Sunday, November 30, 2014

Fyrsta aðventuhelgin

Aðventan eru jólin mín. Eftirlætis tími ársins.


Kaðlaprjónuðu aðventukerin mín.


Móðir mín gaf mér þessa jólastjörnu í einhverju bjartsýniskasti föstudaginn. Hingað til hef ég ekki náð að halda lífi í harðgerustu kaktusum. 


Minn heittelskaði gaf mér einstaklega kærkomna aðventugjöf. Frí. Já, hann gaf mér tíma fyrir sjálfa mig alla helgina. Eins og flestir lesendur vita þá hefur elsku Emilinn okkar reynt á þolrifin og eftir margra mánaða svefnleysi var ég algerlega orðin bensínlaus. Þeir feðgar fóru því í helgarheimsókn til ömmu á Eskifirði og ég átti að vera að slaka á og sofa.

Einmitt. Það gekk ekki vel. Fyrri nóttina vaknaði ég oftar en á meðalnóttu og það er nokkrum sinnum. Ég afrekaði líka meira þessa helgi en ég hef gert samtals síðustu fjóra mánuði. Verslaði jólagjafir, tók til í fataskápun og kom upp jólunum.


Undirbúningur jóladagatals. 


Þetta góss bíður innpökkunar. 


Iiii já. Jólasokkurinn. Móðir mín hefur að öllum líkindum smitað mig illilega af bjartsýni sinni, en við höfum ekki sent jólakort í þrjú ár og verður því að teljast líklegt að við séum dottin út af flestum jólakortalistum. 

Það sem einveran var þörf, þó svo ég væri nánast vælandi af söknuði inn á milli. Best var þó að fá þá heim. Langbest. 


Þessi var sáttur að komast heim í dótið sitt í dag. 

Á morgun ætlum við Emil að halda til móður minnar á Stöðvarfjörð til þess að baka mömmukökur. Kannski eitthvað fleira. Mömmukökurnar eftir uppskrif ömmu Jóhönnu sem ég sakna á hverjum einasta degi. 

Hef sjaldan fengið eins góða afmælisgjöf og í fyrra þegar mamma gaf mér uppskriftabók frá ömmu Jóhönnu, handskrifaða að sjálfsögðu. Hef þó nokkuð velt forsíðustúlkunni fyrir mér. Gleðilega aðventu. Njótið. 


Wednesday, November 19, 2014

22 ára skróp

Þegar ég var barn gekk ég með gleraugu. Eftir að hafa rýnt í bókstafi og reynt að grípa í vængi á þrívíddarflugum var niðurstaðan sú að ég var með töluvert mikla sjónskekkju, þá sex ára gömul.

Þessi stórkostlegu gleraugu valdi móðir mín á mig. Hún hefur varla fengið mæðraverðlaunin það árið. 


Þegar ég svo, tíu árum síðar, fór á heimavist Alþýðuskólans á Eiðum "steingleymdi" ég gleraugunum heima. Obbosí. Datt einfaldlega ekki í hug að hefja nýtt líf utan heimahagana með þessi ósköp framan í mér. 

Hvað sagði mamma? Nú ekkert. Vissi að það þýddi ekki nokkrun skapaðan hlut.

Svo leið og beið. Gleraugnaleysið slapp fyrir horn. 

Síðari ár hef ég þó fundið fyrir mikilli þreytu við lestur, sem og vinnuna mína, sem að mestu fer fram á tölvu. Er búin að humma það fram af mér lemgi að fara til augnlæknis. Hvað átti ég að segja? "Hæ, ég átti að koma fyrir 22 árum síðan."

Já. Það, og nákvæmlega það, muldraði ég þegar ég settist fyrir framan gamla auglækninn minn á dögunum. 

Eftir að hafa á ný, rýnt í bókstafi (fékk ekki að klípa fluguna), var niðurstaðan að sjálfsögðu;
lestrar- og vinnugleraugu.


Með reseft upp á vasann hélt ég í helgarferð í höfuðstað norðurlands. Dóttir mín bað mig vinsamlegast og lengstra orða að fá mér bara linsur. 

Hún, sem og afar smekkleg vinkona, komu með mér í gleraugnaleiðangurinn. Bríet mildaðist og fannst ég bara orðin nokkuð fín í restina. Fengum í heimlán þessi gasalega fínu DOLCE&GABBANA glerugu og tvenn til viðbótar. Þessi urðu að lokum fyrir valinu. 

Munurinn, drottinn minn dýri! Nú les ég eins og vindurinn - langar helst að lesa allan daginn. 

Gleraugun voru prufukeyrð með fyrsta bindi Dalalífs eftir Guðrúnu frá Lundi. Ó, hvað konan hefur verið mikll ritsnillingur og óborganlega fyndin. 

Læka þessa?

Friday, November 14, 2014

Föstudagsfrumsýning


Það er spari-föstudagur í dag - innihélt enn eina frumsýningu frumburðarins á leiksviðinu. 

Frumsýning frumburðar - fiðrildi í maga. Alltaf, jafnvel fleiri en ef ég stæði sjálf á sviðinu. 

Leikfélag Fljótsdalshéraðs frumsýndi í kvöld verkið Þið munið hann Jörund í leikstjórn Halldóru Malinar Pétursdóttur. Almar Blær fór með hlutverk Dala-Völu auk þess sem hann sat í stól aðstoðarleikstjóra. 

Er þetta í þriðja sinn sem hann tekur tekur þátt í uppfærslum félagsins og hafa meðlimir þess tekið honum opnum örmum og reynst honum ómetanlega. Þau til að mynda völdu hann í sumar sem sinn fulltrúa á vikulangt námskeið sem haldið var af Bandalagi íslenskra leikara. Nú veita þau honum þetta risastóra lærdómstækifæri, að vera leikstjóra til halds og trausts. Þau vita hvert hann stefnir og vilja styðja hann með ráðum og dáð. 

Ég hvet ykkur öll sem getið að sjá sýninguna, en aðalleikararnir tveir, þeir Stefán Bogi Sveinsson og Einar Sveinn Friðriksson fara á kostum í hlutverkum sínum sem Jörundur hundadagakonunur og Charlie. Já, sem og allir hinir. 

Ég er pínuponsu hlutdræg og þykir minn fugl að sjálfsögðu langsamlega fallegastur í hlutverki hinnar ungu viðkvæmu móður. 

Þar sem ég kom að gerð leikskrár sýningarinnar fékk ég að sitja tvær æfingar á ferlinu og kynnast því hve samheldinn hópurinn er. Þegar ég svo hvíslaði að mínum manni í kveðjuskyni í kvöld og bað hann um að ganga hægt um gleðinnar dyr í frumsýnigargleðinni sagði hann; "Já mamma mín, ég er þarna með fjölskyldunni minni, þannig að þú þarft ekki að hafa nokkrar áhyggjur af mér."

Fallegt. En nú hætti ég, áður en allir fara að grenja. P.s. Áhorfendur voru beðnir um að taka ekki myndir á sýningunni og ég virti það. Svona næstum. Stalst til þess að taka þessar á símann minn í uppklappinu - gasalega yfirlýstar og fínar. 

Friday, November 7, 2014

Föstudags...tilraunin

Felst í því að flytja að heiman. 

Eins og fram hefur komið hafa ýmsar spekúalasjónir verið á lofti um óværð Emils. 

Síðustu helgi vörðum við fjölskyldan á Akureyri þar sem margt var brallað. Finnst bærinn svo notarlegur, líður alltaf pínulítið eins og í útlöndum. 

Prógrammið var töluvert - bíó, skautar, Hamborgarafabrikan og Lindex að sjálfsögðu. Það sem uppúr stóð þó var þó að Emil var eins og ljós. Svaf eins og lumma og var mun minna pirraður en flesta daga. 

Í kjölfarið voru settar fram nýjar kenningar. Auðvitað væri orkuójafnvægi í íbúðinni, sveppir, nú eða hreinlega illir andar.

Við dveljum því hjá ömmu Jónu á Eskifirði um helgina, í tilraunaskyni. Ef sá stutti verður vær og góður þarf að grípa til aðgerða í B10 - með því að endurstilla rafmagn, steikja sveppi eða særa út illa anda. 


Myndavélin gleymdist og því þarf að notast við símann. Kannski þjáist Emil bara af innilokunarkennd heima í litlu íbúðinni okkar. Hér má sjá hann í miklu stuði, þjótandi út um allt í göngugrindinni, að skoða allt fína dótið hennar ömmu Jónu. 


Gardínur. Það er fyrirbæri sem Emil hefur aldrei séð, enda móðir hans með krónískt ofnæmi fyrir slíku. Vá hvað þær eru spennandi og bragðgóðar, gardínurnar hennar ömmu. Meðan laufin sofa liggja spaðarnir andvaka. Emil sefur best með bleiu yfir andlitinu. 

Ehh, já. Núna, þegar klukkan er rúmlega tíu, höfum við misst trú á allar kenningar. Teljum barnið einungis mjög klárt að spila með okkur - en það hefur afrekað að öskra sig tvisvar fram úr svefnherberginu síðan klukkan átta. Gráta eins og það sé jafnvel að missa útlim. Þegar fram er komið er hinsvegar partýstuð og litla andlitið brosir hringinn, sigri hrósandi. 

And the winner is...