Tuesday, March 5, 2013

Ilmvatnsbömmer

Fari það í hábölvað. Er nánast sjúr á því að ég sé að lenda í enn einum ilmvatnsbömmernum í mínu lífi, en það er ekki góð skemmtun. Ég veit að það er mjög erfitt að gera mér til hæfis og þeir sem standa mér næst dettur ekki í hug að gefa mér nýja lykt!

Staðreyndin er sú að mér finnst 90% ilmvatnslykta vond, eins og óspennandi uppvottalögur. Ég hef aldrei orðið fyrir jafn miklum vonbrigðum og þegar Sarah Jessica Parker afhjúpaði eigið ilmvatn hér um árið. Það sem ég var búin að bíða og það sem ég gerði mér miklar vonir. Mér finnst hún flottasta kona í heimi og gerði ráð fyrir að hún kæmi með The ilmvatn. Já, nei. Ekki alveg. Bara enn einn súra og beitta ilminn sem minnir á ódýran klósetthreinsi.

Það er kannski erfitt að lýsa lykt með orðum, en ég get nákvæmlega sagt hvað ég vil. Ég vil hafa hana heita, sæta, frekar þunga, seiðandi og sexý. Þær eru hins vegar vandfundnar. Það sem miklu verra er að þegar ég hef fundið akkúrat það sem mig langar í þá hætta þær í framleiðslu. Eins og við manninn mælt. Það er nú að gerast enn einu sinni...



Ég var í mörg ár með By Night - Jette Joop. Það er algert uppáhald - svo gott að mig langar til þess að drekka það. Lengi vel fékkst það hér heima, út um allt. Undir það síðasta þurfti ég að keyra upp í efra Breiðholt eftir því, var bara til í lítilli búð í Fellahverfinu. Leið alltaf eins og ég væri að sækja dóp þegar ég fór þangað! Svo hætti það að fást hérlendis, aðeins í fríhöfninni. Ekki leið á löngu uns það hvarf þaðan líka. Ég dó ekki ráðalaus og fékk mér tengda manneskju til þess að kaupa það alltaf fyrir mig á Spáni. Fyrir ári hætti það að fást þar líka.




Í sumar hitti ég stelpu sem var með Flowerbomb Extreme - Victor and Rolf. Ó mér fannst ég vera komin til himna. Elti hana uppi og spurði út í málið. Jú, góssið keypt í fríhöfn allra landsmanna, tékk! En, ekki var þá sama að kaupa Floverbomb Extreme eða bara Flowerbomb. Ó nei, að því komst ég svo þegar ég fór í fríhöfnina í desember. Þær lyktir eru tvær ólíkar þó skyldar séu. Mér finnst mín miklu betri, já bara himnesk. Hún hefur vakið mikla athygli og fallið afar vel í kramið hjá flestum sem í kringum mig eru.

Þar sem glasið er nú hálfnað og ég get ekki hugsað mér að vera án þess fór ég Lyfju í Kringlunni í gær og spurði hvort það væri nokkuð til þar. Stúlkan sagði ekki svo vera, það hafi aðeins verið til í Leifstöð en ekki lengur því um sumarilm hafi verið að ræða, sem ekki komi aftur. Nei. Nei, nei, nei! Engu munaði að ég hefði kastað mér í gólfið og farið að grenja. Hvers á ég að gjalda? Er þetta eitthvað grín?




Verð ég kannski bara að fara út í ilmvatnsframleiðislu? Ég lofa að það yrði geðveikt! Rambaði að vísu á þessa fyrir rælni í gær þegar ég var í Zöru i gær. Nuit. Kemst ekki með tærnar þar sem hinar hafa hælana, en væri hægt að bjarga sér á henni í einhvern tíma. Ó mig auma!

1 comment:

  1. Ég á einmitt glas af flowerbomb extreme og sprauta því bara á mig sem spari þegar ég fékk þessar hörmungafréttir með að það hefði bara verið sumarilmur! feel your pain!
    Jóhanna

    ReplyDelete