Friday, November 29, 2013

Aðventan er handan við hornið

Langaði að henda inn ritstjórapistli vikunnar, hann er bara svo jóló...




Aðventan er handan við hornið, skemmtilegasti tími ársins að mínu mati. Tímabil þar sem  haldið er í hefðirnar. Ég hef oft hugsað þetta eftir ég fór sjálf að búa. Ég held þó að mín kynslóð sé örlítið rólegri í tíðinni í tengslum við þrif og bakstur, en líklega hefur eitthvað annað komið á móti.

Í minningunni gekk allt á tveimur vikum fyrir jól. Þegill, Ajax, tuska og tékklisti. Glerskápur í stofu og allt innan úr honum þrifið, tékk. Veggir í stofu, tékk. Loft í gangi, tékk. Eldhúsinnrétting og allir gluggar í húsinu, tékk, tékk!

Í Heiðmörkinni var svo enginn maður með mönnum, eða kona með konum öllu heldur, nema að baka í það minnsta 11 sortir. Það voru mömmukökur, loftkökur, vanilluhringir, negulkökur, hálfmánar, súkkulaðibitakökur, smjörkökur og allt hitt. Smjörkökur já. Spesíur er víst samheiti. Aldrei skildi ég það fyrirbæri. Hvítar, ljótar kökur með smjörbragði. Til hvers í ósköpunum. Já, nei, nei. Það var eins og við manninn mælt – um leið og mamma hafði lokið við að baka þær var blásið í þokulúðra og allar vinkonurnar úr götunni voru mættar, á nóinu. Mættar til þess að smakka og blessa þessa dásemd sem þær litlaustu voru. Fengu sér kaffi úr glasi með. Herra minn trúr.

Ég hef reynt að tóna mig niður í herlegheitunum. Ég baka alveg og þríf sko. Þrennt hefur þó ekki breyst milli ára hjá mér og kýs ég að klikka ekki á þeim atriðum. Einhverra hluta vegna hef ég talið mér trú um að jólin komi alls ekki nema ég taki til og þrífi innan eldhússkápana og svo gluggarnir. Þá bara verð ég að þvo og pússa. Amen.

Líka þetta með mömmukökurnar. Ekki nóg með það að ég verði að baka þær til þess að detta í gírinn heldur er serimonían við þær alltaf eins. Ég leita að uppskriftinni. Í öllum mínum lausablaðsuppskriftum. Leita og leita. Skil ekkert í þessu. Enda á því að hringja í mömmu, fimmtánda árið í röð og láta hana lesa uppskriftina fyrir mig. Hún var til dæmis að því núna rétt áðan. Tékk.

Mömmukökur

125 g sykur
125 g smjörlíki (ég frábið mér að nota það nokkurntíman, vil bara íslenskt smjör)
250 síróp
1 egg
500 g hveiti
2 tsk natron
1 tsk engifer

Hitið saman að suðu, smjör, sykur og síróp. Hellið saman við rest þegar það hefur kólnað lítillega. Hnoðið og látið deigið bíða yfir nótt í ísskáp. Bakið og setjið kökurnar tvær og tvær saman með smjörkremi. Þá mega jólin koma fyrir mér.

P.s. ef ég fer að tala um þetta sama að ári, þá kannski minnið þig mig á uppskriftin sé nú skjalfest í Austurglugganum. 

No comments:

Post a Comment