Saturday, December 1, 2012

Hibb, hibb, húrra!


Fyrir sléttum tíu árum síðan fékk ég fyrstu merki um verk. Korter í eitt, eftir miðnætti aðfaranótt mánudagsins 2. desember. Tveimur klukkustundum síðar var hún mætt á svæðið. Engin tími til þess að hangsa, hvorki þá né nú. Hefur alltaf viljað vera fyrst og fremst í öllu því sem hún tekur sér fyrir hendur. Kvenskörungurinn, dugnaðarforkurinn og snillingurinn minn Bríet…
Brosi alltaf þegar ég hugsa um þennan dag. Sex ár frá síðasta barni sem fæddist þarna í fornöld. Stóri stolti bróðir hennar kom á fæðingardeildina um hádegi. Gekk feiminn að rúminu og sagði: Hún er sæt. En samt með grísanef!
Á leiðinni heim þótti mér svo tilvalið að stoppa í apóteki til þess að kaupa snuð - 16 tegundir helst, því stúlkubarnið átti ekki að fá að komast upp með viðlíka fígúrugang og eldri bróðir hennar, að vilja ekki snuð. Nei, ekki sjens. 
Það er einstakt ástand sem konur (og líklega allir foreldrar) fara í kringum fæðingu. Eitthvað sem ekki er hægt að lýsa fyrir þeim sem ekki hafa upplifað. Manni finnst eins og öll jarðarkringlan snúist aðeins um- og fyrir sig og smáfjöskylduna. Á leiðinni í snuðainnkaupin horfði ég á fólk út um bílgluggann. Þarna var fólk bara í hversdagslegum athöfnum eins og ekkert væri sjáfsagðara. Sumir voru úti að skokka, aðrir á leið í kaffi með vinum og enn aðrir að snattast fyrir vinnuna. Bara sísvona, eins og þetta væri bara eins og hver annar venjulegur dagur. Halló!
Þess má geta að Bríetarbarnið tók ekki snuð. Ekki fyrr en hún var tveggja og hálfsárs og fann þau í dótakassanum. Það var bara af því henni datt það í hug sjálfri, ekki einhverjum öðrum! 
Hún er duglegasta manneskja sem ég þekki og kallar fátt ömmu sína. Ég spái því að verði hægt að merkja X við Bríeti á Bessastaði árið 2028…
Elsku stelpan okkar, til hamingju með daginn þinn. Þú gerir lífið skemmtilegra!

No comments:

Post a Comment