Friday, July 15, 2016

Hvað í andskotans djöflinum er að frétta?


Ég fann hvernig pirringur minn stigmagnaðist þegar ég sat þarna í anddyrinu á Skattstofunni á Egilsstöðum við undirbúning árlegra frétta um tekjur Austfirðinga fyrir síðasta skattaár.

Ein og ein kona á stangli slægðist inn á listann yfir tekjuhæstu einstaklinga hvers bæjarfélags fyrir sig og þá helst með því að við lækkuðum „viðmiðið“ til þess að koma þeim inn.

Ég hugsaði með mér, að vildi ég ná að lifa sómasamlega og réttu megin við hungurmörk, væri aðeins tvennt í stöðunni; að fara á sjóinn eða skipta um kyn.

Hvað er andskotans málið? Afsakið orðbragðið. Ekki að þetta séu nýjar fréttir. En bara, hvað er?
Menntunarstig kvenna hérlendis er hærra en karla ef eitthvað er. Konur gegna sömu stöðum og vinna jafn mikið og karlar. Eini munurinn er að þær fá minna borgað fyrir það.

Orðið „feministi“ á það til að bjagast í umræðunni og hefur verið túlkað í þá veru að með því vilji konur yfirtaka heiminn. Það er vissulega ekki rétt og samkvæmt skilgreiningu merkir orðið; „Femínisti er karl eða kona sem veit að jafnrétti kynjanna hefur ekki verið náð og vill gera eitthvað í því.“ Skilgreiningin gengur í báðar áttir og snýst aðeins um jafnan rétt einstaklinga á öllum sviðum samfélagsins, óháð kyni.

Flest eigum við börn og mörg okkar bæði syni og dætur. Viljum við börnunum okkar ekki það allra besta? Líka dætrum okkar? Viljum við ekki að þær séu metnar af verðleikum, ekki að útborguð laun þeirra gengisfellist við það eitt að þær séu konur?

„Þessu þarf að breyta og við verðum að berjast fyrir því að leiðrétta launamun kynjanna.“ 

Hefur einhver heyrt þessa klausu sagða? Berjast fyrir hverju? Af hverju þarf að berjast? Hvað er það sem er svona flókið? Þarf að hugsa þetta eitthvað? Þarf að gera það í einhverjum skrefum? Er ekki bara ósköp einfalt að borga tveimur einstaklingum sömu laun fyrir sömu vinnu?

Jæja. Ég kom svo heim eftir þessa útsvars-yfirlegu og kveikti á sjónvarpinu. Datt þar inn á viðtal við þjálfara og fyrirliða meistaraflokks kvenna hjá Þór á Akureyri. Umræðan var mismunun kynjanna innan íþróttahreyfingarinnar.

Stelpurnar í meistaraflokknum fá ekki krónu fyrir að stunda sína íþrótt meðfram fullri vinnu. Það fá strákarnir hins vegar.

Ekki nóg með það, heldur krefst það mikilla ferðalaga að spila í efri deildum og þurfa að sækja leiki í önnur landshorn. Til þess að fjármagna þessar ferðir, sem að mér skildist á viðtalinu að væru í það minnsta fjórtán til Reykjavíkur yfir keppnistímabilið, þá þrífa þær íbúðir eða telja vörur í verslunum. Ekki strákarnir þurfa ekki að skila slíkri vinnu þar sem þeir eru með fleiri og stærri styrktaraðila.

Þjálfarinn, sem var karl, talaði um mikil hughrif og fegurð þessara aðstæðna – hér væri á ferðinni sönn áhugamennska. Þáttastjórnandi bar það upp hvort þetta væri eins og við vildum hafa það, hvort vandinn lægi ekki í því að láta þetta viðgangast. Þjálfarinn sagði það kannski vera, en við ættum bara að taka hattinn okkar ofan fyrir þessum stelpum sem fengju aldrei neitt upp í hendurnar og sýndu af sér mikinn karakter með þessu.

Þáttastjórnandi spurði þá bara hvar við værum stödd samkvæmt þessu, nú árið 2016?

Ég geri það sama. Hvað er að frétta? Persónulega tek ég ekki ofan af mér hattinn fyrir þessu bulli. Líklega hefur þetta verið vel meint og allt það. Ég sé enga fegurð í þessu og verð ekki fyrir nokkrum hughrifum. Bara, fokkit!

No comments:

Post a Comment