Saturday, January 31, 2015

Samviskulaus sætindi


Bauð upp á dásamlega bláberja-hráköku með kaffinu í dag. Hef aldrei lagt í þessa teguna af "bakstri" en hún er ferlega einföld og góð. Ekki skemmir fyrir að hún inniheldur hvorki sykur né hveiti. 

Bláberjakaka

Botn: 

4 dl möndlur
3 dl döðlur
1/2 tsk sjávarsalt

Setjið allt í matvinnsluvél og látið hana ganga þar til blandan loðir vel saman. Setjið í form, pressið vel niður á botninn og upp með hliðunum.

Sko. Ég á ekki matvinnsluvél og þjösna aumingja blandaranum mínum í gegnum ýmsar raunir daglega, eins og til dæmis þennan kökubotn. Það gekk upp en matvinnsluvél er klárlega komin á fjárhagsáætlun. 

Fylling: 

3 dl kasjúhnetur (ég átti ekki nógu mikið af þeim og setti valhnetur að hluta)
2 dl kókosolía
1 dl vatn
1 dl hunang
1 tsk vanilluduft (ég átti það ekki og setti smá vanilludropa)
1/2 tsk sjávarsalt
300 g bláber, jarðaber, hindber eða berjabland 

Setjið allt nema berin í matvinnsluvél eða blandara og látið ganga þar til fyllingin verður silkimjúk.  Blandið berjum varlega saman við og hellið öllu á kökubotninn. Látið vera í frysti í a.m.k. átta klukkustundir. Takið út 1-2 tímum áður en hún er borin fram. 

Ég bar kökuna fram alveg frosna í dag og hún er líka voða góð þannig, eins og ískaka. Var ekki síðri þegar hún þiðnaði aðeins - en ég veit ekki hvort það sé endilega nauðsynlegt að taka hana út svo mikið fyrir át. 

Endilega prófið, fljótleg, góð og holl.

Friday, January 30, 2015

#4 Gerast líffæragjafi - LOKIÐ


Fyrsta áfanga "áforma-lista" ársins 2015 er lokið. Í dag skráði ég mig sem líffæragjafa á
síðu Landlæknisembættisins


Til þess að skrá afstöðu sína þarf annað hvort þarf að hafa til taks rafræn skilríki eða Íslykil frá Þjóðskrá, sem meðal annars er hægt er að fá sendan í heimabankann á fimm mínútum. 

Ekki er hægt að lenda á villigötum þar sem síðan leiðir mann alveg gegnum ferlið sem tekur ekki nokkra stund. 


Ég er einstaklega ánægð með dagsverkið, enda þykir mér málefnið brýnt og búið að vera á ToDo lista hjá mér lengi. 


Jebsí kóla. 

Ef þið hafið verið að íhuga það sama en miklað gjörninginn fyrir ykkur vegna tæknilegra mála, þá er það alger óþarfi. Þetta segir sig alveg sjálft og tekur með öllu í mesta lagi 10 mínútur. 

Góða helgi
Wednesday, January 28, 2015

Áform ársins 2015

Ég hræðist orðið áramótaheit. Að heita því að gera eitthvað sem ég svo sjaldan stend við. 

Mig langar hins vegar að gera svo margt. Allskonar. Árið í ár en þar engin undantekning. Ég henti niður í glósubókina mína áformum að því sem mig langar til þess að "afreka" á árinu. Sumt er stórt, annað smátt. Eitthvað verður auðvelt, annað erfitt.


Fyrir mér ganga hlutirnir alltaf best skrifi ég um þá. Undarleg árátta. Draumarnir mínir, áform, áætlanir og ToDo listar. Út um allt. 

Því ætla ég að opinbera listann minn hér. Einnig "heita því" að gera þau atriði upp sem ég næ. Áformin birtast hér hvorki í áherslu,- umfangs,- eða stafrófsröð. 


#1 Lesa átta bækur


Ég sakna þess að lesa ekki meira. Hef í gegnum tíðina verið þokkalega dugleg - þó mis, eftir tímabilum. Síðustu tvö ár hef ég sáralítið lesið vegna mikilla anna. Það gefur mér mikið að lesa, bæði hvíld frá daglegu amstri auk þess sem ég veit fátt áhugaverðara en að auka orðaforðann minn. Ég veit, nördalegt. 

Semsagt. Ég áforma að lesa átta bækur á árinu, finnst það verðugt markmið fyrir mig. Hef aðeins ákveðið tvær fyrstu, en þær eru Alkemistinn eftir Paulo Coelho og Afdalabarn eftir Guðrúnu frá Lundi. Ef þið hafið einhvað "must read" í huga, þá endilega skjótið.  


#2 Ganga í Stórurð


Mig hefur langað að skoða náttúruperluna Stórurð í Hjaltastaðaþinghá eystra í nokkur ár. Í sumar ætla ég að láta verða af því. Stórurð er án efa eitt stórfenglegasta náttúrufyrirbrigði á Austurlandi og þó víðar væri leitað. Sléttir grasbalar og hyldjúpar þörungabláar tjarnir innan um björg á hæð við fjölbýlishús. Hljómar eins og ævintýraland. 


#3 Beint frá bónda


Ég er eldgömul sál. Allaveg helmingi eldri en aldur minn segir til um og er það nokkuð. Hef alla tíð verið mikil "búkona" - haft áhuga á bakstri, sultugerð og hverskonar "heimilisiðnaði". Langar mest að eiga risastór frystikistu og fylla hana af allskonar aðföngum. En, ég á ekki frystikistu, eða þá húsnæði sem hana rúmar. 

Í haust langar mig hinsvegar að fjárfesta í litlum frystiskáp. Áforma að fylla hann af kjöti "beint frá bónda". Langar í alvöru nautakjöt, lambakjöt og jafnvel folaldakjöt. Ekki eitthvað sem búið er að sprauta í 300 lítrum af vatni. Hvernig er best að bera sig að í þessu hér austanlands?


#4 Gerast líffæragjafi


Ég er búin að hugsa um það lengi að skrá mig sem líffæragjafa. Í rauninni er þetta alveg kýrskýrt í mínum huga, ég hef bara ekki látið verða af því að skrá mig. Þarf ekki annað en að hugsa hvort ég eða mitt fólk gæti hugsað sér að þiggja líffæri ef svo stæði á. Svarið er já og því finnst mér skylda mín að vera tilbúin til þess að gefa á móti. 

Allar upplýsingar er að finna hér á síðu Landlæknisembættisins. 


#5 Fara í myndatöku með öll börnin mín


Hvað er mikilvægara en að festa á filmu þann dýrmætasta fjársjóð sem maður á? Mig langar að setja mér það markmið að fara með þau öll í myndatöku árlega, í það minnsta meðan þau eru svona lítil. Sko, sum þeirra. Finnst líka mikilvægt að eiga myndir þar sem ég er með þeim, en það gerist sárasjaldan, enda að taka flestar þeirra sjálf.


#6 Vinna að mæðginaátakinu "betri líkamleg heilsa"


Á gamlársdag sagði ég frá fögrum fyrirheitum fyrir árið 2015. Í byrjun júní leggjum við sonur spilin á borðið og sjáum hvort okkar hefur náð betri árangri. 


#7 Ná tökum á hugleiðslu/íhugun


Hugleiðsla og íhugun hafa lengi heillað mig en ég hef lítið gert til þess að kynna mér tækni sem hentar mér. Það áfroma ég að gera í ár. 


#8 Hlaupa hálft maraþon


Árið 2011 tók ég þátt í Reykjavíkurmaraþoni og hljóp 10 kílómetra. Í ár er ég með stærri áform og er búin að skrá mig til leiks í hálft maraþon. Á eftir að velja mér góðgerðarfélag til þess að styrkja.

Guð blessi mig. 


#9 Læra á myndavélina mína


Ljósmyndadellan hefur alltaf blundað í mér og ég hef tekið mikið af myndum gegnum tíðina. Í fyrra keypti ég mér nýja vél - skipti frá Canon yfir í Fujifilm X-E2. Kann allt of lítið á hana og leiðist óskaplega að geta ekki notað hana á réttan hátt.

Umhumm. Ég veit að ég get gúgglað mig í gegnum þetta, en ég stefni samt á að fara á námskeið. Það er bæði fljótlegri leið og skemmtilegri, að mínu mati. Þannig að - ef þið vitið um ljósmyndanámskeið á svæðinu innan tíðar, þá endilega deilið. 


#10 Ganga upp í Súlnadal


Ég er fædd og uppalin á Stöðvarfirði og hef aldrei gengið á Súlurnar, eitt fallegasta fjall landsins. Það er skandall og úr því ætla ég að bæta í sumar. #11 Gera ljósmyndabækur fyrir árið 2014 og 2015


Já ég veit. Ljósmyndirnar mínar eru mitt hjartans mál og mínar dýrmætustu veraldlegu eigur. Mér finnst ekki nóg að taka myndir og geyma þær í tölvunni. Ég sakna þess að skoða ekki myndir á prenti. Mér finnst líka leiðinlegt að krakkarnir geti ekki skoðað myndir. 

Ég hallast orðið meira að ljósmyndabókum en albúmum. Einfaldlega vegna þess að mér finnst formið skemmtilegra auk þess sem hægt er að byggja árið upp sem vegferð með texta. Ómetanlegt.

Nokkur íslensk fyrirtæki bjóða upp á þessa þjónustu. Ég er hinsvegar að vinna með forrit sem heitir Blurb. Það er mjög auðvelt í vinnslu og alger snilld. Ekki skemmir fyrir að bækurnar eru mun ódýrari en þær sem hægt er að gera hérlendis. 


#12 Uppfæra snyrtiveskið mitt


Æji já. Úff. Ég er svo mikill lúði. Snyrtiveskið mitt er eins og hjá afdalabónda. Trú storí! Alveg ferlegt. Samanstendur af maskara, tveggja sentimetra augnblýandi og gamalli púðurdós. Af hverju? Æji ég veit það ekki. Bæði af því að þetta kostar allt lifur og nýru auk þess sem ég er held ég miklu meiri strákur en stelpa. 

Rekst stundum á færslur á veraldrarvefnum þar sem stelpur eru að fara yfir innihald snyrtiveskisins sem og að lýsa fyrir landanum sinni daglegu meiköpp rútínu. Ó lord. Ég fæ svo mikið fælnis- og kvíðakast að lesa þetta. Bæði virðist nauðsynlegt að vera milljónamæringur sem og vera heimavinnandi til þess að ná þessum ósköpum á daglegum basis. 

Allavega. Snyrtiveskið er á plani. Stefni þó ekki á konunglega uppfærslu, aðeins að kynna mér það allra helsta - já og kannski splæsa í nýjum blýanti. 


#13 Íhuga nánustu framtíð


Á nokkurra ára fresti geng ég í gegnum mikla almenna krísu. Ég er í einni slíkri núna. "Hvað ætla ég að verða og gera þegar ég er orðin stór - krísan". Eftir því sem ég hugsa meira um þetta, því ringlaðri verð ég. Hvar langar mig að búa? Hvað langar mig að gera? Langar mig að læra? Hvað þá? Sálfræði? Arkitekt? Ljósmyndun? Hönnun?

Prófa að búa hvar? Edenborg, London, París eða Róm?

Þessum spurningum langar mig að svara sjálfri mér á árinu. Mun því taka reglulega töflufundi, með sjálfri mér. 


#14 Klára drög að bók


Ég er með hugmynd á teikniborðinu, eða skrifborðinu öllu heldur, sem ég stefni á að drafta upp á árinu. 


Er þetta ekki bara orðið fínt? Svona meðfram því að leitast við að vera góð móðir og kærasta, já bara besta útgáfan af sjálfri mér. 

Eins og ég segi, þá eru þetta áfrom, ekki heit. En, ég mun greina frá gangi mála, ójá. 

Endilega lækið þessa

Ást og friður. 

Tuesday, January 27, 2015

Dásamlega holl og góð hjónabandsæla

Ég bara verð að deila með ykkur uppskriftinni af hollu hjónabandssælunni sem ég bakaði um daginn og hef þurft að endurtaka ítrekað. 


Krakkarnir vita fátt betra en þegar ég baka eitthvað gott þegar þau koma svöng heim úr skólanum. Ég hugsa mikið um næringarsamsetningu þessa dagana og reyni því að finna uppskriftir sem innihalda til dæmis lítið af sykri. 


Með þetta að leiðarljósi eru bækurnar Heilsuréttir fjölskyldunnar alger snilld, en eins og ég hef áður sagt eru þær frábært samansafn af góðum, einföldum og hollum mat. Fyrri bókin er svo sannarlega á fjárhagsáætlun hjá mér í febrúar. 

Hjónabandssæla 

2 dl fínmalað spelt
2 dl haframjöl
1 dl kókosmjöl
1 dl sólblómafræ
1/2 dl hörfræ
1 dl kókospálmasykur, hrásykur eða Eryhritol 
1 tsk vínsteinslyftiduft
180 g mjúkt smjör eða kókosolía 
1 egg
250 g sykurlaus sulta (t.d. frá ST. Dalfour)


Hitið ofninn í 180 gráður

Hrærið eggi og smjöri saman

Bætið öllum þurrefnum saman við og hrærið vel

Þrýstið 3/4 hluta af deiginu í eldfast mót

Smyrjið sultu yfir

Fletjið út afganginn af deiginu. skerið í lengjur og leggið yfir. Einnig er hægt að sáldra deiginu yfir

Bakið í 35-40 mínútur

Hjónabandsssælan sló algerlega í gegn á heimilinu, hjá öllum aldursflokkum. Sjálf hef ég reyndar ekki borðað hveiti, glútein eða sykur í rúma 20 daga þannig að ég hef sjálf ekki smakkað hana, en af lofræðum að dæma ættuð þið að skella einni slíkri í ofninn á morgun.Wednesday, January 21, 2015

Fíaskó hinnar heimavinnandi húsmóður

Stundum er svo mikið fíaskó að vera heima í fæðingarorlofi. Gærdagurinn var einmitt einn af þessum dögum.


Emil er lasinn. Alveg hundlasinn. Að vera tæplega átta mánaða með grænt hor niður í munn, 39 stiga hita, samgróin augu vegna sýkingar og hósta eins og stórreykingamaður er ekki góð skemmtun. 

Þetta ástand þýðir aðeins eitt; ég verð eins og dregin upp úr ræsinu. Dresskót vikunnar hefur samanstaðið af kósýbuxum með gati á rassinum og þreyttum hlýrabol. Hef einnig lagt mitt af mörkum til þess að skapa brjóstahaldaralaust trend. Spegilmyndin hefur boðið upp á ómálaða, svefnlausa konu með bauga og hárið í einhyrningsteygju upp af enninu. 1200 mínusstig. 

Jæja. Þegar við Emil höfðum kysst alla bless í morgunsárið (þar sem mig langaði persónulega meira að ulla á þau af því mig langaði sjálfa svo út) hófust morgunverkin.

Gerði heiðarlega tilraun til þess að útbúa morgunmat fyrir okkur bæði. Barnið töluvert pirraðra en venjulega - skiljanlega. Mútaði honum með að fá að leika að stútkönnunni sinni. Þegar ég kom með matinn var hann að vonum búinn að sulla öllu úr könnunni á borðið og yfir sig sjálfan. Vildi ekki sjá grautinn.

Ekkert annað var í stöðunni en að skipta um alklæðnað. Ákvað að mæla hann í leiðinni. Við erum svolítið eins og vanþróuðu löndin og eigum aðeins rassamæli. Þar sem hann lá nokkuð rólegur á sófanum, með mælinn í rassinum, pissaði hann. Ég með báðar hendur "bundnar" - með mælinn í hægri og hélt um báða fætur hans með vinstri. Mér dauðbrá við að fá bununa yfir mig og stuggaði aðeins við honum í von um að hann myndi hætta. En, nei. Hann hætti ekki, átti nóg inni. Bunan tók stefnubreytingu og fór í stórum boga, nú upp á sófaborð og beint ofan á síma heimasætunnar!

Þar sem ég hugsaði að ég yrði að bjarga símanum frá frekara vatnstjóni fann ég hvernig mælirinn þrýstist út og kom siglandi á þeim stærsta kúk sem ég hef nokkru sinni séð hjá ungabarni. Ok. Þarna hélt ég að ég væri stödd í falinni myndavél. Sat sjálf rennandi pissublaut, með síma sem lá undir skemmdum og bert barn sem var í þann mund að maka sér upp úr eigin hægðum.

Hann toppaði sjálfan sig svo nokkru síðar þegar hann endaði viðbjóðslegt hóstakast með því að æla, yfir mig, sjálfan sig og báðar sjónvarpsfjarstýringarnar.

Bara, partýstuð í B10.

Já og í öllum bænum smelltu á okkur "læk" svo þú getir fylgst með öllu hinu.Menn verða nú að vinna í eldhúsinu þrátt fyrir veikindi. Að "vera stór" er eina trixið sem Emil kann og sýnir það ópart og vill helst uppskera klapp að því loknu. 


Sunday, January 18, 2015

MaturMataráhugi minn hefur erfst til Þórs, en hann kemur heim með hvern réttinn af fætur öðrum úr listum - allt gert úr pappamassa. Frönsk súkkulaðikaka, plokkfiskur og rúgbrauð. 


Ég er eins langt frá því að vera matvönd og hugsast getur. Ég borða allt. Þó helst ekki heitan, reyktan fisk, en einhverntíman fékk ég ælupest sama dag og ég borðaði hann og tengi það enn saman. 

Annað borða ég. Þorramat, hákarl, skötu, hrogn&lifur, siginn fisk, sushi, rjúpu, gæs, svartfugl, já bara allt. Ég var látin borða allt þegar ég var lítil, ekki með hörku, en þó var aldrei séreldað fyrir mig eða mér sleppt í morgunkornpakkann í kvöldmatartímanum. Fyrir þetta er ég ævarandi þakklát. 

Ég hef reynt það sama við börnin mín og tekist nokkuð vel til. Þau teljast ekki heldur teljast matvönd og borða það sem er í matinn, enda hafa ekki komist upp með neitt annað. Að sjálfsögðu finnst okkur öllum það sem á boðstólum er misgott, en ég hef náð að kenna þeim að borða flest allt. 

Í ljósi þessa hef ég alltaf eldað nokkuð fjölbreyttan mat fyrir okkur smáfjölskylduna þó svo við búum okkur alltaf til pizzu á föstudögum, grillum stundum hamborgara og pylsur eða hendum í pasta eins og gerist og gengur. 

Ég sagði frá því hér að í byrjun janúar ákvað ég að prófa að fara eftir bók Davíðs Kristinssonar, 30 dagar - leið til betra lífs. Ástæðan er margþætt. Mig langar að saxa af mér fæðingaaukakílóin og fá stuðning við að borða enn næringarríkari fæðu sem og að minnka sykur, hveiti og glúteinneyslu.   

Ég er nú á fjórtánda degi af 30 og gengur mjög vel. Ég hef aldrei svindlað á tímabilinu og sé ekki fram á að gera það. Mér líður betur af þessu mataræði líkamlega og andlega. Ég er orkumeiri og blóðsykurinn aldrei í ruglinu og finnst líka frábært að bjóða mér og fjölskyldunni minni upp á hreinan og næringarríkan mat alla dag. 

Það var ekki spurning að minni hálfu að halda þessum lífstíl áfram eftir mánuðinn - kannski taka eitthvað inn aftur, en halda mig mestmegnis á þessari línu. Ég hef aldrei keypt eins mikinn mat og þessa dagana!

En. Núna þegar ég er nánast hálfnuð með mánuðinn sé ég ég ekki fram á að hafa tækifæri á að halda áfram að mánuðinum loknum. Af hverju? Jú, ég hef ekki efni á því. Það er rosalega dýrt að kaupa allan þessa hollu matvöru. Hversu sorglegt er að það? Að það sé miklu dýrara að versla hrein og næringarrík matvæli í stað þess að keyra áfram á unni matvöru sem við vitum oft á tíðum ekki hvað inniheldur. 

Bara, til hamingju. "Bland í poka atriðið" úr áramótaskaupinu er ekkert grín heldur heilagur sannleikur.  

Nú langar mig til þess að spyrja ykkur, "kollega" mína sem hafið verið að vinna eftir 30 daga mataræðinu til langframa, hvernig hafið þið náð kostnaðinum niður þannig að þetta sé gerlegt?
Thursday, January 15, 2015

Fljótandi jól í morgunmat

Ég íhugaði alvarlega að fara að sofa klukkan fimm í gærdag, svo spennt var ég fyrir morgunmat dagsins í dag - Kanildöðlubomba, samkvæmt plani. Kanill og döðlur undir sama hatti, það þarf ekki meira til að gera mig hamingjusama. 


2 lífræn egg eða 20-40 g möndlur (ég valdi eggin)
1 msk kókosolía*
1 bolli vatn eða kókosmjólk (ég setti kókosmjólk í dag af því ég var að ærast úr spenningi)
1 banani
2 msk lífrænt möndlusmjör
3-4 döðlur 
kanill eftir smekk
klakar eftir smekk
vatn eftir smekk

*Það hefur komið í ljós að kókosfitan eykur brennslu í líkamanum og gefur aukna orku til að takast á við daglegt líf. Fólk hefur losað sig við mörg kíló við það eitt að taka inn tvær til fjórar matskeiðar af kókosolíu án þess að breyta öðru í mataræði sínu. (30 dagar - leið til betri lífsstíls, bls 39)

Hann var dásamlegur. Kanill, döðlur og 10 klakar. Svolítið eins og að drekka jólin, 


Hér má sjá blörraðan Emil minn í baksýn, við æfingar á að koma Cheeriosi sjálfur í munninn sinn. Það gengur ekki vel, týnist alltaf í því svartholi sem lófinn er.  Líka sálfræðinginn minn, Dr. Phil, eða allavega konuna hans. 

Monday, January 12, 2015

Staðan

Ég hef nú nærst samkvæmt hinu heilaga orði í átta daga. Átta heila daga án þess að drekka kaffi. Ó lord! Án þess að borða mjólkurvöru, sykur, glútein og ger, unna matvöru og pakkamat eða svinakjöt. Áfengi, einnig algert nónó. 


Fyrsti kaffibollinn eftir fráhald verður líklega afar dásamlegur. 

Ég hafði svosem ekki gert mér mikla hugmynd um hvernig mér gengi eða liði með þetta allt saman, en ég verð þó að segja að raunin hefur reynst mér mun léttari en ég þorði að vona. Þó svo ég sakni þess að fá mér kaffi er ég komin yfir kaffileysishausverkinn og ég held að félagslegi þáttur kaffidrykkjunnar vegi mun þyngra en öll löngun. 

Mér líður mjög vel og finn almennt ekki fyrir því að mig langi í sykur, brauð eða nokkuð annað af bannlistanum. Eins og ég hef áður sagt held ég að það sé vegna þess að ég borða það reglulega að ég hef án gríns ekki fundið svengdartilfinningu síðan þarsíðasta sunnudag. 


Þriggja mánaða gömul mynd af þessum tveimur. 

Mamma. Þrátt fyrir almennan stuðning hennar í þessu, þá þykir henni þetta nokkur fígúrugangur heyrist mér. Í það minnsta ef ég legg saman setningar á borð við þessar sem hafa flogið frá henni síðustu daga; 

"Getur einhver haldið þetta út í heilan mánuð?"

"Ég heyrði nú bara af rannsókn um daginn þar sem var sagt að það væri beinlínis lífshættulegt að vera án þess að fá glútein."

"Getur ekki verið hættulegt að borða svona mikið af fræjum? Það er eins og mig minni að einhver maður hafi bara fengið gat á innyflin, þau eru svo beitt."

Ok mamma mín. Ég efast að ég hljóti beinan skaða af þessum mánuði sem ég held mig frá ofantöldu. Stórefa það reyndar. Ef þið hafið rekist á þessar umræddu rannsóknir og fréttir, þá kannski sendið þið á mig linka. 

En, þið sem eruð að hugsa um að prófa - bara góforit! Það er frábært að endurstilla líkamann og gefa honum smá frí frá öllu því sem við erum almennt að bjóða honum upp á. 

Velgengni til ykkar frá mér. 

Wednesday, January 7, 2015

Hin nýja heilaga biblía

Ég sagði frá markmiði mínu fyrir árið 2015 í þessari færslu hér á gamlársdag. Ansi fögur fyrirheit. 

Borða alltaf of mikið, treð öllu í andlitið á mér án þess að hugsa. Er þó enginn nammigrís, get átt alltkonar góss upp í skáp án þess það trufli mig nokkurn skapaðan hlut. En, brauð, ostar, salat og bara matur, óboj. 

Ég tók því pólítíska ákvörðun eftir rökræður við sjálfa mig - að prófa að taka rækilega til í mataræðinu mínu á nýju ári. Hef oft reynt það sjálf og slengt fram fullyrðingum á borð við að nú sé ég hætt að borða sykur. Eða þá brauð. Já steinhætt. 

Það hefur yfirleitt gengið illa. Bæði vegna þess að ég er ekki ofhlaðin sjálfsaga auk þess sem ég er 100% steingeit og þarf plan. Plön og ToDo listar, það er mitt. 


Hin nýja heilaga biblía.

Þess vegna ákvað ég að prófa 30 daga mataræðishreinsunina frá Davíð Kristinssyni. Skothelt plan.  

Í afar stuttu máli snýst málið um að yfir 30 daga tímabil lætur maður eftirfarandi ekki inn fyrir sínar varir; 

Áfengi
Koffín
Mjólkurvörur
Sykur
Svínakjöt
Glútein og ger
Pakkamat og unna matvöru

Aha. Þetta er rosalegur listi og ég spurði mig hvað í dauðanum ég mætti þá borða. Ekkert? Jú, maður má nefnilega borða helling. Bókin er snilldarlega uppsett, inniheldur bæði fróðleik um mataræðið á mannamáli, matseðla fyrir mánuðinn (þrennskonar) og uppskrifir af öllu því sem á að elda og borða yfir tímabilið. Uppskriftirnar eru mjög góðar og flestar bara venjulegur, hollur heimilismatur. 


Frækex í undirbúningi. 

Með þessu móti er þetta "ekkert mál". Eða þið vitið, þannig. Fyrir mig skiptir miklu máli að ég geti farið algerlega eftir einhverju, en sé ekki sjálf að reyna að finna upp hjólið. Sjálf er ég aðeins búin með þrjá daga og líður vel. Það eina sem ég finn virkilega fyrir er kaffileysið.

Að þessum 30 dögunum liðnum bætir maður smá saman inn tegundum af bannlistanum (ef vill). Með því móti er gerlegt að átta sig á því um hvort fæðuóþol af einhverju tagi sé að ræða. Sumir kjósa í framhaldinu að losa sig alveg við sykur, glútein, kaffi eða hvað annað. Aðrir ekki. 


Er líklega búin að borða fleiri egg þessa þrjá daga en allt mitt líf. Hér má sjá hádegismat gærdagsins. 

Það sem hefur komið mér allra mest á óvart þessa þrjá daga er hve södd ég er allan daginn, enda borða fimm sinnum á dag. Hef auk þess sjaldan brasað eins mikið í eldhúsinu og þessa daga.  

Ekki ber þó að fagna fyrr en að leikslokum. Fyrstu lotu lýkur ekki fyrr en eftir 27 daga og þá met ég stöðuna og það hvað gera skal í framhaldinu. Lofa að leyfa ykkur að fylgjast með annað slagið, svona sérstaklega fyrir þau ykkar sem eruð að íhuga slíka hreinsun. 

Endilega lækið þessa hér og fylgist með.