Þá er enn og aftur komið að þessu mánaðarlega. Nei, ekki því krakkar, heldur flutningunum mínum. Ég hef það orðið fyrir sið að flytja svona að meðaltali einu sinni í mánuði – eða ókei, allavega einu sinni á ári. Nú aðeins á milli blokka hér á RF-city, en það er þó andskotans nóg þar sem aðeins eru nokkrar vikur síðan ég dröslaði mér hér inn í Melgerði 9. Telst mér þá til að ég sé að flytja í sjöunda skiptið á sex árum og geri aðrir betur – en þó vona ég ekki þeirra vegna!
En, ekki meikar nokkurn sens að væla, heldur sjá það jákvæða í þessu öllu saman. Eins og…
- Ég á ekkert aukadrasl, fer samviskusamlega í gegnum allt og hendi við hverja flutninga! Humm, eða hvað? Hvaðan í dauðanum kemur allt þetta dót? Finnst magnið engan vegin eðlilegt þegar ég er að pakka, hvernig væri þetta ef ég hefði búið á sama stað síðan land byggðist? Jeminn!
- Maður fær rosa massaða upphandleggsvöðva við allan burðinn, TRÚ!
- Maður styrkir vináttuböndin, en það er fátt meira gefandi en að bera kassa með þeim sem standa manni næst, kófsveittur. Verst að þeim finnst flutningarnir mínir líklega orðin hálfgerð fangavinna, ég meina til hvers að vera að koma mér í höfn þegar ég pakka aftur um leið?
- Ég fæ útrás fyrir brjálæðislega hönnunargleði mína þar sem mér finnst fátt skemmtilegra og meira gefandi en að koma mér fyrir á nýjum stað. Er löngu búin að dekkóreita næstu íbúð í huganum. Hei, já – á einhver eitt bil af hansahillum til að selja mér? Er komin með tvö en væri svo rosalega mikið til í eitt í viðbót – er nebblega að fá svo mikið af bókum að gjöf! Líður eins og ég sé að fá risastóran lottóvinning, þar sem fátt er fallegra og hlýlegra í allri veröldinni en „bókað” umhverfi. Já, bara eiginlega ekki neitt!
Þannig að þið sjáið það, það er barasta góð hugmynd eftir allt saman að flytja reglulega. Já, ég bara mæli með´essu. DjóK! En, ég er farin að pakka. Skrifa næst úr Melgerði 7, íbúð 403. Síjú!
No comments:
Post a Comment