurntíman. Aldrei.

Hitt dæmið er enn nýrra. Vinkona mín sótti um auglýst starf á svæðinu. Sérfræðistarf. „Við hvetjum jafnt konur sem karla til þess að sækja um starfið“ – sagði auglýsingin. Einmitt.

Hún fer í viðtal og gengur bara vel. Hefur allt fram að færa sem beðið var um. Kemur himinsæl til baka, fannst sér hafa gengið svaka vel.

Heyrir útundan sér skömmu síðar að eigendur vilji síður ráða til sín ungar konur með börn, það sé ekkert nema tómt vesen að hafa þær í vinnu. Skemmst er frá því að segja að hún fékk ekki starfið, heldur einhleypur karlmaður. Auðvitað.

Ok. Sko. Ég er móðir fjögurra barna – give or take. Þrjú þeirra eru drengir og svo ein stúlka. Ég hef lagt mig alla fram við að ala þau upp á þann hátt að þau finni og trúi því að þeim séu allir vegir færir.
Hef gert allt mitt til þess að hvetja þau og tyggja inn í hausinn á þeim að þau geti gert allt sem þau ætla sér í lífinu – að sjálfsögðu jafnt við hana og þá.

Hvernig í andskotanum á ég að gera þetta ef boðskapurinn á svo aðeins við ¾ þeirra þegar út í lífið er komið. Er þetta ekki að verða svolítið þreytt krakkar? Það er jú árið 2015.

No comments:

Post a Comment