Tuesday, November 27, 2012

What Doesn´t Kill You...


Þessi pistill ætti líklega að vera akkúrat mánuði seinna á ferðinni, svona ársuppgjör þið skiljið. Ef tímasetningin er eitthvað að trufla hvet ég ykkur til þess að skottast í bílskúrinn og athuga hvort þar leynist ekki gamalt stjörnuljós frá því í fyrra og láta sem það séu að koma áramót ekki á morgun heldur eftir nokkra. Komið? Ókei…
Eníveis! Þegar ég rak augun í fyrirsögnina „Búið að vera skelfilegt ár“ á mbl þá gat ég ekki annað en skellt upp úr, alein heima. Blikkaði ímyndaða vin minn sem Gísli hvetur mig til þess að rækta sambandið sérstaklega við þessa dagana þar sem ég er svo mikið ein heima. Sem betur fer hringdi mín elskulega vinkona að sunnan á sama tíma þar sem ég sá að Mangi nennti engan vegin að ræða málin…
Við vinkonur, sem eigum afar erfitt með að hafa þessa 700 úldnu kílómetra á milli okkar, hugsum oftar en ekki eins. Já meira að segja mjög oft, botnum líka setningar fyrir hvor aðra og svona…
Sæl‘skan
Veistu, ég fór aðeins út að skokka áðan og þá hugsar maður eitthvað svo mikið. Mér var hugsað til þín og þessa árs, kræst – hvað er að frétta??! Ertu að borga fyrir allar þínar syndir frá því í móðurkviði og kannski að skrifa aflausnir fram í tímann? Það er ekki hægt hvernig árið þitt er búið að vera, það er eiginlega bara fyndið!
Sko, ef við byrjum nú bara fyrir sléttu ári, þá dó bíllinn þinn drottni sínum. Bara fór ekki í gang þegar þú varst að koma úr flugi frá Reykjavík og mín þurfti bara að húkka far niðrá Reyðó – alveg eins og ýlandi dræsan í Stellu í orlofi!Voða, voða lítið að gera fyrir einstæðar mæður!
Svo var það puttinn á jóladag. Að detta á svelli á leið í jólaboð og fara úr lið! Puttinn alveg eins og á Fílamanninum. Spelka og læti, sem týndist nú að vísu mjög fljótlega…
Kærastafíaskóið í upphafi árs. Ég meina, hver hefur eitthvað við kærasta að gera sem er ekki nógu skotinn í manni. Ekki við! Sko mína að skila honum lóðbeint til höfuðborgarinnar aftur!
Fótbrot í júní, mánuður í gipsi!Tékk!
Húsnæðismálið ógurlega sem nú hefur tekið tæpt hálft ár! Að láta selja ofan af sér leiguhúsnæði er ekki góð skemmtun.
Enda svo árið með að vera Dreki – bara sagt upp í vinnunni ossonna! Enda ár Drekans og vinna bara bóla og gersamlega ofmetið fyrirbæri!

Við biluðust úr hlátri þegar hún setti þetta svona upp, ekki hægt annað – enda með alla útlimi í lagi, á heilbrigð og mögnuð börn og komin í húsaskjól.  Já og vinna er eitthvað svo óld, eitthvað svo 2012.  Reyndar er gaman að segja frá því að mér hafa boðist ótrúlega spennandi verkefni úr öllum áttum, hef ekki þurft að lyfta litla fingri varðandi vinnuframtíð mína sjálf. Magnað, datt ekki í hug í mínum villtustu draumum að þetta gengi svona til. Ætla þó að gefa mér tíma fram yfir jól og melta þetta allt saman í bland við rjúpurnar og jólaölið.
Get allavega ekki beðið eftir að takast á við nýtt og stórskemmtilegt ár með frábærum og risastórum áskorunum. Krakkar, verið góð við hvert annað og hrósið náunganum. Það er svo gott!

Monday, November 26, 2012

Kraftaverkin gerast enn í Betlihem.


Kraftaverkin gerast enn í Betlihem. Haldið að hundraðþúsundára húsnæðisvandi fjölskyldunnar sé ekki leystur!
Þannig var að Íbúðalánasjóður auglýsti nokkrar íbúðir til leigu í Melgerði á Reyðarfirði, þ.e. í háhýsablokkunum sem við sjálf búum í tímabundið. Til þess að þurfa a) ekki að lenda á götunni b) sleppa tengdaforeldrum mínum við aðra innrás á nýju ári ákváðum við að Gísli bæði að sækja um til þess að vera örlítið sigurstranglegri í íbúðalottóinu…
Bréfið mitt hjóðaði sirka svona:
Subjekt: Óska eftir íbúð í Melgerði 7, Reyðarfirði

Ég, Kristborg Bóel sæki hér með um fjögurra herbergja íbúð í Melgerði 7 á Reyðarfirði. Er með fimm manna fjölskyldu og bráðvantar íbúð sem allra fyrst.

Svarið frá Íbúðalánasjóði barst síðdegis á föstudag og hljóðaði svona:
RE: Óska eftir íbúð í Melgerði 7, Reyðarfirði

Búið er að draga úr umsóknum sem bárust í eignina Krossmóa 1, Keflavík. Því miður var nafn þitt ekki dregið út. Eins og staðan er í dag er engin eign til leigu hjá Íbúðalánasjóði.

Gísli spurði mig hvort ég væri að fara frá sér, til Keflavíkur. Ekki veit ég hvaða snillingur sá um dráttinn eða þá hvort ég komst þá nokkrntíman í pottinn hér í Betlehem. Hitt veit ég að Gísli fékk ekkert svar á föstudaginn. Töluverðrar frústrasjónar gætti á heimilinu, enda húsnæðismál orðinn jafn þreyttur brandari og prumpuhúmor hjá margra-barna-foreldrum. En, viti menn! Kringum kvöldmat í gær barst Gísla símtal þess efnis að hann væri sá útvaldi. Haaaalelúja, halelúja, halelúúúja!
Við skötuhjú skunduðum því milli blokka í gærkvöldi til þess að skoða herlegheitin, sem eru jú alveg eins og þau sem við búum í nú. Eða næstum því. Við þurfum þó líklega aðeins að venjast því að eiga nágranna í blokk, en aðeins eru tvær íbúðir í noktun í því húsi sem við erum núna. Krakkarnir hafa ganginn út af fyrir sig sem iðulega er brúkaður sem fótboltaæfingasvæði!
En,  1. janúar verður það heillin, sem flytjum enn einu sinni. Vonandi í eina skiptið árið 2013. Amen.

Wednesday, November 21, 2012

Bókajól


Ein af mínum uppáhaldsæskuminningum er tengd bóklestri um jólin. Að leggjast upp í rúm á aðfangadagskvöld með konfektkassa og appelsín og lesa þar til maður datt útaf er svo ljúf. Ég fékk alltaf margar bækur í jólagjöf og drakk þær í mig eins og svampur.
Ég hef alltaf haldið bókum að börnunum mínum því það er mín skoðun að lestur sé afskaplega þroskandi, auki hugmyndaflug, orðaforða og efli andann. Ég les daglega fyrir litlu gormana mína fyrir svefninn og það er þeim alveg jafn eðlilegt og tannburstunin. Að mínu mati er engin leið betri en að  ljúka löngum og ströngum degi með því að skríða öll saman í eitt ból og lesa einn kafla í einhverri skemmtilegri framhaldssögu fyrir svefninn.
Mitt uppáhalds tímarit eru Bókatíðindi sem bárust í hús fyrir skemmstu. Mér til mikillar ánægju tóku Bríet og Þór sér til og merktu við, hvort í sínum lit, við þær bækur sem þau gætu hugsað sér að fá undir tréð að mánuði liðnum. Þær eru ekki svo fáar skal ég segja ykkur.
Þannig að, til þeirra sem málið varðar – þetta eru bóka-óskalistar háhýsabarna þessi jólin;
Bríet & Þór:
 • Aukaspyrna á Akureyri (Gunnar Helgason)
 • Dagbók Kidda klaufa, svakalegur sumarhiti (Þau langar í allar bækur um þennan gaur!)
 • Allt um íslenska knattspyrnu
 • Angry Birds, svínslegar eggjauppskriftir
Bríet:
 • Leyndarmál hundaþjálfunar
 • Grímsævintýri, ævisaga hunds (Krístín Helga Gunnarsdóttir)
 • Reisubók Ólafíu Arndísar (Kristjana Friðbjörnsdóttir)
 • Andrés extra (og almennt allar Syrpur að mér sýnist)
 • Bert og frelsið
 • Judy Molly bjargar heiminum
 • Skúli skelfir og íþróttadagurinn
 • Skúli skelfir og uppvakningurinn
Þór:
 • Krakkinn sem hvarf (Þorgrímur Þráinsson)
 • Lego StarWars
 • Strumparnir – þrautabækur
Sjálfri langar mig þó aðallega að skrifa bók, kannski bara fyrir næstu jól!

Monday, November 19, 2012

Í ömmuhúsi


Ég lygni aftur augunum og leyfi huganum að reika. Eins og svo oft áður hvarflar hann beinustu leið í ömmuhús. Ég verð einn og þrjátíu á hæð og tuttugu og fimm kíló. Með skakka tíkarspena, þvertopp og gleraugu. Í firðinum litla er froststilla og dagurinn hefur verið dimmur. Það skiptir engu máli því í ömmuhúsi er bæði hlýtt og bjart. Við stelpurnar erum að hefja jólabaksturinn. Með fagurlitaðar svuntur hlustum við á Gerði G. Bjarklind kynna jóladúetta með Ellý og Vilhjálmi Vilhjálmsbörnum. Ég hef lengi hlakkað til bakstursins og ekki að ástæðulausu. Ég gegni þar ábyrgðamiklu hlutverki. Það er ég sem sé um að sjálfar engiferkökurnar líti vel út. Buffhamarinn er notaður til verksins. Af mikilli nákvæmni, með tunguna út í öðru munnvikinu, miða á á kökuna og ýti. Undan hamrinum sprettur lystilegt mynstur. „Flott hjá þér elskan mín, það held ég að þær eigi eftir að bragðast vel þessar.“ Á meðan ég sit við eldhúsborðið og vinn mitt verk sýslar amma sitt. Við segjum ekki margt. Það er óþarfi – samveran er okkur nægjanleg. Bökunarlyktin líður um loftið, tíminn er afstæður og mér líður vel.
Ég naut þeirra forréttinda sem barn að hafa óskertan aðgang að ömmu og afa. Í ömmuhúsi ríkti alltaf einstakur friður og ró. Enginn þurfti að flýta sér. Að engu þurfti að ana og allur heimsins tími var fyrir mig. Í minningunni var amma sérsmíðuð fyrir mig og okkar sterka samband hefur mér alla tíð verið mjög dýrmætt. Sem móðir þriggja barna tel ég samband kynslóðana vera veigamikinn þátt í uppeldi barna sem beri að rækta af alúð. Það er yndislegt fyrir hvern þann sem getur með sjálfum sér og öðrum rifjað upp og deilt ljúfum minningum úr æsku. Minningarbrotin þurfa ekki endilega að tengjast merkilegum atvikum. Í mínu tilfelli eru það litlu og hversdagslegu hlutirnir sem standa uppúr.
Í nútímasamfélagi þar sem hraðinn og græðgin ætla allt um koll að keyra tel ég nauðsynlegt að staldra við og íhuga hvað það er sem mestu máli skiptir. Þegar öllu er á botninn hvolft er fjölskyldan hornsteinninn. Án hennar væri lífið innantómt og jeppinn og pallurinn myndi missa mesta glansinn. Staðreyndin er sú að fjölskylduböndin þarf líka að bóna ekki síður en jeppan og að þeim þarf að dytta ekki síður en pallinum.
Sorglegt er til þess að hugsa að fólk þurfi að lenda í alvarlegum veikindum eða aðstæðum þar sem dauðinn ógnar til þess að átta sig á því á hversu dýrmætur sjóður þeirra nánustu eru og ekki er sjálfgefið að allir hittist heilir að kvöldi.
Ekki er óalgengt að lesa viðtöl við fólk sem lent hefur í miklum hremmingum og lofar þar bót og betrum í náungakærleik. Bæta skal á einu bretti upp öll árin þar sem vinnan var í fyrsta sæti. Íslendingar hafa verið kallaðir vinnualkar og litið hefur verið á þá sem vinna mest sem sannar hetjur. Fyrir hvern hetjuskapurinn er drýgður er ekki gott að segja. Börnin meta það án efa meira ef við gefum þeim tíma til þess að taka þátt í þeirra daglegu athöfnum en að annríkið sé bætt upp með fjarstýrðum bíl eða Baby born.
Ég lít á samverustundir sem ég á með fjölskyldunni minni sem og þeim sem eru mér kærir líkt og innlegg á bankabók. Ef lítið er lagt inn á reikninginn er ekki hægt að vænta hárra vaxta eða gildrar innistæðu. Nú þegar helgasti ársins fer í hönd er rétt að standra við og forgangsraða rétt. Að mörgu þarf að huga við undirbúning hátíðahaldanna og auðvelt er að gleyma sér í dagsins önn. Setjumst niður og gefum okkur tíma til þess að njóta aðventunnar með okkar fólki. Gáfulegra er að taka húsið í gegn í vor þegar birtu nýtur og sólargeyslarnir leiða okkur í sannleikann um hvar á eftir að pússa. Tökum börnin okkur til fyrirmyndar. Hjá þeim er hinn sanna jólaanda a‘ finna. Þau hafa engar áhyggjur af því þó svo eitt og eitt rykkorn leynist í skápahornunum.
Jólabakstur okkar ömmu endaði á viðeigandi hátt – með kökuáti og ískaldri mjólk. Sjálfsagt hefur gólfið verið hveiti stráð, en það skipti engu máli. Engiferkökurnar mínar minntu á stjörnur á næturhimni, svona fagurlega flúraðar. Í skápinn fyrir ofan ísskápinn sótti amma mikinn fjársjóð. Þar leyndust glös sem mér þótti mikilengilegri en þynnsta postulín. Glösin voru úr plasti og engin tvö voru í sama lit. Öðrum hefur varla þótt þau merkileg en mér fannst mjólkin bragðast betur úr þeim en öðrum glösum. Ég fékk þau eingungis til afnota þegar mikið stóð til og ég valdi alltaf gula glasið. Merkilegir töfrar áttu sér stað í hvert skipti sem ég drakk mjólk úr því. Hvernig sem á því stóð öðlaðist drykkurinn hversdagslegi alltaf sítrónubragð. Svona var allt töfrandi í ömmuhúsi.
Gefum hvert öðru tíma og athygli, ekki síst börnunum okkar. Hlustum á það sem þau hafa að segja og látum þau finna að þau skipti okkur máli. Kveikjum á kertum, hlustum á fallega tónlist og ekki væri úr vegi að narta í smákökurnar sem fjölskyldan hefur bakað – saman.
Fyrstu skrefin, desember 2003.

Tuesday, November 13, 2012

Í fréttum er þetta helst.


 • Ég er farin að sofa á nýjan leik eftir dreka-útspilið. Þrátt fyrir að hafa hvorki misst útlim eða lent í náttúruhamförum snérist tilveran þó á hvolf og ég neitaði að sofa þrátt fyrir miklar fortölur sjálfrar míns. Vakti bara og vakti út í það endalausa. Var með dólg á nóttunni, fór fram – prjónaði, ristaði mér brauð og bara gerði það sem mér datt í hug. Allt nema sofa í hausinn á mér. Held að aðrir heimilismeðlimir séu einnig fegnirað hugur minn sé ekki lengur á yfirsnúning!
 • Prjónaskapur á mjög upp á pallborðið hjá mér um þessar mundir og engan í ættinni skal undra þó mjúkir pakkar berist frá okkar fjölskyldu þessi jólin.
 • Á morgun munum við Gísli taka eitthvað af okkar hafurtaski úr bílskúrnum hjá tengdó og flytja í „millibilsíbúð“ í Melgerði á Reyðarfirði. Þurfum að skila henni á um áramót þannig að við nýtum líklega gamlársdag til þess að skúra okkur þar út. Enn er ástandið á Reyðó svipað og í Betlehem forðum – en þar er ekkert húsaskjól að fá. Hef mikið hugsað um örlögin síðustu daga hvort þetta sé bara ekki merki um að leita á nýjar slóðir – brottrekstur úr vinnu og ekki sjens að fá húsnæði. Kannski bara faaaaaaaaaaaaarðu kjelling og gerðu eitthvað annað. Nei, ma bara spyr sig?
 • Aðventan er handan við hornið og ég ætla að njóta þess í botn að dúllast með krílunum mínum sem eru búin að vera allt of lítið hjá mömmu sín síðustu vikur. Ætlum að baka, baka og baka. Baka svo meira og baka. Hlusta á jólalög og spila veiðimann. Horfa á DVD, knúsast í klessu og hafa það óendanlega kósý!
 • Ætla að klára allt sem ég get fyrir jólin áður en ég fer í útlandið 6. desember. Það er ekki eins og ég hafi ekki nægan tíma. Það er samt alveg merkilegt, það er alltaf brjálað að gera og ég skil suma daga bara alls ekki hvernig ég kom vinnu yfirhöfuð inn í prógrammið!
 • 6. des. Ohhh, elsku sjötti – komdu eins fljótt og þú getur. Því þá fer ég til London með Gíslanum mínum og fleirum fræknum. Ég hreinlega get ekki beðið, bara ekki!
 • Ég er komin með núll rjúpur í höfn. Það gengur ekki. Á reyndar eftir að fara grenjandi til bræðra mína og biðja um þrjár pínuponsulitlar rjúpur. Ef þið vitið um einhvern díler, þá endilega látið mig vita. Rjúpnalaus koma jólin varla. Svo eru bara nokkrir dagar í skötuna krakkar, vííhhhh!
 • Annað var það svosem ekki. Nema jú, síminn minn kemur á morgun. Það verður nú aldeilis skemmtilegt!

Friday, November 2, 2012

Holdsveikur dreki


Meistaramánuðurinn minn endaði aldeilis með prompi – en ég var rekin úr vinnunni þriðjudaginn 30. október. Kölluð á fund klukkan níu árdegis inn í hrollkalda tölvustofu og sagt að vegna skipulagsbreytinga væri karfta minna ekki lengur þörf. Þyrfti jafnframt ekki að vinna frestinn og mætti bara fara heim, já bara núna. Alltílæ, bless, bless. Tók því töskuna mína og stimplaði mig út í síðasta skipti eftir tæplega sex ára starf, án þess að skila verkefnunum mínum af mér eða kveðja vinnufélagana! Hugsaði um drekaatriðið í Fóstbræðrum á leið minni út…
Ekki að ég sé sú eina sem hefur verið sagt upp störfum á Íslandi í dag og ég ætla ekki hér að fárast yfir því. Ég þarf heldur ekki að lýsa því fyrir þeim sem hafa reynt að mér líður svolítið eins og ég standi á höndum og reyni þannig að sinna daglegum verkum. Tilveran fer á hvolf þegar svo mikilvægur hornsteinn eins og vinnan er kippt úr undirlaginu…
Ég var reyndar aðeins búin að vera atvinnulaus í 25 mínútur þegar ég fékk símtal þar sem ég var  beðin um að íhuga að taka að mér mjög spennandi tímabundið verkefni. Það var mjög  ljúft og þarft því auðvitað fór sú hugsun strax að flögra um í huga mér að ég sé greinilega ekki eftirsóknarverðari starfskraftur en þetta. Það eru eðlileg viðbrögð hvers manns huga í þessum aðstæðum og því kærkomið að slík viðurkenning bærist svo fljótt!
Ekkert af þessu finnst mér þó eins erfitt og það að enginn vinnufélagi minn hafi heyrt í mér eftir þetta. Bara svona mínútu símtal, rétt til þess að tékka hvernig mér líki að „vera dreki“ og hvernig mér líði. Var í viðtalinu reyndar hvött til þess að nýta mér þjónustu fyrritækisins og tala við hjúkkurnar eða sálfræðing, því þetta væri mikið högg. Það getur vel verið að ég geri það þegar ég næ áttum almennilega. En, fyrst og síðast hefði ég verið þakklátust fyrir að heyra kannski í þeim sem ég hef umgengist átta tíma á dag, sumum í tæp sex ár og öðrum skemur. Ég er ekki að ásaka einn eða neinn, ég hefði kannski brugðist nákvæmlega eins við sjálf – ekki vitað hvað ég ætti að segja eða gera ef ég hefði verið hinumegin borðsins?
Elsku fólk. Mig langar aðallega að vekja máls á þessu ef þið eigið eftir að lenda í þessu sjálf, að einn úr ykkar röðum verði látinn fjúka. Gerið það, hafið samband, ekki vera hrædd við það. Ekki óttast að sá hinn sami vilji ekki fá símhringingu eða knús út í búð. Þetta er svo mikil höfnun eitt og sér að það skiptir öllu máli að vera ekki trítaður eins og holdsveikur dreki í ofanálag…
En, nú er bara að horfa fram á veginn og hefja nýjan kafla. Ef þið vitið um eitthvað smellið og skemmtilegt fyrir mig að gera, þá er ég góður starfskraftur og ógizzlega hress & skemmtileg. Einnig ef þið vitið um einhvern sem ætti það virkilega skilið að láta skrifa um sig ævisögu, þá skal ég rumpa því af á 0,einari!
Gæs, nýtið vonda veðrið til þess að vera sérstaklega góð við hvert annað. Prjóna, horfa á góða mynd og knúsa heimilismeðlimi. Lov&peace!
Tékkið á kollegum mínum hér að neðan;
(Source: youtube.com)