Monday, March 23, 2015

Heima


Eins og ég sagði frá um daginn þá fjárfesti fjölskyldan sér í húsi á Reyðarfirði um daginn og eignaðist því nýtt "heima".  

Þór spurði mig hvað ég hefði búið í mörgum húsum gegnum tíðina og ég þurfti að telja þrisvar sinnum. Niðurstaðan var að ég er að koma mér fyrir í 15 skipti þessa dagana. Ég átta mig ekki á því hvort það er mikið eða lítið miðað við meðal manneskjuna á Íslandi í dag. Allavega er ég orðin nokkuð sjóuð í þessu og á auðvelt með að gera húsnæði að "heima".

Ég er afar mikil áhugamanneskja um hús, hönnun og öllu sem því tengist. Mig hefur lengi dreymt um að eignast eldra steinhús á einni hæð - eitthvað sem helst er upprunalegt og ég get gert að mínu með góðri samvisku. Túngatan er akkúrat það sem ég var að leita að. 

Ég verð þó að viðurkenna að við fengum pínu í magann þegar við vorum búin að kaupa og áttuðum okkur almennilega á því hve mikið þarf að gera til þess að húsið verði eins og okkur langar að hafa það. En, það er nú bara lúxusvandamál og verður unnið í smá skömmtum síðar. 

Ég var búin að lofa myndum og hér koma nokkrar


Ehh, já. Það kom nokkuð stór IKEA sending í hús í síðustu viku. Gísli minn, hann tuðaði bara smá. Bara pínu. Það eru til dæmis aðeins skápar í hjónaherberginu og því verður að redda fatamálum með öðrum hætti. Skyrturnar hans Emils sóma sér afar vel fyrir ofan kommóðurnar á svefnherbergisganginum. Þessi veggur mætir manni um leið og maður kemur inn úr forstofunni. Þarna ætlaði ég að fá Gísla til þess að smíða svona kassahillur - en er að hugsa um að færa það á annan vegg of láta prenta svarhvítar myndir af öllum krökkunum.Ég er ótrúlega ánægð með myndina af Bríeti frá SG merkingu - en það eru annaðslagið mjög góð tilboð hjá þeim. Stofan. Hjá kamínunni er gengið inn í herbergi sem búið var til úr borðstofunni. Þar sem við erum með svo mörg börn ákváðum við að láta það standa - en þegar við gerum breytingar munum við opna allt saman og búa til opið rými sem sameinar stofu og eldhús. Uppáhalds listaverkin mín í allri veröldinni. Þessar olíumyndir á striga málaði Almar Blær þegar hann var sex ára gamall. Uppáhaldsstaðurinn minn í húsinu. Eldhúsið er lokað og upprunalegt en hafði fengið andlitslyftingu frá fyrri eigendum. Einhvern daginn munum við brjóta þarna í gegn (þar sem eldavélin er) - inn í herbergið sem var borðstofa og gera risastóra rennihurð út í garð, beint í vestur með dásamlega fjallasýn. 


Á meðan gerum við eldhúsið bara huggulegt með fleiri listaverkum eftir krakkana. 


Þessar sóma sér vel í eldhúsinu. 


Að lokum. Hann er loksins minn. Hann Jón. Gísli kom færandi hendi með hann frá Akureyri um daginn. Jei!