Monday, December 31, 2012

Áramótaskaup háhýsisins


Árið 2012 hefur verið óvenju viðburðarríkt og ekki óraði mér fyrir nokkru af því sem átti eftir að eiga sér stað þegar ég lagðist á koddann minn fyrir sléttu ári. Það er þó einmitt það sem gerir lífið svo skemmtilegt, að vita alls ekki hvað er handan við hornið – þurfa að takast á við óviðbúnar aðstæður sem gera mann þegar upp er staðið sterkari og litríkari manneskju. En, byrjum aðeins á yngsta manni heimilisins…
Þór hefur átt afar gott ár og í fréttum er þetta helst;
  • Honum gengur afar vel í skólanum og er alger fyrirmyndar nemandi í öðrum bekk. Gengur að sögn Dísu kennara vel í öllu saman og þar með talinni stærðfræði, sem erfist þá blessunarlega í beinan karllegg þar sem móðir hans er með stærðfræðikunnáttu á við meðalstóra þúfu út á túni.
  • Fótboltinn á hug hans allan og æfir hann með jafnöldrum sínum þrisvar sinnum í viku allt árið og smyglar sér reyndar alltaf ef hann getur á æfingu með flokknum fyrir ofan. Það er ekki spurning að Fjarðabyggðahöllin er að sanna gildi sitt og austfirðingar eiga eftir að ala margan landslið- og atvinnumanninn þegar fram líða stundir.
  • Óútskýranlegur tískuáhugi hefur gripið um sig hjá Þór, sem þó reyndar hefur alltaf haft sterkar skoðanir á því í hverju skal klæðast og hverju ekki. Undanfarið ár hefur tilfellið þó farið versnandi og er á stundum þannig að verulega reynir á þolrif aðstandenda! Eingöngu er í móð að vera í niðurþröngum gallabuxum og einhverjum trendí bolum við. Hann er fyrir löngu búinn að leggja nærbolina á hilluna og lætur helst alls ekki sjá sig úti í gúmmístígvélum!
  • Kappinn minn er brosmildur, félagslyndur en einstaklega tapsár!
     Bríet hefur einnig siglt gegnum árið í góðum gír;
  • Hún er nú í fimmta bekk og stendur sig með stakri prýði. Skipti í haust yfir á þverflautu af blokkflautu í tónlistarskólanum og segir Dillý kennari hana búa yfir einstaklega góðu tóneyra sem gerir henni leikinn afskaplega auðveldan. Hún á mjög auðvelt með að pikka upp lög eftir eyranu en það var einmitt það sem móðir hennar var rekin fyrir í tónlistarskóla hér um árið – en mér þótti alltaf mun skemmtilegara að pikka upp en að spila eftir nótum. Í dag þykir þessi hæfileiki bæði stór, hipp & kúl!
  • Bríet er vinamörg og heimilið iðar af lífi allan daginn því þau systkini eru dugleg að taka smáfólkið með sér heim, sem er alveg dásamlegt. Ekki er hægt annað en að brosa að fylgjast með breytingunni sem er að verða á vinkonunum. Baby born hefur orðið undir og nú vikið fyrir félögunum í One direction og öðrum unglingaböndum. Í stað þess að leika eins og áður sitja þær nú og spjalla saman eða teikna undir ljúfum tónum frá þeim amerísku.
  • Bríet er einnig að æfa fótbolta og er mjög efnileg. Tók hún ásamt Þór þátt í Eimskipamótinu fyrir jól og nú er framundan mótaröð Alcoa þar sem allir flokkar etja kappi þannig að það er nóg að gera á öllum vígstöðvum.
  • Hún fékk ósk sína uppfyllta á árinu þar sem móðir hennar gekk loks út. Í vor tók hún mig á spjall þar sem mér fannst ég frekar sitja með félagsráðgjafa sem ætti að minnsta kosti 20 ára starfsferil að baki þegar hún sagði; Mamma, er ekki kominn tími til þess að þú náir þér í mann? Góðan mann!
  • Bríetin mín er skemmtileg, ráðagóð og gæti tekið að sér bæjarstjórn Fjarðabyggðar meðan Páll Björgvinsson fer í sumarfrí.
     Almar Blær er líklega að upplifa sitt stærsta ár á sínum ferli
  •  Í lok ágúst pakkaði hann sínum veraldlegu eignum niður í tösku og flaug úr hreiðrinu, beinustu leið upp í Menntaskólann á Egilsstöðum. Ég fór með honum fyrsta daginn og það var undarleg tilfinning. Eins og áður sagði líður tíminn afar hratt í seinni tíð og finnst mér eins og ég hafi verið í sama skóla fyrir þremur árum, ekki nánast 20!
  • Veturinn hjá kappanum var alveg eins og við var að búast, stakk sér á bólakaf í allt sem heitir félagsstarf – en hann stóð sig þó mjög vel í skólanum líka og lauk öllum sínum sex áföngum í glænýja spannarkerfinu.
  • Almar var ekki búinn að vera lengi í skólanum þegar hann tók þátt í kosningabaráttu fyrir sæti nýnema í nemendaráði. Eftir kosningaslag og ræðuhöndu sigraði hann og hefur starfað með ráðinu í vetur. Hann komst einnig í Morfís-ræðulið skólans sem er mjög góður árangur hjá nýnema. Hann var svo kynnir við annan mann á árshátíð skólans sem haldin er 1. desember ár hvert, íklæddur glænýjum jakkafötum og alveg eins og kvikmyndastjarna. Var hann þar kosinn nýnemi ársins með miklum yfirborðum. Framundan er svo vorönnin þar sem á dagskrá eru tvær uppsetningar hjá leikfélagi ME þar sem minn maður verður líklega í sviðsljósinu að vanda. 
  • Hann sagði við mig um daginn; Mamma – spáðu í því, eftir fjögur ár verður þú búin að sitja uppi með mig hálfa ævi þína! Já, það er eitthvað svo ótrúlega stutt á milli okkar Almars, enda var ég bara tvítug þegar ég átti hann. Nú er hann höfðinu hærri en ég en samt alltaf sami ljúflingurinn – gengur nánast aldrei fram hjá án þess að knúsa mömmu sína, það er notarlegt!
 Árið 2012 var svo alveg sérstaklega viðburðaríkt hjá mér sjálfri.
  •  Þetta byrjaði nú allt saman afskaplega sakleysislega og var í rólegheitum framanaf ári. Við Hrafnhildur vinkona fengum bissnesshugmynd í höfuðið sem við sinntum um páskana og lítur vonandi dagsins ljós árið 2013.
  •  Það var svo seint í maí sem Bríeti varð að ósk sinni, ég kynntist Gísla mínum sem hefur ekki farið fet síðan þá. Það varð að vonum töluvert fjaðrafok í litla samfélaginu þar sem það þykir alls ekki eins viðurkennt að konan sé eldri en maðurinn og það heilum 12 árum! Var konan gengin af göflunum eða bara hvað? Svo virðist sem almenningur hafi þó jafnað sig á fréttunum og þykir ráðahagurinn ekkert tiltökumál lengur. Ég er bara ánægð með að hafa lagt til þennan efnivið inn á kaffistofur og saumaklúbba bæjarins og þá vonandi sýnt fram á að aldursmunur er alveg jafn mikill, eða lítill í hvora áttina sem er og skiptir í fæstum tilfellum nokkru máli. Finnst þetta svolítið eins og umræðan sem maður heyrir oft hér fyrir austan; Það mætti nú bara halda að það væri styttra frá Reyðarfirði til Reykjavíkur en frá Reykjavík til Reyðarfjarðar. Tilfellið er að það er alveg jafn langt krakkar, látið ekki svona.
  • Það var svo afar fljótlega eftir kærastalöndunina sem ég fór út af skokka í sakleysi mínu og ökklabraut mig. Bless, bless Reykjavíkurmaraþon – hæ hæ gips!
  • Um miðjan júlí fór ég í dásemdar ferð með tengdafjölskyldu minni í sumarbústað í Varmahlíð. Við vorum dugleg að keyra um og það var þá sem ég áttaði mig á því hversu lítið ég hef skoðað landið mitt. Það verður klárlega eitt af áramótaheitunum að bæta úr því!
  • Þegar ég var í sumarbústaðnum frétti ég af því að leigusalinn minn ætlaði að selja húsið sem ég bjó í og var aðeins búin að vera í síðan í nóvember. Dem, en allir vita hvað það er ferlega þreytandi að flytja. Það var nú eitt. Annað var að finna leiguhúsnæði á Reyðarfirði, en það er eins og að leita að nál í heystakki eins og segir í máltækinu. Það var bara ekki hægt. Bara ekki! Það endaði með því að ég fékk tímabundna lausn hjá Alcoa – fékk leyfi til þess að leigja íbúð af þeim frá miðjum nóvember og fram til áramóta. Við fluttum því tímabundið inn á tengdaforeldra mina á Eskifirði í lok október.
  •  Þá kom skellurinn sem ég er búin að blogga um áður og ætla ekki að gera aftur. Atvinnumissirinn. Það er mikið áfall að missa vinnuna sína, ekki er hún aðeins lifibrauðið og það sem heldur fjölskyldunni gangandi, heldur leita á hugann fjölmargar niðurdrepandi hugsanir um eigið ágæti. Ég náði þó að snúa þessu öllu á bak aftur og tel nú að þetta hafi verið það besta sem fyrir mig gat gerst. Ég átti mér aldrei viðreisnarvon þarna innanhúss. Ég var ekki á sömu launum og flestir vinnufélagar mínir. Sama hversu oft ég spurði um það hvers vegna ég hefði ekki starfsheitið sérfræðingur eins og hinir þá var svarið til þess að byrja með að það væri ekki laust stöðugildi fyrir það. Þegar það losnaði og ég spurði aftur hvers vegna ég væri titluð skrifstofumaður en ekki sérfræðingur í innri samskiptum eins og samstarfsfélagi minn, þá varð eitthvað fátt um svör. Líklega af því bara. Þetta átti líklega að gerast, best fyrir þau og best fyrir mig. Ég kem út úr Alcoa reynslunni ríkari eftir sex ára samstarf og þakklát fyrir að hafa fengið að taka þátt í uppbyggingu þessa risastóra fyrirækis.
  • Ég fór með Gísla, Röggu og Aroni (systkini Gísla) til Englands, Birmingham í desember. Verslaði þar fyrir allan peninginn minn og meira til, enda voru allt of mörg ár síðan ég hef komið út fyrir landsteinana. Við mágkonurnar höfum nú stofnað ferðasjóð og ætlum að styrkja H&M einu sinni á ári hér eftir!
  • Árið endaði með flutningum þegar við fórum úr Alcoaíbúðinni í gær og inn í íbúð í blokkinni við hliðiná sem Íbúðalánasjóður á. Höfum við nú misst allan áhuga á frekari flutningum í bili.
Nú árið er liðið í aldanna skaut og aldrei það kemur til baka segir í kvæðinu. Enn einn gamlársdagurinn er runninn upp. Ég fæ alltaf sömu tilfinningu í magann á þessum degi. Tilfinningu sem samanstendur af;
  • Trega yfir því að enn eitt árið sé þotið frá
  • Pínu kvíða yfir því hve tíminn líður hratt (og hann líður alltaf hraðar með hverju árinu)
  • Þakklæti fyrir að fá að taka þátt í lífinu, vera við góða heilsu, eiga heilbrigð og frábær börn auk alls fólksins sem stendur mér næst
  • Síðast en ekki síst endalaus tilhlökkun yfir því óskrifaða blaði sem komandi ár er, án efa fullt af sigrum, skemmtilegum stundum og öðrum töfrum.
Gleðilegt nýtt ár kæru vinir og takk fyrir það gamla!

Thursday, December 27, 2012

Þetta mánaðarlega.


Þá er enn og aftur komið að þessu mánaðarlega. Nei, ekki því krakkar, heldur flutningunum mínum. Ég hef það orðið fyrir sið að flytja svona að meðaltali einu sinni í mánuði – eða ókei, allavega einu sinni á ári. Nú aðeins á milli blokka hér á RF-city, en það er þó andskotans nóg þar sem aðeins eru nokkrar vikur síðan ég dröslaði mér hér inn í Melgerði 9. Telst mér þá til að ég sé að flytja í sjöunda skiptið á sex árum og geri aðrir betur – en þó vona ég ekki þeirra vegna!
En, ekki meikar nokkurn sens að væla, heldur sjá það jákvæða í þessu öllu saman. Eins og…
  • Ég á ekkert aukadrasl, fer samviskusamlega í gegnum allt og hendi við hverja flutninga! Humm, eða hvað? Hvaðan í dauðanum kemur allt þetta dót? Finnst magnið engan vegin eðlilegt þegar ég er að pakka, hvernig væri þetta ef ég hefði búið á sama stað síðan land byggðist? Jeminn!
  • Maður fær rosa massaða upphandleggsvöðva við allan burðinn, TRÚ!
  • Maður styrkir vináttuböndin, en það er fátt meira gefandi en að bera kassa með þeim sem standa manni næst, kófsveittur. Verst að þeim finnst flutningarnir mínir líklega orðin hálfgerð fangavinna, ég meina til hvers að vera að koma mér í höfn þegar ég pakka aftur um leið?
  • Ég fæ útrás fyrir brjálæðislega hönnunargleði mína þar sem mér finnst fátt skemmtilegra og meira gefandi en að koma mér fyrir á nýjum stað. Er löngu búin að dekkóreita næstu íbúð í huganum. Hei, já – á einhver eitt bil af hansahillum til að selja mér? Er komin með tvö en væri svo rosalega mikið til í eitt í viðbót – er nebblega að fá svo mikið af bókum að gjöf! Líður eins og ég sé að fá risastóran lottóvinning, þar sem fátt er fallegra og hlýlegra í allri veröldinni en „bókað” umhverfi. Já, bara eiginlega ekki neitt!
Þannig að þið sjáið það, það er barasta góð hugmynd eftir allt saman að flytja reglulega. Já, ég bara mæli með´essu. DjóK! En, ég er farin að pakka. Skrifa næst úr Melgerði 7, íbúð 403. Síjú!

Saturday, December 1, 2012

Hibb, hibb, húrra!


Fyrir sléttum tíu árum síðan fékk ég fyrstu merki um verk. Korter í eitt, eftir miðnætti aðfaranótt mánudagsins 2. desember. Tveimur klukkustundum síðar var hún mætt á svæðið. Engin tími til þess að hangsa, hvorki þá né nú. Hefur alltaf viljað vera fyrst og fremst í öllu því sem hún tekur sér fyrir hendur. Kvenskörungurinn, dugnaðarforkurinn og snillingurinn minn Bríet…
Brosi alltaf þegar ég hugsa um þennan dag. Sex ár frá síðasta barni sem fæddist þarna í fornöld. Stóri stolti bróðir hennar kom á fæðingardeildina um hádegi. Gekk feiminn að rúminu og sagði: Hún er sæt. En samt með grísanef!
Á leiðinni heim þótti mér svo tilvalið að stoppa í apóteki til þess að kaupa snuð - 16 tegundir helst, því stúlkubarnið átti ekki að fá að komast upp með viðlíka fígúrugang og eldri bróðir hennar, að vilja ekki snuð. Nei, ekki sjens. 
Það er einstakt ástand sem konur (og líklega allir foreldrar) fara í kringum fæðingu. Eitthvað sem ekki er hægt að lýsa fyrir þeim sem ekki hafa upplifað. Manni finnst eins og öll jarðarkringlan snúist aðeins um- og fyrir sig og smáfjöskylduna. Á leiðinni í snuðainnkaupin horfði ég á fólk út um bílgluggann. Þarna var fólk bara í hversdagslegum athöfnum eins og ekkert væri sjáfsagðara. Sumir voru úti að skokka, aðrir á leið í kaffi með vinum og enn aðrir að snattast fyrir vinnuna. Bara sísvona, eins og þetta væri bara eins og hver annar venjulegur dagur. Halló!
Þess má geta að Bríetarbarnið tók ekki snuð. Ekki fyrr en hún var tveggja og hálfsárs og fann þau í dótakassanum. Það var bara af því henni datt það í hug sjálfri, ekki einhverjum öðrum! 
Hún er duglegasta manneskja sem ég þekki og kallar fátt ömmu sína. Ég spái því að verði hægt að merkja X við Bríeti á Bessastaði árið 2028…
Elsku stelpan okkar, til hamingju með daginn þinn. Þú gerir lífið skemmtilegra!