Wednesday, February 25, 2015

Húseigendur

Daddaradaddada.


Við Gísli erum húseigendur! 

Túngata 5 á Reyðarfirði er okkar. Dásamlegt steinhús, byggt 1968. 

 Ferlið gekk mjög hratt fyrir sig en við skrifuðum undir síðastliðinn föstudag og flytjum á allra næstu dögum. 

Sjálf er ég mikil áhugamanneskja um steinhús "á þessum aldri". Ætlum bara að mála okkur inn í bili, en það býður upp á frábæra framtíðarmöguleika.

Í augnablikinu er ég spenntust fyrir útisnúrunum og arninum í stofunni. Svo mikil lífsgæði að skoppa út í garð og hengja út. Einnig að liggja fyrir framan arininn og lesa góða bók.

Þór spurði mig um daginn hvað ég væri búin að búa á mörgum stöðum. Eftir nokkuð nákvæma talningu komst ég að því að nýja húsið verður mitt fimmtánda heimili - enda er ég orðin mjög sjóuð í flutningum.

Við erum himinsæl og spenntari en börn að bíða eftir aðfangadegi.


Emil er hinsvegar silkislakur yfir þessu öllu saman. Bara meðan hann fær að borða, rífa og tæta, þá er hann góður.


Stefnum að því að byrja að sparsla og mála um helgina.

Fylgist með, spennt! 

Tuesday, February 10, 2015

Fjórar flottar hugmyndir með ljósmyndir

 Annað slagið tek ég rassíu á Pinterest-síðunni minni. Annað slagið bara, en þá er allt eins líklegt að ég sé utan þjónustusvæðis það kvöldið. Eins og í kvöld. Vildi bara svo blessunarlega vel til að ég var alein heima, fyrir utan hrjótandi ungviðið. 

Ó, Pinterest er svo skemmtilegur heimur. Akkúrat fyrir mig. Leita aðallega að innanhúss-allskonar. Laðast einstaklega að öllu sem tengist uppsetningu ljósmynda. Veit ekki hvað ég er búin að "pinna" margar hugmyndir að ljósmyndaveggjum. 

Hér eru fimm skemmtilegar hugmyndir sem tengjast ljósmyndum 


Skemmtileg hugmynd að mynda upphafsstaf barnsins með ljósmyndum af því sjálfu. Finnst þessi hugmynd alveg einstaklega falleg. Kannski lumar þú á gömlum glugga inni í bílskúr sem getur öðlast hlutverk á ný?


Stórafmæli í nánd? Mamma mín fagnar sínum sjötugasta afmælisdegi nú í febrúar. Mikið væri gaman að útfæra þessa hugmynd fyrir ofan veisluborðið. 


Finnst þetta alltaf frábær hugmynd. Að setja mynd af stórum degi í okkar lífi ofan á texta úr blöðunum þann dag. Þarf ekki endilega að tengjast brúðkaupi - alveg eins stórafmæli eða barnsfæðingu. 

Hvet ykkur til þess að gera meira úr myndunum ykkar en að geyma þær í tölvunni þar sem engir fá að njóta þeirra. 

Wednesday, February 4, 2015

Taskan mín

Var að drífa mig í vinkvennakaffi í dag. Strunsaði um og henti niður í tösku. Ekki þá til að flytjast búferlum eins og auðveldlega hefði mátt halda - heldur aðeins fyrir klukkutíma í þarnæsta húsi. 

Gat ekki annað en brosað þegar ég áttaði mig á samsafninu. Hef einmitt oft lesið færslur um fagurt og spennandi innihald handtaska kvenfólks. Seint verður sagt að mitt innihald sé spennandi. Fannst pökkunin það kómísk að hún ætti færslu skilda. Svolítið eins og hjá Trendsetternum. 


Svartholið

Aldrei slíku vant tróð ég snyrtiveskinu mínu ofan í tösku því ég ætlaði að fá Viggu vinkonu mína til þess að plokka villtar augabrúnir mínar. Ekkert varð af því þar sem við töluðum yfir okkur. 

Eins og ég sagði í færslunni um áform ársins var eitt þeirra að enduruppfæra snyrtiveskið. Glögglega má sjá að það inniheldur allra helst vörur sem eru við það að klárast sem og Hello Kitty gloss sem ég stal frá dóttur minni. 


Staðalbúnaður í ferðum milli húsa með Emil; Samfellur og aldrei minna en fimm slefsmekkir. Ég hef aldrei vitað annað eins munnvatnsflæði hjá nokkru barni. 

Einnig nokkrar bleiur og tilbehör. Til dæmis rassakremið sem ég bar á ennið á barninu forðum daga og greindi frá í þessari færslu hérMenn geta þurft að næra sig á ólíklegustu tímum þegar menn eru átta mánaða. Hér má sérútbúið "sebramauk" ala ég sjálf sem barnið vildi alls ekki sjá. Ó mig auma. 


Elsku bestu gleraugun mín, sem ég fjallaði um hér. Almáttugur hvað ég er skotin í þeim. Finnst ég bara ekki sjá rass í bala án þeirra þessa dagana. 


Upp úr "svartholinu" kom bæklingur frá Skotgöngu. Inga og Snorri, vinir okkar í Glasgow eiga og reka ferðaþjónustu í Skotlandi sem sérhæfir sig í gönguferðum fyrir hresst fólk á öllum aldri. 

Þau eru að gera mjög góða hluti og eru sjálf algerlega frábær, þannig ég hvet alla sem langar að ganga í fallegu umhverfi að athuga þennan kost. Sjálf getum við Gísli ekki beðið eftir að komast í ferð. 


Auðvitað. Síminn er fínn en kortið inniheldur sirka 250 krónur. 


Semsagt. Hefðbundin miðvikudagsfarangur í B10.

Tuesday, February 3, 2015

Morðtilraun móður minnar


Nú verður sögð dagsönn saga af móður minni. Ekki einu sinni ýkt. 

Mamma hefur verið starfandi í kirkjukórnum á Stöðvarfirði síðan ég man eftir mér. Mínar bestu stundir voru þegar ég fór með foreldrum mínum á æfingu sem stundum voru haldnar á bókasafninu. Lá á gólfinu umkringd bókum. Hlustaði á sálmasöng, þefaði af bókunum og skoðaði. Sálmar og bækur. Besta blandan. Skýrir líklega af hverju ég er 200 ára gömul inn í mér. 

Mamma hefur verið með marga kórstjóra gegnum tíðina. Líkað afar vel við þá alla - eins og flesta í sínu lífi. Meira að segja þann ungverska sem rak mig úr píanókennslunni af því ég vildi bara spila eftir eyranu, en ekki læra nótur. 

Núverandi kórstjóri er einnig í miklum metum hjá henni. Sú hefð hefur skapast að kórmeðlimir skiptast á að leggja til bakkelsi á æfingar. Móðir mín átti leik fyrir áramót. Skundaði sæl með sig og nýbakaða djöflatertu á æfingu, enda orðin hundleið á síendurteknum hrákökum. 

Í hléinu gæddi kórinn sig á góðgætinu. Að því loknu röltir kórstjórinn til móður og segir salírólegur; "Þú vilt kannski fá merkið þitt til baka?" 

Jóna hafði sumsé hrært köku djöfulsins í Kitchen Aid vélinni sinni. Ekki tekið eftir því að aðalsmerki hennar, stálhringur sem er fjórir sentimetrar í þvermál, losnaði og hafnaði í hrærunni. Bakaði það með öllu saman og smurði kremi. Merkið hafnaði í munni kórstjórans sem var heppinn að kæfa sig ekki eða þá allavega brjóta í sér tönn. 

Jóna - 12 stig. 

Sunday, February 1, 2015

Áframhaldandi matarklám; Heimatilbúin BBQ sósa og einstaklega sætar franskar kartöflur


Þetta er líklega lengsti bloggtitill sem ég hef nokkru sinni skrifað. 

Velti því einnig fyrir mér hvort síðan mín sé að transformast í enn eitt íslenska matarbloggið. Nei, nei, alls ekki. Ég er hins vegar mikið að spá í uppskriftum af hollari mat þessa dagana og finnst tilvalið að deila með ykkur þegar ég dett niður á eitthvað skemmtilegt. 


Okkur hjónaleysunum langaði í eitthvað gott í kvöldmatinn. Kalt úti og kósýdagur. Við erum mikið fyrir BBQ sósu. Hún er hins vegar full af sykri og í rauninni hef ég ekki hugmynd um hvað hún inniheldur. Ég ákvað því að leita að uppskrift sem við gætum gert sjálf og væri aðeins hollari en sú keypta. 

Ég fann strax uppskrift af sósu, þessi var á Pjattinu. Ég átti allt í hana og var enga stund að hræra hana saman og hún er ferlega góð. Meira að segja Gísli var mjög hrifinn af henni og hann er sá mesti BBQ aðdáandi sem ég þekki. Hollari útgáfa af BBQ sósu

1/2 dl lífræn tómatsósa (Ég á alltaf sósuna frá Himneskri hollustu en krökkunum finnst hún meira að segja betri en sú hefðbundna)
1/4 náttúrulegt hunang
1 msk Tamari sósa (Kemur í stað soja sósu, en Tamari sósa inniheldur engin aukaefni, bragðefni, litarefni né sykur og aldrei hveiti)
1 tsk sinnep (ég notaði gróft sinnep frá Himneskri hollustu, mjög gott)
1 tsk chilli duft
1/4 tsk sjávarsalt
1/4 tsk nýmalaður pipar

Þessu er bara öllu gluðað saman og volla! Frábær og aðeins hollari BBQ sósa í skál. 


Kryddaði kjúklinginn aðeins með Eðalkryddi frá Pottagöldrum, en ég reyni að kaupa kryddin frá þeim en þau eru bæði mjög góð og innihalda engin aukaefni á borð við MSG eða Silikon dioxið. 

Hellti sósunni svo yfir og leyfði kjúklingnum að liggja í henni frá miðjum degi. Svo bara inn í ofn við 200 gráður í 40 mínútur. 

Já takk. Kjúklingurinn var æði. Mjúkur, safaríkur og sósan reif aðeins í. Fullkomið. 


Við höfum oft gert okkur franskar í ofni, bæði úr venjulegum kartöflum og sætum. Hafa verið "í kei" en svosem ekkert meira en það. Alltaf of linar og einhvernvegin ekki nógu spennandi. 

Um daginn gerðum við útfærsluna af sætum frönskum úr 30 daga bókinni. 

Sætar franskar 

Sætar kartöflur
Ólifuolía
Eðalkrydd frá Pottagöldrum
Sjávarsalt

Flysjið kartöflurnar og skerið þær í stafi. Gott er að setja þær í plastpoka, hella ólifuolíu yfir og krydda með Eðalkryddi og sjávarsalti. Hristið pokann þannig að allt blandist vel saman. Setjið smjörpappír í ofnskúffu og dreifið úr kartöflunum. 

Bakið í ofni í 45 mínútur við 200 gráður. 

 Stökkar og "karmellaðar". 

Dússupva!