Ég las nýverið færslu hjá Facebook-vinkonu minni sem fjallaði um sparnaðarráð í innkaupum. Það fólst í þeirri einföldu aðgerð að setjast niður í ró og næði á sunnudagsmorgni yfir rjúkandi kaffibolla. Fletta bókum og blöðum og skipuleggja matseðil viku fram í tímann (sé fyrir mér í það minnsta fimm daga). Skrifa niður allt sem honum tengist og hægt er að kaupa inn með svo miklu fyrirvara. Vel má þá bjóða fjölskyldumeðlimum í kósýheitin í blálokin og finna í sameiningu "nýja rétt" vikunnar. Vinkonan mælir svo með því að fara vopnuð skipulögðum innkaupalista í búðina eftir hádegi, barnlaus.
Með þessu vinnst ekki aðeins tími seinnipartinn í annasamri viku, sem annars fer í velta upp þeirri skemmtilegu spurningu "hvað er í matinn" - heldur sparast bæði tími, fjármunir og geðheilsa að þurfa ekki í búðina á hverjum degi.
Ég hef tekið tímabil eftir þessari snjöllu leið og þá skrifað tilvonandi matseðil á ísskápinn þannig að allir séu meðvitaðir um hvað framundan sé - en með því móti er miklu minna suð og tuð hjá yngri kynslóðinni. Ég hef ekki enn komið mér í réttu stellingarnar, en stefni ótrauð á sunnudaginn næsta.
Í dag - á mánudegi - þegar búið er að rigna stanslaust frá áramótum nennti ég bara ómögulega takk að verja miklum tíma í matarplön eða þá eldamennsku. Fór á eina af mínum uppáhalds uppskriftasíðum, Gulur, rauður, grænn & salt og fann uppskrift af þessu dásamlega letipasta hér, sem hæfir einmitt blautum og köldum dögum sem þessum. Dásamlega einfalt og gott og mjög miklar líkur eru á því að þú eigir allt í réttinn án þess að fara út í búð.
Ég átti einnig tvær lúkur af klettasalati sem ég bauð með og það passaði einstaklega vel við.
Letipasta - ljósmynd og uppskrift gulurraudurgraennogsalt.com |