Thursday, March 7, 2013

Google kann allt. Líka að lykkja saman

Hef prjónað frá því ég man eftir mér og get bara nánast gert hvað sem er í þeim efnum ef mér sýnist svo. Já, svona næstum því. Allt nema að lykkja saman. Að lykkja saman merkir á mannamáli að sauma peysur saman undir höndunum svo það virðist vera prjónað. Ég hef látið hina og þessa sýna mér galdurinn, líklega 20 sinnum ef allt er talið saman. Án alls árangurs. Það er alltaf sama sagan, þegar peysan er búin og kemur að þessum leiðindafrágangi, þá er ég strand. Eins og Herjólfur í Landeyjarhöfn. Aftur og aftur. Verð eins og þriggja ára barn með mótþróaþrjóskuröskun! 

Í dag ákvað ég að þetta gengi ekki lengur. Bara alls ekki og engan veginn. Þarna lá peysan hennar Bríetar, löngu tilbúin - nema með stóru gati undir báðum höndum og hettu sem enn lúkkaði eins og risastór kragi. Fjandinn sjálfur...

Hvað með að gúggletta, eins og allt annað. Hvar væri ég án Google? Sló inn að lykkja saman og viti menn, upp hrönnuðust prjónakennslumyndböndin. Ég sló því til. Hvatti Gísla til þess að horfa á einhvern lögguþátt á meðan svo hann væri ekki að trufla mig við þetta vandasama verk. Og svo bara Play! 




Horfði líklega á myndbandið svona átta sinnum, nó djók! Ekki að þetta sé svona stjarnfræðilega flókið, heldur bara ruglingslegt. En, eftir að við gerðum þetta nokkrum sinnum saman, ég og nýja vinkona mín þá gekk þetta! Já, það gekk. Ég kann nú að sauma sem lítur út eins og prjón - samasem lykkja saman! Jeii. Til hamingju ég! Það sem ég var ánægðust með í myndbandinu var að hún hvatti mig til þess að fá mér jafnvel vínglas. Læk á hana, við skiljum hvor aðra! Kunni ekki við það þarna í hádeginu, en klárlega næst!

Sönnunargagnið er hér:


Nærmynd af hettunni. Ekki myndi nokkur lifandi sála reyna að halda því fram að það sæist að þetta væri lykkjað saman í miðjunni.  



Sko. Nú á bara eftir að klippa hana og setja rennilásinn á. Æji, já. Ég kann það reyndar ekki heldur. Gúúúggúl...



No comments:

Post a Comment