Sunday, December 22, 2013

Rafræn jólakveðja


Nú liggur það alveg morgunljóst fyrir að ég hef klúðrað jólakortunum - annað árið í röð. Húrra og skál fyrir mér. Erum við þá líklgast endanlega dottin út af jólakortalista landans, sem er miður. Ég geri hér heiðarlega tilraun til þess að klóra í bakkann með rafrænni jólakveðju. Veit að það jafnast ekki á við að hafa mín fallegu afkvæmi á mynd í skál á stofuborðinu, en kannski þó betra en alls ekki neitt.

Árið hjá okkur hefur verið viðburðarríkt að vanda...

Þór er nú hálfnaður með þriðja bekkinn, hversu ótrúlega sem það hljómar. Sem fyrr á fótbolti hug hans allan og einkenndist sumarið af fótboltatengdum atburðum hjá fjölskyldunni. Við munum líklega selja hann úr landi áður en langt um líður þar sem hann er að skora upp í 22 mörk á móti!

Bríet nemur í 6. bekk og gengur vel. Kennarinn segir hana á mjög góðu róli, en sé kannski óþarflega þyrst í stærðfræðitímum. Og þurfi líka mikið að pissa af því hún drekki svo mikið. Mikið sem ég skil barnið, ég myndi líka halda mig sem mest utan stærðfræðistofunnar ef ég væri hún.

Almar Blær er á öðru ári í Menntaskólanum á Egilsstöðum, en hann er nú orðinn höfðinu hærri en móðir sín og nánast jafngamall að mér finnst. Hefur hann meira að gera en allir forsætisráðherrar heimsins samanlagt, en þegar menn eru í nemendafélaginu, ungmennaráði Fljótsdalshéraðs, í Morfísliði skólans, formaður leikfélags ME og í fjölmörgum nefndum og ráðum innan skólans þá er ekki mikill tími aflögu.

Eftir tíu mánaða atvinnuleysi bauðst mér hið frábæra tækifæri að taka við ritstjórn Austurgluggans. Þrátt fyrir töluverða reynslu af blaðamennsku hafði ég ekki hugmynd út í hvað ég var að fara. Ekki græna. Fyrstu vikurnar einkenndust af þrotlausri vinnu og almennu skilningsleysi sem þó blessunarlega jafnaði sig fljótlega.

Gísli skipti líka um starfsvettvang á haustmánuðum þegar hann hætti í sundlauginni á Eskifirði og hóf störf hjá Brammer.

Ekki nóg með það, heldur áttuðum við sambýlingarnir á því á haustmánuðum að ég var ekki kona einsömul. Litli laumufarþeginn áætlar að líta dagsins ljós á lengsta degi nýs árs, eða þann 21. júní næstkomandi. Að vonum eru allir í skýjunum með fréttirnar en Bríet frábiður sér með öllu fleiri bræðrum, enda á nóg af þeim fyrir. Þór er alltaf í sama líði og systir sín og hafa því atkvæði verið greidd einhljóða.

Við stórfjölskyldan óskum ykkur öllum gleðilegra jóla og gæfuríks komandi árs.

Sunday, December 1, 2013

11 ár

Bríetarbarnið er 11 ára núna eftir miðnætti. Já, það er dagsatt. Skelltum einnig í sentimetramælingu á "smáfólkinu" í gærkvöldi. Niðurstaðan er þessi:

  • Bríet: 152
  • Þór: 122
Almar Blær er svo um 185. Ekki orð um það meir. Bríet á sumsé litla 12 sentimetra í að ná mér - verður líklega búin að ná því að ári. 

Héldum veislu i dag, fyrrihálfleik þegar ættingjar og aðrir velunnar komu í aðventukaffi. Seinnihálfleikur er á morgun, sjálfan afmælisdaginn þegar sjötti bekkur mætir í B10, alveg eins og hann leggur sig og tveir extra. 

Pakkaleikur, spurningakeppni, pizza, afmælispakkar sem innihalda ilmvötn. Ísland í dag, 11 ára. 


Jólasveinarnir hans "brósa" eru komnir á sinn stað11 ára afmælisbarnið ánægt með kökuna sína


Mandarínur eru svo fótógenískar


Við erum ferlega skotin í skútunni sem amma hans Gísla arfleiddi okkur af um daginn


Sjálfsmynd: mæðgur


Hádegisfjallið fallegt í bakgrunni aðventu"krans"