Eftir kvöldmat þótti mér þó alveg eins líklegt að ég hefði snætt síðustu kvöldmáltíðna, eins og Jesús forðum. Ekki var um matareitrunareinkenni að ræða, já nei nei. Aðeins alvarleg ofátseinkenni. Þá meina ég alvarleg. Kann ég mér ekki hóf? Nei. Er ég matarperri? Já. Er ég hissa á því að ég hef bætt átta kílóum á rassinn á mér síðan við Gísli hittumst? Nei. Er það allt tengdamóður minni að kenna? Vildi að ég gæti sagt já, en svarið er nei. Hún lagði þó sitt af mörkum í gær, myndirnar tala sínu máli...
Jóna Mekkín gerir bestu sveppasúpu sem ég hef smakkað, það er bara þannig. Sjálf geri ég mjög fína en ekki eins og þessa. Hún auðvitað lét eins og sönn amma þegar ég spurði hana um uppskrift. Þá var það dass af þessu og sletta af hinu. Ég skil þetta þar sem ég er sjálf orðin mjög gömul og farin að haga mér svona við matargerð. En, hún gerir sirka svona - vil vekja sérstaka athygli á góðum mælieiningum:
- Steikir slatta af ferskum sveppum í íslensku smjöri - örugglega akkúrat mátulegra stórri smjörklípu!
- Í rammíslenska sveppasmjörið setur hún grænmetisteninga og hveiti til þess að baka súpuna upp.
- Þynnir hana svo út með vatnsslettu og matreiðslurjóma, segir hann betri til brúks en rjóma-rjóma.
- Dassar svo salti og pipar út í herlegheitin og volla!
Þetta er nú svona sirka eins og ég geri mína, en það verður engin Mekkínarsúpa. Kannski hef ég þó alltaf notað sveppateninga í staðinn fyrir grænmetis. Það er lógíg í því, en þar hugsanlega liggur hundurinn grafinn?
En allavega. Súpan er frá öðrum heimi og ég stalst til að borða tvo diska. Dugleg stelpa. Hefði ekki þurft að láta meira ofan í mig, en fjörið var bara rétt að byrja og ég er nú ekki vön að láta mitt eftir liggja í þessum efnum...
Lambalæri með öllu. Ekta sunnudags. Elska læri þar sem ég á aldrei pjeníng fyrir svoleiðis, aðeins nautahakki sem er svo örugglega ekki nautahakk eftir allt saman! Vá hvað þetta er fallegt, langar bara að stækka þessa mynd og ramma hana inn...
Brúnaðar, nema hvað? Sykur? Smá, bara smá. Namm...
Tengdó hitar gulu baunirnar alltaf (hafði aldrei áttað mig á slíku eftir 100 ára búskap) og setur á þær smjör og salt. Sjæs!
Ókei. Eftir þetta hefði mér verið hollast að stoppa. En ég vissi hvað beið mín og það var ekki til umræðu. Það er rosalegt, segi ég og skrifa!
Krakkarnir. Já þau. Ég hafði bara engan tíma fyrir þau. Eða þau fyrir mig. Það var svona gaman í rúminu hans Arons...
En, þá er komið að því sem allir hafa beðið eftir. Það er að kíkja inn í ískápinn hjá Jónu rétt fyrir kvöldmat, en hún ákvað að gera vel við sína og bjóða upp á átta Pavlóvur, eina á mann! Hún er rosaleg!
Nei, þetta er ekki Breiðholtsbakarí korter í skírdag, þetta er ísskápurinn í Miðdal, korter í sex, síðasta sunnudag. Komið þið sæl og blessuðl! Ég lagði ekki í það að dassa uppskriftina út úr Jónu, heldur gef ykkur þessa hér, held að þær séu flestar svipaðar - nema engar eins fallegar og þær sem við tróðum í okkur í gær...
Bríet er frekar sátt með sitt!
Þrátt fyrir að vera komin í hálfgerða andnauð af ofáti gat ég ekki staðist þennan. Tommi töffari er í baksýn, stenst hann ekki heldur! Sunnudagar, lovit!
No comments:
Post a Comment