Monday, February 1, 2016

Ferðasaga lítillar konu

Byrjaði ferðalagið mikla á því að sofa yfir mig. Stillti klukkuna á 03:50 aðfaranótt sunnudags, bara svona til þess að vera "on the safe side", en ég náði að sannfæra vin minn að það væri bara frábær skemmtun að skulta mér á völlinn - svona sunnudagsbíltúr. 

Annað hvort hefur klukkan ekki hringt eða þá ég sofið það af mér því ég vissi ekki af mér fyrr en ég vaknaði (blessunarlega) við „blíng“ á Facebook frá öðrum vini, áhugasömum um ferðalagið. Þetta hafðist á réttum tíma en úff hvað það gerir lítið fyrir mann að vera á síðustu stundu og það í svona aðstæðum.

Það hljómar líklega eins og ég sé ekki deginum eldri en ellefu ára og hafi aldrei einu sinni komið til Reykjavíkur. Það er nánast þannig - í það minnsta hef ég aldrei ferðast erlendis ein og var búin að selja sjálfri mér að ég kæmist ekki ein í gegnum flugföll eða guð veit hvað. Það er allt annað að fara einn í stað þess að fylgja maka, vinkonu eða öðrum ferðafélögum - en vissulega lítið mál þegar á hólminn er komið, eins og flest. 


Klassísk mynd á Kefló



Jæja. Leifsstöð. Fyrir ferðalagið hafði ég ákveðið að nýta flugvallarstarfsmenn á öllum áfangastöðum í botn. Stormaði því að uppstrílaðri stúlku sem sagði mér að innrita mig í kassanum. Bókaði þvínæst töskurnar alla leið á Bali. Ok, nú má þetta bara hefjast.

Sat milli tveggja ungmenna á leið minni til Frankfurt. Áætlaður flugtími tveir og hálfur tími. Um ferðir stúlkunnar veit ég ekkert en hann var íslenskur menntaskólanemi á leiðinni í tveggja vikna þýskuskiptinám í Þýskalandi. Mér þótti þessi íslenska tenging eitthvað voðalega heimilisleg að ég sofnaði slefandi á öxlinni á honum.

Slefblaut og með krumpaða kinn lenti ég í Þýskalandi. Ákvað að sýnast súperkúl og fylgja bara straumnum út úr vélinni. Það er í öllum tilfellum best. Eða svona flestum. Stundum allavega. 

Ekki þarna og átti ég að vita mikið betur. Við komum inn í Terminal 2 og ég þurfti að koma mér yfir í Terminal 1 þar sem innritun fyrir flugið til Singapore fór fram. Ég áttaði mig á þessu þegar ég stóð við bandið í bið eftir töskunni minni sem ég sjálf hafði innritað alla leið og tæki bara á flugvellinum í Bali á morgun. 

Obbosí. Hvað átti ég þá að gera? Hvert átti ég þá að fara til þess að komast á rétta sporið yfir í Terminal 1. Hvernig átti ég að láta það líta þannig út að ég væri ekki svona illa með á nótunum. Allt voru þetta verðugar spurningar sem ég þurfti að svara sjálfri mér. Blessunarlega var löng bið í næsta flug, óþarflega löng reyndar, átta tímar. 


Infó-desk mennirnir

Information-desk. Þar stóðu þrír flugvallastarfsmenn og réðu ráðum sínum á þýsku.

„Excause me, can you help me? Im not sure how to go to Terminal 1 from here?

Þeir litu snöggt á mig og sögðu mér að fara til hægri, svo vinstri, svo hægri, hægri, hægri, jafnvel upp og niður og svo taka lest.“

"Train?“ sagði ég með skelfingu.

„Yes, but just a little one“ sagði einn og mótaði með fingrum sínum bil sem passaði fyrir einn Maxboxbíl, semsagt pínu-ponkulítil lest.

Sá hinn sami sá hvað ég var utangátta og sagði;

„Just wait, ill show you“

Góður Guð, takk.

Kollegar hans gáfu honum góðfúslegt ferðaleyfi til þess að reyna að koma vitinu fyrir ráðvilltu konuna frá Íslandi.

Við trommuðum af stað, ég og tyrkneski vinur minn í gula vestinu. Um ganga, í lest og um meiri ganga.

Hann mig á leiðinni hvaðan ég kæmi, hvað ég gerði, hvort ég ætti fjölskyldu og hvað í fjáranum ég væri að fara að gera á Bali. Hvað byggju margar milljónir á Íslandi og hvort þar væri stanslaust 20 stiga frost. Af hverju ég ætti svona mörg börn og hvort það gæti staðist, þar sem ég væri yfirhöfuð sjálf bara barn. Ég svaraði eftir bestu getu og fannst mér ekkert vanta nema þá kannski bjöllu til þess að svara hraðaspurningum. 


Ekkert annað í stöðunni en einn MD í Frankfurt



Hann skilaði mér, kom með tillögu af því hvernig ég gæti varið deginum á vellinum , kvaddi mig með því að hann yrði að vinna fram á kvöld og ég myndi bara hafa samband ef ég yrði lost að nýju. Aðeins fjórir tímar búnir af ferðalaginu og ég nánast komin með kærasta. 

Eftir afar langa bið var loks komið að langa fluginu til Singapore. Ég hafði reynt að gera mér í hugarlund hvernig það væri að sitja í flugvél í tólf tíma en hafði að sjálfsögðu ekki við því nokkur svör. Ég fór um borð klukkan tíu í gærkvöldi, tólf tímum eftir að ég lagði af stað frá Íslandi. 

Mér leið eins og grófgerðri tröllskessu miðað við flugfreyjurnar hjá Singapore Airlines sem trítluðu inn í vélina með uppsett hár og allar í eins kjólum. Enginn yfir BMI-stuðli. Sat við gluggann við hlið mæðgna frá Singapore. 






Þær byrjuðu á því að afhenda öllum heita klúta, sokka, tannbursta og sitthvað fleira sem nýst gæti um borð. Á þessu tólf tíma flugi held ég að mér hafi tekist að dotta í svona þrjá undir morgun. Bæði fór ekkert sérstaklega vel um mig og svo var ég of meðvituð um þessa miklu fluglengd. Auk þess voru litlu dúkkurnar alltaf að bjóða mér eitthva að borða og það er nú ekki eitthvað sem ég læt fram hjá mér fara.

Vélin lenti átakalaust í Singapore klukkan tíu í morgun, en á þeirri mínútu sem við snertum jörð fór klukkan fram um átta tíma og varð fimm og þar með var ég búin að missa daginn. 

Það var þó ekki eitthvað til þess að hafa áhyggjur af, heldur það að ég hafði aðeins 45 mínútur til þess að koma mér um borð í síðustu vélina, til Bali. Og það á Singapore-flugvelli sem er ekki af minni gerðinni. Fyrir mér lá að fara frá Terminal 3 yfir í Terminal 2. 


Teppalagða flugstöðin í Singapore - þarna sést afan á nýju vinkonu mína. 

Þegar ég kom út úr vélinni bendir flugþjónninn mér á eldri hjón sem voru að fara sömu leið. Eldri hjón frá Frankfurt sem dvelja nokkrar vikur á Bali á hverju ári. Ég hengdi mig á þau og saman hlupum við eftir teppalögðum göngum flugvallarbyggingarinnar. Við náðum fluginu og enduðum á því að skiptast á persónuupplýsingum. Ekki nóg með það að semí-eiga tyrkneskan kærasta þá hef ég nú eignast vini frá Þýskalandi sem eru bæði ellilífeyrisþegar. 



Maturinn varð asískari þegar á leið ferðina. 


Sjoppan mín var opin allt flugið. 


Flugið til Bali var svo tveir og hálfur klukkutími. Þegar þangað var komið beið eftir mér bílstjóri kennarans míns sem ég dvel einnig hjá. 

Ég gekk á vegg þegar ég kom út úr flugstöðinni, það var 18 stiga hiti þarna klukkan hálf tíu í kvöld og sjúklega rakt. Klikkaðar þrumur og eldingar. Undarlegt að lenda í myrkti og hafa enn ekki græna glóru um hvernig umhorfs er úti. 


Frekar sátt við komuna til Bali. 

Það er klukkutíma akstur frá vellinum og hingað í bæinn minn, Ubud. Þar tók Ósk á móti mér. Þegar ég sá hana fór ég nánast að gráta - af gleði, sjúklegu stolti og ánægju með sjálfa mig. Leið eins og ég væri keppandi frá Kenía í göngu á palli á Ólympíuleikunum. Ég fokkíng gerði þetta! Ég þurfti að klípa mig! 


Fékk bestu velkomin-gjöfina frá Ósk; Dream big!


Hvern hefur ekki dreymt um himnasæng?


Nú ligg ég í kóngarúminu mínu með himnasæng. Eðla röltir á veggnum og froskarnir suða úti. Við Ósk erum búnar að gæða okkur á flatbrauði og Smjörva að heiman. 

Hef líkelga frá mörgu að segja og þið munið njóta þess. En núna verð ég að berja mig niður og fara að sofa. Klukkan er að verða hálf fjögur. Skóli og lífið almennt á morgun. Ef ég er ekki lukkunnar pamfíll, hvað bara er ég þá?





No comments:

Post a Comment