Thursday, March 28, 2013

Bjargráð til kvenna


Naglalakk. Hef ég nefnt það orð áður? En, akkúrat svona er blákaldur raunveruleikinn í 403. Lökkin eru að ná yfir og ef fer sem horfir þarf ég að stækka við mig húsnæði.


Enn á ný koma kollegar mínir á Pinterest mér til bjargar. Betri hugmynd er ekki hægt að hugsa sér svona á skírdegi. Ég mun fara á stúfana strax á morgun, já eða á laugardaginn til þess að verða mér út um björgina. Halelúja.

Tuesday, March 26, 2013

Gömul frústrasjón og nýÉg hef aldrei skilið af hverju er ekkert almennilegt ljósmyndanám á Íslandi. Af hverju í dauðanum er ekki hægt að læra fagið í Listaháskóla Íslands? Væ?


Hef í dag reynt að gúggla hvar annarsstaðar sé þá best að bera niður fyrst ég yrði að fara úr landi. Er svosem ekki besti gúgglarinn, bý ekki yfir eins markvissu vinnubrögðum og margir í þeim efnum - togast einhvernvegin út og suður.


Niðurstaða dagsins: Ég átta mig alls ekki og engan veginn á því hvert ég á að henda mér þegar ég læt drauminn rætast.

Sunday, March 24, 2013

Stjarnfræðilega góð sítrónukaka frá Starbucks

Bakaði köku í gær sem ég get ekki hugsað mér að nokkur láti fram hjá sér fara, sítrónukaka úr smiðju Starbucks. Vá hvað hún var góð! Dreymir reyndar reglulega um Starbucks-ískaffi, ohhh. Þegar ég var í Englandi fyrir jól var mikil umræða í fjölmiðlum þar sem fólk var hvatt til þess að sniðganga fyrirtækið vegna þess að það borgaði ekki einhverja skatta, eða eitthvað álíka vesen. Ég lét það sem vind um eyru þjóta, lífið er einfaldlega of stutt til þess að fá sér ekki ískaffi á SB hvenær sem færi gefst. Og nú bætist í "verð að fá" listann þaðan...

Ég "lækaði" nýverið síðu sem heitir Ljúfmeti og lekkerheit, en þar töfrar hún Svava fram frábærar uppskriftir í öllum flokkum. Ég sit löngum stundum slefandi fyrir framan tölvuna og langar bókstaflega til þess að elda og baka nánast allt sem þarna er. Finnst mikill kostur að um einfalda en um leið freistndi rétti er að ræða, en það hentar mjög vel á stóru heimili.
Tjah. Eitthvað er þetta þó undarleg mynd - toguð og eitthvað mis. Starbucksafkvæmið lúkkar ekki einu sinni vel, en ég lofa því að kakan er himnesk! Ég skora á ykkur að skella í eina, verðið ekki svikin.  

Reyðfirðingar athugið þó: Það eru ekki til sítrónudropar í Krónunni, allavega ekki í gær. Ég var alveg við það að fara að orga og grenjavið rekkann, en náði að redda mér fyrir horn og fá þá heimsenda frá Egilsstöðum. Sem betur fer. Hefði þótt pínu vandræðalegt að ganga í hús á laugardegi, eftir lokun ÁTVR, til að fá lánaða bökunardropa. 

Saturday, March 23, 2013

Alþjóðlegi 20.000 kaloríudagurinn er í dag

Laugardagur og fullt af fólki í mat í 403. Ræð mér ekki fyrir kæti. Best í heimi. Matseðill kvöldsins minnir á vorið en hann hljómar nokkurnvegin svona:
 • Beikonvafðar döðlur í forrétt
 • Heimagerðir Krissuborgarar í aðalrétt. Bornir fram með sultuðum lauk, hvítlauksmarineruðum sveppum, frönskum, grænmeti og sósum
 • Frönsk súkkulaðikaka 
 • Hvítur rússi fyrir þá sem vilja í eftirdrykk
Ætlaði af þessu tilefni að kenna ykkur að sulta lauk (bragðast mun betur en það hljómar) með borgurum, en þar sem það greip mig eitthvað æði í eldhúsinu verður færslan líklega eitthvað lengri.


Ég er steinhætt að kaupa tilbúna hamborgara, geri þá alltaf sjálf og get ekki einu sinni líkt þeim saman við þá sem til eru í stórmörkuðum. Og nei, það er ekkert einasta vesen. Kaupi brauðin bara stök en í borgurunum sjálfum eru bara nautahakk, salt, pipar og hvítlaukur. Annars má setja hvaða krydd sem er. Set hakkið, pressaðan hvítlauk (góðan slatta) og kryddið í hrærivélina í smá stund, en bara smá stund - annars finnst mér hakkið verða seigt. Stundum sleppi ég því að setja það í vélina og hnoða bara aðeins saman í höndunum. Móta svo vel útilátna borgara og hendi þeim í Gísla sem grillar þá. Einfaldara getur það ekki verið. Alls ekki. 
Ég lærði að meta sultaðan lauk með þessum borgurum síðasta sumar þegar Hrafnhildur, elskuleg vinkona mín, heimsótti mig. Og men, hvað það passar vel saman. Það sem þarf er fullt af rauðlauk (ég ætla að vera með sex lauka í dag af því það eru svo margir í mat), íslenskt smjör, púðursykur og balsamikedik. Líka salt og pipar. Ég bræði smjör í potti og set púðursykur út í og svo edikið.  Betra er að byrja á minni ediki en meira. Salt og pipar. Þegar blandan er farin að sjóða smá set ég laukinn út í - en hann sker ég í sneiðar. Þetta á svo bara að malla á lágum hita í klukkutíma. Ég er ekki með neinar mælieiningar, þetta verður bara að smakkast saman.


 Sveppina steiki ég bara uppúr íslensku smjöri, hvítlauk og maldonsalti. Ummmm...


Beikonvafðar döðlur eru sjúklega góðar og matreiðslan á þeim segir sig sjálf. Já, ég vef döðlum inn í beikon og skelli inn í oft í ca hálftíma...

Tommi töff mjög ánægður með að hafa ísinn fyrir sig

Ég ákvað að fara öruggu leiðina og hafa franska súkkulaðiköku og ís með kaffinu ftir matinn. Hef bakað þessa köku í mörg ár og hún er alltaf jafn góð. Að vísu nánast bara súkkulaði þannig að maður fær sér ekki margar sneiðar, en á eftir mat með góðu kaffi, sjæs!

Franska súkkulaðikakan hennar Birgittu...

Botn:
 • 200 g smjör
 • 200 g suðusúkkulaði
 • 4 egg
 • 2 dl sykur
 • 1 dl hveiti
Smjörið og súkkulaðið er brætt saman í potti. Eggin og sykurinn þeytt vel saman á meðan. Hveitinu bætt út í eggin og sykurinn og hrært. Súkkulaðinu bætt varlega saman við allt saman. 

Sko. Þetta eru tveir botnar, þ.e. tvær kökur því botnarnir eiga ekki að fara saman. Ég setti kökuna í frekar stórt mót í dag, en setti það ekki allt saman. Bakað á 170 gráðum í hálftíma. 

Krem:
 • 150 g súkkulaði
 • 70 gsmjör
 • 2 msk síróp
Ekki að sé ekki nóg um með botninn sjálfan, þarf varla súkkulaðið - en látum okkur hafa það. Ég hef alltaf tvöfaldað kremið því að það er eiginlega bara nóg á einn botn. Það verður að setja kremið á meðan kakan er enn volg því þannig samlagast það kökunni. Ég kæli hana svo alltaf og tek hana út úr ísskáp svona hálftíma fyrir át. Himneskt að borða með vanilluís (helst heimatilbúnum) en sleppur vel til með rjóma. Gott partý batnar enn frekar með einum White Russian. Ó já!

Línulítið ráð sem getur skipt rosastóru máli

Þegar ég var lítil geymdi mamma tennurnar sem ég missti í tómri barnamatskrukku. Gerber. Ég man eins og það hafi gerst í gær þegar við fórum til konu einnar í þorpinu sem átti lítinn strák. Hún var svo góð að gefa okkur eina krukku undar bananamauki. Ég man ekki eftir litla stráknum en ég hinsvegar mjög vel eftir því hvernig Gerberbarnið á krukkunni leit út. Klassískt.

Í dag langar mig að segja ykkur frá því hverju sniðugt er að skella í Gerber...


...ekki föllnum tönnum, heldur afgangsmálningu. Hver hefur ekki lent í því að klessa skemmtilegum lit á barnaherbergið eða einhvern stakan vegg í húsinu. Málningadósin klárast næstum og manni dettur ekki í hug að taka pláss í geymslunni undir hana, það er hvort sem er aðeins botnfylli í henni! Í það minnsta hef ég alltaf látið slíkt gossa, án umhugsunar. Ég hef líka lent í því að bölva í hljóði þegar ég rek eitthvað utan í vegginn viku síðar og það myndast ljót rispa. Svo hef ég líka lesið um börn sem krota á veggi á veggi eins og þau séu á himinháu tímakaupi við verknaðinn. Ég þekki ekki svoleiðis sjálf. Bríet teiknaði jú reyndar einu sinni stóran gíraffa í forstofuna daginn eftir að ég málaði hana hvíta. Hún var svo ánægð með listaverkið að ég gat ekki kramið hjarta hennar með því að granda því. Það fékk að standa.

En það er semsagt mjög sniðugt að skafa innan úr dollunni og merkja með dagsetningu og herbergi (ef þið búið í 40 herbergja íbúð og málið allt einu sinni á ári) - en þá er hægt að bjarga því sem bjargað verður. Nema já um stærri listaverk sé að ræða. Happy painting!

Friday, March 22, 2013

Smápakkar bæta, hressa og kæta

Ég hef brjálæðisega trú á að litlar gjafir geri heiminn betri. Hef einnig óbilandi áhuga á nagalökkum þessa dagana, hafi einhver ekki áttað sig á því. Ég er þess viss um að fallegt naglalakk geti bjargað geðheilsu mæðrum hlaupabólubarna. Hef fulla trú á því!


Var mjög sjálflæg í vali og keypti það sem ég gaf sjálfri mér fyrir viku. Gull-græna. Pakkaði því að sjálfsögðu inni í það sem hendi var næstvarð næst - Austurgluggann.
Bólu-Flóki var að vísu alveg rosa hress og sérstaklega ánægður með doppurnar sínar, sem ekki eru naglalakk, heldur eitthvað undraefni við hlaupabólu.En, það breytir því ekki að mæður bólubarna eiga allt gott skilið! Tóta hresstist um helming við gjöfina og við óðum í skipulagningu fyrir komandi matarboð Fjarðadætra og betri helminga. Það verður bæði gott og gaman! Góða helgi.


Thursday, March 21, 2013

Viltu slá í gegn í næsta kökuboði?Þá er ég nú ekki að meina með því að bjóða upp á ilmvatnssjúss! Nei, en engu að síður þykir mér þetta agalega skemmtileg hugmynd, hver vill ekki gera ilvötnunum sínum hátt undir höfði? Þetta er þó því miður ekki mynd af mínu heimili þar sem ég á í fyrsta lagi ekki svona fallegan tertudisk eða þá heldur þá glás af ilmvötnum sem þarna er - samanber þessa færslu hér. Þessi hugmynd kemur, eins og flestar mínar þessa dagana, frá kollegum mínum á Pinterest.Þegar ég verð svo búin að þróa mína eigin ilmvatslínu væri ekki úr vegi að skella í einn ilmvatnsdisk, en það er barasta ekkert mál. Allt sem þarf er falleg skál á fæti, skemmtilegur stakur diskur og gott lím. Þarna fær hugmyndaflugið sko útrás og ferlega skemmtileg hugmynd að gefa góðum vinum sérhannaðan tertudisk næst þegar þér verður boðið í kökur og kaffi.

Wednesday, March 20, 2013

ÚtFjólublá fegurð

Ég verð bara að deila þessu með ykkur - því fallegasta sem ég veit á Reyðarfirði og þó víðar væri leitað.

Ég geri mér fulla grein fyri því að ég er illa haldin af stólaást og allskonar ást, ég veit allt um það. En fjólubláu stólarnir í Félagslundi - mæ god! Þeir eru svo fallegir að ég tárast nánast í hvert sinn sem ég sé þá. Þeir eru lúnir, skítugir og gamlir, en það sem þeir eru bjútífúl.Hef aldrei séð nokkuð svona fallegt inn á nokkru klósetti í veröldinni. Ég geri fastlega ráð fyrir að þið skiljið mig - sæluhrollur í fjórðaveldi og jafnvel í pí! 


Áklæðið í nærmynd, awwww...


Og bara afsakið. Hvað eru þessi gersemi að gera þarna í hrúgu? Mér er bara spurn? Af hverju eru þeir ekki heima hjá mér? Væ? Það sem ég myndi dekra þá og elska. E L S K A.

Tuesday, March 19, 2013

Fagridalur mæ es!

Vaknaði í morgun og leit út. Andskotans fjandi! Snjókoma í boðinu og ég á leið í Egilsstaði í vinnu. Gat ekki með nokkru móti hugsað mér að afboða kúnnana mín þriðja skiptið í röð!

Vegagerðin: Hvítt sem merkir krap og snjóþekja. Löggubíllinn ætti nú að ráða við það, elskan mín. Þannig að - ég hélt af stað. Á dalnum var svona:


Eiiiiinmitt. Ekki einu sinni nokkur sjens að snúa við. Fokk, fokk, fokk. Fagridalur mæ es! Ógeðslegaljótiogleiðinlegidalur er eina nafnið yfir þessa leið í dag. Það vita þeir sem þekkja til að fátt eitt er verra en að keyra dalinn í þessu. Sá ekki á milli stika í verstu kviðunum!

Komst við illan leik upp í Egilsstaði en þegar ég var búin með fyrsta viðtal hafði Vegagerðin reitað leiðina ófæra. Ó, greit! Náði þó að troða mér upp á iðnaðarmannagengi sem var á námskeiði í sömu byggingu og fékk að vera í samfloti aftur til baka!

Svona er Ísland í dag. Finnst þetta persónulega orðið mjög gott bara. Engan skildi undra þó svo ég skoði sólarlandaferðir daglega og sé alvarlega að íhuga að skella mér fljótlega.Já, held það bara!

Monday, March 18, 2013

Fabjúlöss hugmyndir á mánudagskvöldi

Er algerlega dottin í´ða. Ekki þó rauðvínið að þessu sinni, aldrei sliku vant. Heldur Pinterest myndasíðuna sem allir voru að tala um án þess að ég skildi orð af því sem fólk var að segja. Gerði svo stanslaust grín að Gísla fyrir að festast í Candy Crush! Er ekki orðin nokkru betri sjálf, nema að mér finnst að SJÁLFSÖGÐU gáfulegra að skoða falleg heimili og góðar hugmyndir en að keppast við að torða í mig gúmmíböngsum, nema hvað?

Þess utan dett ég alltaf í tryllingslegan "breyta og bæta- gír" þegar ég átta mig á minnsta votti af vori, sem var reyndar fyrir tveimur vikum, alls ekki núna. En, það breytir því ekki að ég er gersamlega föst og "pinna og pinna" út í það endalausa skemmtilegar hugmyndir á borðin mín. Ætla að deila með ykkur hluta af dýrðinni, frábærum hugmyndum að því hvernig nýta má texta til skrauts. Vá, ég fæ nánast ofsakláðabólur af spenningi við tilhugsunina eina að prófa þetta allt saman, jeminn!Ó mamma mía! Ég elska landakort og eeeelska texta þannig að á þessari mynd hitti skrattinn ömmu sína, allavega mína. Þegar ég verð komin í mitt eigið húsnæði - sem verður vonandi fyrir áttrætt - ætla ég að skella í eitt svona, það veit ég jafn vel og að á morgun rennur upp þriðjudagur! Væri líka alveg til í að eiga sófann sem er undir verkinu, en það er önnur saga. 


Falleg, hvetjandi og skemmtileg skilaboð fyrir ofan dyrakarminn. Svo mikið sætt og ekkert eins gott og að horfa á uppbyggilegar setningar daglega. 
Æðisleg hugmynd! Mig hefur oft langað til þess að gera eitthvað listaverk úr textunum mínum. Hugsa að ég láti verða af því áður en langt um líður. Só bjútífúl!Önnur skemmtileg skilaboð fyrir ofan dyrnar. Væri afar nauðsynlegt á mínu heimili þar sem yngri sonur minn telur sig búa í helli og lokar "útihurðinni" fram á stigagang aldrei nokkurntíman. Líka skemmtilegt hugmynd að búa til stafi úr einhverju (til dæmis tré eða áli) þannig að þeir standi út eins og skúlptúr - allavega hugmynd fyrir lengra komna stafanörda. Krítarveggur. Getur komið mjög skemmtilega út. Veit reyndar ekki alveg hvort þetta er krítarveggur, eða bara stafir málaðir á svartan vegg. Var með krítarvegg þegar ég bjó í Reykjavík og Bríet var lítil. Hann vakti lukku, já það sem hann vakti mikla lukku......þessi hér er hinsvegar 100% krítarveggur. Bæði er hægt að kaupa sérstaka málningu til verksins en vinkona mín er nýbúin að gera svona heima hjá sér og keypti bara extra matta svarta málningu í BYKO. Þetta er minnsta mál og smáfólkið veit fátt skemmtilegra en að fá að krota á vegginn, ég lofa ykkur því! Finnst þessi sérstaklega fallegur af því að listaverk barnanna eru einnig nýtt á efri hlutann. Finnst fólk mætti vera ennþá duglegra að flagga barnalistinni, en hún er fallegust allra að mínu mati. Svo þarf ekki endilega að klístra öllum texta á vegg. Hér er texti beint á skápinn - mjög fallegt.


Sjálf er ég með uppskrift af lummum á eldhússkápnum og sem bæði bragðast vel og kemur skemmtilega út. 

Auk þess er ég með fáránlega skemmtilegt textalistaverk í vinnslu í höfðinu á mér, en meira af því þegar það verður að raunveruleika á stofuveggnum mínum. 

Allar þessar skemmtilegu hugmyndir eru að finna á Pinterest, endilega fylgist með síðunni minni þar. Möguleikarnir eru óþrjótandi, elsku leikið ykkur! 

Sunday, March 17, 2013

Allt er betra með BBQ

Vaxandi BBQ-æði gengur nú yfir heimilið. Sósunni góðu er troðið í ólíklegustu rétti sem varla er sniðugt þar sem 700 tonn af sykri eru í einni flösku!

Í dag var undir-sæng-veður og hvorugt okkar nennti að hugsa út í matargerð og hvað þá síður fara í búð. Lufsaðist þó í Krónuna tvær mínútur í lokun og keypti í BBQ-kjúklingapönnukökur


Hægt er að troða hverju sem er í kökurnar, bara eftir stemmningu hverju sinni. Í dag langaði mig í kjúkling, rauðlauk, jalapenjó, ost og að sjálfsögðu BBQ-sósu. Klettasalat og sýrður rjómi á kantinum.


Steiki kjúklinginn upp úr salti, pipar, smá karrý og einhverju hundleiðnlegu kjúklingakryddi sem var í skápnum. Er búin með kjúklingakryddið mitt frá NOMO og hef ekki séð það síðan og það finnst mér ekki skemmtilegt. Blanda dagsins var þó fín þrátt fyrir allt saman.Skelli svo öllu saman á kökurnar og inn í ofn í svona 10 mínútur...


...verskú!

Friday, March 15, 2013

Forvarnargjöf á föstudegiFöstudagsgjöf frá mér til mín. Takk ég- takk, takk!

Kolféll fyrir þessu í Lyfju í dag þegar ég var að fara að kaupa eitthvað allt annað. Langaði að vísu í svona þrjú lökk, en það er önnur saga. Það er svo bjútifúl og getur ekki ákveðið sig hvort það er gull eða grænt, það fer bara eftir því hvernig litið er á það, bókstaflega...

Annars get ég vel réttlætt endalaus naglalakkskaup mín því ég hef allt mitt líf nagað neglurnar, já og puttana á mér. Ógeð. Alveg þar til í sumar að ég hætti. Finnst minni líkur að ég byrji aftur ef ég held mér fínni, þannig að líta má á þessa föstudagsfjárfestingu sem forvörn. Góða helgi!

Jón Sigurðsson er allur


Jón Sigurðsson frá Leirum er látinn Þar sem ég var að þrífa í morgunsárið rak ég mig í hann þar sem hann stóð upp á skáp með þeim afleiðingum að hann féll í gólfið, marghöfuðkúpubrotnaði og lést samstundis!Jón hefur fylgt okkur síðan Almar Blær skapaði hann þegar hann var líklega tíu ára, eða í sjö ár. Hefur hann fylgt okkur gengum súrt og sætt, flutt með okkur oftar en talist getur og alltaf verið í heiðursessi upp á vegg, þar til núna þar til hann húkti á skáp og því fór sem fór.

Jón hefur þó hrellt ýmsa, sérstaklega yngri kynslóðina með grófu útliti sínu. Þegar Þór var yngri munaði engu að hann sækti um nálgunarbann á kappann, í það minnsta þurfti hann alltaf fylgd fullorðinna fram hjá honum vegna hræðslu! Ljódi gallinn!

Það er ótrúlegt hvað hlutir sem blessuð börnin skapa skipta móðurhjartað miklu. Ég fór næstum því að grenja í morgun þegar ég fylgdist með þessum ósköpum í slómósjón. Blessuð sé minning hans.

Wednesday, March 13, 2013

Af leistum, óróum og mannvitsbrekkum

Hef alltaf haft alveg óstjórnlegan áhuga á orðum og texta. Vil klístra texta allsstaðar þar sem ég mögulega get - á veggi, skápa, myndir, púða og ég veit ekki hvað og hvað - við mismikla hrifningu nærstaddra. Mér finnst eitthvað svo ótrúega fallegt við vel skrifaðan texta, fæ bara hýtt í hjartað. Ég á meira að segja uppáhaldsorð og allt!

Leistar: Verð fimm ára og endasendist í huganum beint til ömmu Jóhönnu þegar ég heyri þetta orð, sem gerist reyndar nánast aldrei í dag. Hún kallaði ullarsokka, já og kannski held ég flesta sokka leista. Það var þá, þegar ég gekk enn í sokkum, líklega vegna þess að öndunarfærin í mér voru enn á sínum stað, en ekki komin niður fyrir ökkla eins og í dag. Fíaskó: Hef aldrei sé almennilega þýðingu á þessu orði en það er notað yfir einhverskonar klúður eða klessu af einhverju tagi. Þrátt fyrir merkinguna finnst mér svo mikil gleði í því - hljómar svo ótrúlega skemmtilega og það sem meira er, finnst það svo fallegt á prenti. Eitthvað svo litríkt og ljómandi!
Órói: Hefur alltaf verið eitt af uppáhaldsorðunum mínum. Er svo gegnsætt og lýsir fyrirbærinu svo vel. Ó, það eru svo margar skemmtilegar hugmyndir hér.
Blússa: Annað gamalt frá ömmu - en ég var mikið þar sem barn, þess vegna er ég kannski 150 ára í anda. Finnst orðið blússa frábært. Ég geri greinarmun á skyrtu og blússu. Skyrta er bara skyrta en blússa er fínni, úr siffoni eða silki - helst víð og lús. Æji, þið skiljið. Keypti þessa hér í uppáhaldinu mínu, Gyllta kettinum um árið.
Mannvitsbrekka: Elska það, það er ekkert flóknara. Er það notað yfir þann sem býr yfir mikilli þekkingu, en þó oft nýtt á kaldhæðin hátt. Finnst það eitthvað svo risastórt og tignarlegt. Sá það fyrst þegar ég las Laxness auk þess sem Sigurður Guðmundsson og Memfismafían koma því fyrir í texta sínum Nú mega jólin koma fyrir mér.

Lúði: Finnst það skemmtilegt og undarlega notarlegt.


Æji, ég veit - ég ER lúði!