Jebb, Bali.
Af hverju? Með hverjum ertu að fara, af hverju ertu að fara þangað og hvað ertu að fara að gera? Já og síðast en ekki síst, hvar verða börnin þín?! Þetta eru algengustu spurningarnar á Íslandi í dag.
Er von þið spyrjið? Það er ekki eins og ég sé að skreppa til Akureyrar!
Ég er sem sagt að fara í smá skóla á Bali, fyrstu lotu í þerapistanámi sem nefnist "Lærðu að elska sjálfan þig" - prógramm sem ég sjálf er búin að vera í síðan í september þegar líf mitt fór á hvolf, gersamlega.
Ég tók skyndiákvörðun í nóvember að fara í námið og gera það helst á Bali. Í stuttu máli þá setti ég allt á fullt til þess að skoða þennan möguleika, sem yrði þá einnig kærkomið frí eftir ógeðslega þungan vetur. Í ljós kom að ég er að borga í "rétt" stéttarfélag í þessu tilfelli, en AFL borgar nánast allt námið mitt og niðurgreiðslu á fluginu mínu.
Fluginu sem kom mér verulega á óvart að væri ekki dýrara en það er. Það kostar mig tæpar 170 þúsund krónur að koma mér hinu megin á hnöttinn, að fljúga sex leggi, samtals um 20 tíma hvora leið. Það finnst mér ekki mikið svona miðað við það að flug á fullu fargjaldi milli Egilsstaða og Reykjavíkur kostar nánast það sama!
Ég er semagt að fara í nám hjá henni Ósk sem hefur verið með vinsæl námskeið fyrir konur á Bali um nokkurt skeið. Munurinn er sá að ég er ekki að fara á slíkt námskeið, heldur kennaranám og læra það sama og hún.
Ég mun dvelja tvær vikur á stað sem heitir Ubud - en það er einmitt staðurinn sem kvikmyndin Eat, pray, love með Juliu Roberts var tekin upp. Mér skilst að Bali sé alger paradís og ég eigi eftir að upplifa dásamlegar stundir næstu tvær vikur.
Ég er með þessri uppákomu minni að fara ansi vel út fyrir þægindahringinn minn, en ég er afskaplega lítið veraldarvön stúlka og hef til dæmis aldrei ferðast ein gegnum alþjóðlegan flugvöll. Ég er ó-ratvís með eindæmum og villist á Keflavíkurflugvelli ef því er að skipta, þannig að þetta verður eitthvað!
En, með því að gera þetta, ferðast alein, á mér eftir að líða eins og algerum sigurvegara, þar sem ég er búin að búa mér til alveg hræðilega stórt flugvallaskrímsli sem verður frábært að fella.
Og já, ég verð ein á Bali, svona þegar ég verð ekki í skónaum. Ein með sjálfri mér er allt sem ég þarf núna. Þetta þykir með eindæmum undarlegt. Ein. Fólki þykir það undarlegt. Mjög.
Já og börnin mín verða bara hjá feðrum sínum í góðu yfirlæti, en ekki hvað? Ekki á Rauða kross hóteli.
En, nú verð ég að fara að pakka. Ekki seinna en strax þar sem ég fer suður snemma í fyrramálið. Skilst í þessu tilfelli sé kúnstin að pakka nánast í tóma tösku. Er þetta svosem ekki það eina sem raunverulega þarf?
Sjáumst í Ubud.
No comments:
Post a Comment