Monday, August 31, 2015

Mánudagur til mæðu



Í alvöru. Er segulstormur í aðsigi? Ráðist á Valtý Björn, Völli Snær ákærður um fjárdrátt og Bjarni Ben kallar sig IceHot1 á Ashley Madison. Persónulega finnst mér þetta of mikið á rúmum sólarhring.

Það er allavega eitthvað í loftinu, ég er sjálf búin að eiga frekar ömurlegan dag.

Fyrir það fyrsta er örverpið að hefja sína leikskólagöngu sem virðist ætla að verða eins og fótganga manns í gipsi upp sandfell, þ.e. tvö skref upp og þrjú niður. Emil fer sumsé að jafnaði tvo daga í leikskólann og "liggur" svo viku heima með hita og hor. Og augnsýkingu. Svo mikla að ég þarf að notast við hamar og meitil til þess að opna á honum augun á morgnana.

Þetta ástand leiðir svo til þess að vinnuvika foreldranna er skert í meira lagi. Í dag kom amma Jóna þó til bjargar. Brunaði frá Stöðvarfirði til þess að vera með hitapokann sinn.

Jæja. Ég í vinnuna. Já, eða í vinnuna. Það er ekki eins og ég eigi vinnuaðstöðu, þannig að ég hef þröngvað mig upp á fólk í öðru fyrirtæki sem reyndar tekur mér opnum örmum. Fengið að skjóta mér þar inn og skrifa fréttir.


Kem stormandi inn. Vind mér í næsta lausa pláss og hef upp-pökkun úr svörtu skjóðunni. Já, þarna var tölvan. Pennaveskið (eða pennataskan öllu heldur), svarta bókin góða og skítableija. Iii, já. Skítableija í plastpoka. Sem ég hef líklega ætlað að fara með út í rusl á leiðinni út en troðið í töskuna. Og keyrt með í vinnuna. Og skellt upp á borð. Bingó. 12 stig.


Jæja. Ég hafði setið í góðan klukkutíma og unnið að blaði vikunnar þegar það gerðist. Annað mánudagsatriðið, en þarna var klukkan ekki orðin tíu. Þar sem ég sit í algerum rólegheitum finn ég að eitthvað undarlegt er að gerast. Ég horfi á borðið sem ég sit við - risastórt skrifstofuborð- leggjast út af. Í sló mó. Einhverra hluta vegna gáfu framfætur þess sig á sama augnabliki og allt sópaðist af borðinu sem ég sat svo með í fanginu. Já. Ég er ekki að tala um eina fartölvu sem fór á flakk. Svona meira einn tölvuskjá, kaffibolla, vatnsflösku, bolla, yfirfulla pennahólka auk bóka og blaða fyrir alla heimsbyggðina.

Við þetta fékk ég aftur í bakið. Keyrði svo næstum á kött á leiðinni heim.

Á morgun. Þriðjudagur. Til þrautar?

No comments:

Post a Comment