Wednesday, November 21, 2012

Bókajól


Ein af mínum uppáhaldsæskuminningum er tengd bóklestri um jólin. Að leggjast upp í rúm á aðfangadagskvöld með konfektkassa og appelsín og lesa þar til maður datt útaf er svo ljúf. Ég fékk alltaf margar bækur í jólagjöf og drakk þær í mig eins og svampur.
Ég hef alltaf haldið bókum að börnunum mínum því það er mín skoðun að lestur sé afskaplega þroskandi, auki hugmyndaflug, orðaforða og efli andann. Ég les daglega fyrir litlu gormana mína fyrir svefninn og það er þeim alveg jafn eðlilegt og tannburstunin. Að mínu mati er engin leið betri en að  ljúka löngum og ströngum degi með því að skríða öll saman í eitt ból og lesa einn kafla í einhverri skemmtilegri framhaldssögu fyrir svefninn.
Mitt uppáhalds tímarit eru Bókatíðindi sem bárust í hús fyrir skemmstu. Mér til mikillar ánægju tóku Bríet og Þór sér til og merktu við, hvort í sínum lit, við þær bækur sem þau gætu hugsað sér að fá undir tréð að mánuði liðnum. Þær eru ekki svo fáar skal ég segja ykkur.
Þannig að, til þeirra sem málið varðar – þetta eru bóka-óskalistar háhýsabarna þessi jólin;
Bríet & Þór:
  • Aukaspyrna á Akureyri (Gunnar Helgason)
  • Dagbók Kidda klaufa, svakalegur sumarhiti (Þau langar í allar bækur um þennan gaur!)
  • Allt um íslenska knattspyrnu
  • Angry Birds, svínslegar eggjauppskriftir
Bríet:
  • Leyndarmál hundaþjálfunar
  • Grímsævintýri, ævisaga hunds (Krístín Helga Gunnarsdóttir)
  • Reisubók Ólafíu Arndísar (Kristjana Friðbjörnsdóttir)
  • Andrés extra (og almennt allar Syrpur að mér sýnist)
  • Bert og frelsið
  • Judy Molly bjargar heiminum
  • Skúli skelfir og íþróttadagurinn
  • Skúli skelfir og uppvakningurinn
Þór:
  • Krakkinn sem hvarf (Þorgrímur Þráinsson)
  • Lego StarWars
  • Strumparnir – þrautabækur
Sjálfri langar mig þó aðallega að skrifa bók, kannski bara fyrir næstu jól!

No comments:

Post a Comment