Tuesday, December 30, 2014

Fögur fyrirheit

Enn eitt árið liðið. Finnst með algerum ólíkindum hvað tíminn er fljótur að líða. Alltaf aðeins fljótari í ár en í fyrra, svona eins og tapist alltaf mánuður aftan af. 


Hápunkturinn var að sjálfsögðu þegar Emil okkar leit dagsins ljós 5. júní síðastliðinn. Árið hefur verið afskaplega hamingjuríkt en erfitt í senn þar sem litli krútt-kúturinn hefur látið hafa ansi mikið fyrir sér. Færslan Vanhæf móðir var lesin í tugþúsunda tali og ansi margir könnuðust við aðstæður sem okkar. Enn höfum við ekki náð svefninum á rétt ról þrátt fyrir allar heimsins ráðleggingar og tilfæringar, en það gerist vonandi snemma á næsta ári. 

En. Verð ég ekki að greina frá fögru fyrirheitunum? Er það ekki bara?


Þar sem við elsti sonur sátum og tróðum í okkur skötu á Þorláksmessu bárust umræður að heilsu. Þyngd. Ofþyngd. Vanþyngd. Er það orð kannski ekki til? 

Allavega. Til þess að gera langa sögu afar stutta komust við að því, að eins og staðan er í dag, er hann eins þungur og ég á að vera og ég eins þung og hann á að vera. Þarna á milli er sirka 13 kílóa skekkja. Hann of léttur, ég of þung. 

Þetta ætlum við okkur að rétta af á nýju ári. Átakið Mæðgin svissa á þyng hefst formlega 3. janúar næstkomandi. Þann 1. júní  munum við taka stöðuna og sjá hvort okkar hefur þokast lengra í rétta átt. 

Skemmst er frá því að segja að hann hefur enga trú á mér. Enga einustu. 

Ég ætla hins vegar að mala hann. Verð samt að fá einhverjar hugmyndir að verðlaunum. Mega vera sniðin fyrir mig þar sem hann á ekki sjens. Sorrý.

Gleðilegt ár öll sömul og takk svo mikið fyrir gamla. 


Tuesday, December 23, 2014

Jólaalmanak heimilisins - 23. & 24. desember

23. desember

Nú fer öll fjölskyldan í bæinn og nýtur jólastemmingarinnar og hittir gamla kunningja. 

24. desember

Nú gætum við að því að nóg sé til af brauði og mjólk yfir hátíðirnar, leggjum á borðið og bíðum eftir að klukkan verði sex. 

--------

Jæja krakkar, þá er bara að koma að þessu ölllu saman.


Þessi er ansi mikið elskaður!

Við vorum á pari við planið í dag, fórum í "bæinn", versluðum síðustu nýlenduvörurnar, hittum allskonar fólk og kíktum á kaffihús. Við Almar Blær létum okkur svo ekki vanta í Þorláksmessuskötuna, en það er besta máltíð ársins að mínu mati. 


Þessar elskur voru svo að detta í hús - jól í plastboxi. Skotnar og hamflettar af bræðrum mínum. Get ekki beðið eftir að skella þeim á pönnuna á morgun og finna lyktina, en engin lykt er jólalegri en af rjúpunum snarkandi á pönnunni á aðfangadag.


P.s. Er enn að klóra mér í hausnum yfir gjöfum sem móðir mín og Jóhanna Seljan vinkona mín færðu mér sama daginn fyrir nokkru. Annars vegar blómið Jólastjarna og hins vegar laukur sem á að blómstra og verða Hýasinta.

Höfum það á hreinu að þetta eru þær tvær manneskjur í lífi mínu sem þekkja mig hvað best. Af hverju dettur þeim þá í hug að gefa mér blóm. Báðum? Ég drep öll blóm.

Það var ekkert öðruvísi í þetta skiptið. Stjarnan orðin allsber og laukurinn hefur ekki sýnt blómið. Bára komin í bleyti og mæjónesan orðin gul. 

Kæru vinir, gleðileg jól. Njótið. 

Sunday, December 21, 2014

Jólaalmanak heimilisins - 21. desember

21. desember 

Nú er vel við hæfi að fara í snyrtingu og klippingu fyrir þá heimilismeðlimi sem þess þurfa. 

--------


Við erum löngu búin að þessu sko. Þessar klippingar hér að ofan eru á áætlun á nýju ári. Jibbíkóla. 

Annars þykir mér 21. desember alltaf svo sérstakur dagur - stysti dagur ársins, sumarsólstöður. Frá og með morgundeginum fer dagurinn að lengjast og sólin að hækka á lofti. 

Hér má sjá örlítið brot gjafa, en við búumst við stórflóði þetta árið þar sem öll börnin okkar verða í húsi á aðfangadag. 

Í kvöld skreyttum við svo það minnsta jólatré sem við höfum nokkru sinni haft á okkar heimili. Við erum alltaf með lifandi tré, mér finnst annað ekki spennandi. 

Í ár, í dúkku-íbúðinni okkar og með Emilsbarnið á fullu gasi í göngugrindinni, sáum við hins vegar ekki ljósið í því að hafa alvöru tré. Fengum því lánað oggulítið gerfitré sem við skelltum upp á borð. Sá stutti verður hrifinn þegar hann vaknar í fyrramálið, maður lifandi!


Saturday, December 20, 2014

Jólaalmanak heimilisins - 20. desember

20. desember

Nú er jólagjafainnkaupum að mestu lokið og nú pökkum við inn gjöfum og skreytum pakkana. 

--------Þessi dressaði sig upp fyrir bæjarferð. 


Já, já. Þetta er nú að mestu komið. Fórum einmitt í Egilsstaði í dag og klárðum það síðasta. Fengum einnig í láni pínuponsulítið jólatré sem er algerlega í takt við íbúðina okkar. Meira um það á morgun. 


Já ég veit, mamma segir líka að skriftin mín sé gersamlega ólæsileg. 


Annars langar mig að hrósa í þessari færslu. Versluninni VILA í Kringunni og Smáralind. Eða starfsfólki verslananna öllu heldur. 

Það er stundum bras að búa út á landi þegar kemur að fatainnkaupum. Oft er allskonar fallegt til í heimabyggð en stundum langar manni bara í eitthvað allt annað. Sel ég þá úr mér nýra til þess að eiga fyrir flugi í höfuðborgina og komast í búðir? Nei, ég versla á netinu. 

Það er líka stundum bras, sérstaklega þegar fólk er eins og ég. Oftar en ekki skipti ég um skoðun þegar ég hef þegar ég hef fjárfest í einhverju. Þarf að skila og/eða skipta. Er drottning alls slíks vesens.

Eníveis. VILA. Stelpurnar þar eru alltaf eins og jarðneskir englar. Hafa botnlausa þolinmæði fyrir allskonar fígúrugangi landsbyggðarinnar. Senda mér stundum litla miða með pökkunum og í haust laumuðu þær með regnhlíf í kaupbæti. 

Ég toppaði sjálfa mig í síðustu viku. Datt ekki í hug að bón mín myndi verða samþykkt. 

Pantaði mér semsagt gallabuxur frá þeim síðsumars, svona þegar ég var rétt gengin saman eftir barnsburð. Eða varla. Ráðfærði mig gegnum síma við eina af stelpunum og saman ákváðum við að ég myndi mjókka svo rosalega hratt og mikið að ég gæti hæglega tekið Barbie-stærð af buxum. Ekki svo mikil vandræði, myndi barnið ekki drekka þetta af mér á nóinu? Það héldum við nú. 

Ekki veit ég af hverju mér datt það í hug. Það er ekki eins og Emil sé mitt fyrsta barn og hafa hin þrjú drukkið mig mjóa? Nei, það hafa þau ekki. Ef eitthvað er þá hef ég alltaf bætt á mig í fæðingarorlofinu, allt gersamlega í mínu eigin boði. 

En þarna í sumar var ég búin að steingleyma þessu öllu. Pantaði buxurnar og ekki einar, heldur tvo liti. Til þess að eiga nú til skiptanna sjáiði til. 

Ha, hvað segiði? Pössuðu þær? Nje, ekki alveg. 

Barnið búið að drekka af mér kílóin núna, sex mánuðum seinna? Nje, ekki alveg. 

Hvað átti ég að gera? Láta þær hanga inn í skáp og bíða eftir að ég mjókkaði í þær? Nei. Ég gat ekki lengur horft á þessar buxur rykfalla. Jú, ég reyndi að troða mér í þær. Kom þeim upp, en lengra náði það ekki. 

Ríng, ríng; "Halló. Ég er með smá vesen, bara pínulítið..."

Ekki svo mikil vandræði í VILA frekar en fyrri daginn. Viðurkenndi slaka framtíðarsýn og miðilshæfileika mína og afgreiðslustúlku. Ekki hafði þó vantað bjartsýnina!

 Þar sem um "beisik-vöru" er að ræða, buxur sem koma aftur og aftur, þá mátti ég bara senda þær og fá aðra stærð um hæl. Sem ég get þá mögulega hneppt utan um bumbuna á mér. 

Þær eru komnar í hús, ferlið tók ekki nema þrjá daga, fram og tilbaka. Þetta kalla ég góða þjónustu, enda segi ég frá því hvar sem ég kem, öllum sem vilja og ekki vilja. 

Áfram VILA!


Friday, December 19, 2014

Jólaalmanak heimilisins - 19. desember

19. desember

Nú skrifum við á lista allt sem þarf að kaupa inn til jóla af matvöru og kaupum jólaölið. 

--------

Listinn er klár og bíður Bónusferðar á morgun. Grænar baunir, malt&appelsín, rauðkál og jólaservíettur. Menningarferð í Egisstaði, það er nú eitthvað. 


Handklæðaofninn okkar er ekki í svo Guðlegum ljóma. Myndefnið er bara svo lítið spennadi að ég gat ekki annað en filterað það pínulítið. 


Nýja þurrk- og "hitunaraðstaðan"

Annars finn ég mig knúna til þess að segja frá "atvinnutilboði" sem mér barst í dag. Ég er með "app" í símanum mínum sem heitir Alfreð. Þar skráði ég helstu upplýsingar um mig, við hvað mig langaði að starfa og upp á hvað ég hef að bjóða sem starfskraftur. Ekki að ég sé að leita mér að vinnu - þetta er áhugamál hjá mér, svona rétt eins og að skoða fasteignaauglýsingar daglega þó svo ég sé ekki að leita okkur að íbúð. 

Allavega. Ég hef kannski eitthvað ofmetið mig þegar ég skráði upplýsingarnar hjá Alfreð. Eða þannig. Hef oftar en einu sinni og oftar en tvisvar sagt frá slakri stærðfræðikunnáttu minni opinberlega. Var mitt versta fag alla mína skólagöngu og mig dreymir enn reglulega að ég eigi eftir að klára einn stærðfræðiáfanga til stúdentsprófs. Viðbjóður. Alltaf jafn slæm martröð. 

Í dag bárust hins vegar eftirfarndi skilaboð frá Alfreð stórvini mínum; 

"Hæ. Alfreð hér. Ég er með starf sem gæti hentað þér. Verkefnastjóri við tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík."

Já, ok. Það er nebblega það. 

Ég er með kenningu. 

Ég tel að nýtilkomin tækni- og verkfræðikunnátta mín hér innanhúss hafi spurst út og þá í herbúðir Alfreðs. 

Við fjölskyldan höfum nú búið í nýlegri íbúð í Bakkagerði 10 í eitt og hálft ár. Það var svo um daginn að mér datt í hug að kveikja á handklæðaofninum á baðherberginu. Ekki spyrja mig að því af hverju ég gerði það ekki fyrir einu og hálfu ári fyrst, því get ég ekki svarað. Nú eða þá einhver annar. 

Stuttu síðar gekk dóttir mín inn á bað og segir; "Nau, nau. Það er kominn gólfhiti á baðinu"

BINGÓ. 

Verði ljós.
Tendrun handklæðaofns = gólfhiti. 

Ég sumsé lagði gólfhita á baðherbergisgólfið alein og sjálf. Með einu handtaki. Eins og að drekka vatn. 

Kvöld eitt átti ég leið inn á bað. Þar lágu vinnufötin hans Gísla eins og hráviður um allt. Ég spurði hverju þessi umgengni sætti. Jú, hann var að hita fötin, svo voða, voða notarlegt að fara í þau volg á morgnana. 

Ja, hér og hér. 

Í gær lá leið mín enn og aftur inn á bað. Að þessu sinni lá á gólfinu risastórt handklæði. Eins og hundur. Ég spurði dóttur mína af hverju hún hafi hent íþróttahandklæðinu sínu á gólfið. 

"Það var blautt, ég er að þurrka það,"  sagð'ún. 


Nó vorrís, ég er búin að fjarlægja límmiðann af gleraugunum mínum. 

Tækni- og verkfræðikunnátta mín hefur því aldeilis skilað betra lífi hér í B10. 

Já veistu Alfreð, ég held ég treysti mér bara alveg til þess að taka þetta að mér. 

Hvenær á ég að byrja?


Thursday, December 18, 2014

Jólaalmanak heimilisins - 18. desember

18. desember

Þeir sem gera jólasælgæti eða piparkökuhús gera það í dag. Það er skemmtileg tilbreyting og allir hjálpast að. 

--------

Ég er ekki mikill súkkulaðisökker og því síður ef það inniheldur marsípan eða möndlur. Hefðbundin konfektgerð gerir því sama og ekkert fyrir mig. 

Mynd; Gulur, rauður, grænn og salt.

En þetta nammi, það bræðir hjarta mitt. Ég held að ég hafi ekki náð almennilegum þroska á nammisviðinu, finnst Mackintosh mikilu betra en Nóakonfekt. 

En þessir heimatilbúnu lakkrískubbar af uppáhalds uppskrifasíðunni minni Gulur, rauður, grænn og salt, þeir eru af öðrum heimi. Þeim get ég troðið í mig þar til ég nánast æli af áti. 

Ég er þekkt fyrir að vilja bara "gamalt nammi" - allt sem er seigt og hart. Þarna blandast saman guðdómleg seig karamella, lakkrís, krispís og smá súkkulaði. Himneskt, segi ég og skrifa!

Annars keppist fólk nú um að birta óskalistana sína. 

Jú, jú. Mig dauðlangar í...


Þetta fiskahálsmen frá Hring eftir hring. Ég geng ekki með hálsmen almennt og sé aldrei neitt sem þykir fallegt eða langar í. Þessi litli fiskur kallar þó á mig, en þá er það upptalið.  Jón í lit. Ó, elsku Jón. Þú mátt svo sannarlega verða minn. Ekki skemmir að hönnuðurinn heitir Almar, alveg eins og minn uppáhalds. Gúmmístígvélin úr Farmes Market. Já, mig vantar þau sko. Og jafnvel þessa skó úr Dúkkuhúsinu. Alveg satt. 


Síðast en ekki síst. Risastóran trefil. Alveg svo það sjáist varla í mig. 

En þó. Most of all; 


Mig langar að sofa. 

Ég þrái að fá að sofa. 

Nei, ég verð að fara að sofa, en nú hef ég ekki sofið meira en fjóra sundurslitna tíma á sólarhring í heilt ár. 

Það er ekki hægt af því það er ekki hægt. 

Er óglatt af þreytu. 

Einhver sagði að það þyrfti heilt þorp til þess að ala upp barn. Þetta er það skynsamlegasta og besta sem ég hef heyrt. 

Getum við byrjað núna? Að láta Emil "ganga á milli".  Við þurfum ekkert að sofa lengi, bara eins og fimm daga. Gætum sótt hann um hádegi á Þorláksmessu. 

Ókei?

Ást og friður. 

Wednesday, December 17, 2014

Jólaalmanak heimilisins - 17. desember

17. desember

Nú ljúkum við við jólaþvottinn. Íbúðin er að fá á sig jólalegan blæ og allir dunkar fullir af smákökum. Ekki má gleyma að kaupa jólaservíetturnar og kertin. 

-------

Ohhh, mig langar einmitt ferlega til þess að eiga einhver sérstök jólarúmföt, snjóhvít og mjúk. Þá væri ég einmitt að þvo þau núna. Það verður kannski næsta ár. 

Annars vorum við Emil í myndastuði í dag. Honum liggur svo á að komast af stað og þess vegna þótti mér tilvalið að taka "gólfæfingar" áðan. Hann áttar sig engan vegin á því hvað ég átti við með þessu og vegur bara salt á maganum. Varð fljótlega alveg verulega pirraður á sínu eigin getuleysi. 

Myndirnar tala sínu máli. 
Tuesday, December 16, 2014

Jólaalmanak heimilisins - 16. desember

16. desember

Í dag fægja þeir sem eiga og nota silfur og börnin gera óskalista. 

--------

Hugsunin um að "fægja silfur" kastar mér ansi mörg ár aftur í tímann. Heim í foreldrahús. Mikill samgangur var í götunni okkar og daglegur frá sumum vinum foreldra minna. Kjartan og Jóna "á móti" kíktu oftar en ekki í kaffi eftir kvöldmat.


Þegar jólin nálguðust gekk Kjartan gjarnan yfir götuna með Silvo-brúsann, en honum þótti ótækt að "Jóna hin" bæri fram krásir vopnuð kolsvörtum áhöldum. Það er eins og mig reki minni til þess að Brasso hafi einnig komið við sögu. Þessi kvöld voru enn skemmtilegri en önnur og mikið hlegið í eldhúsinu meðan Kjartan pússaði. 

Mér finnst alltaf jafn merkilegt hvernig heilinn virkar. Lykt, tónlist, myndir eða einstaka orð framkalla heilu sögurnar á örskotstundu. Sögur sem oftar en ekki eiga sína eigin lykt og tilfinningar. Sitt eigið minningabox. 

Í "Silvo-boxinu" mínu er; 

Gleði
Hlátur
Lyktin af Silvó-vökvanum
Kaffi í glasi
Mömmukökur

Upp með Silvoið fólk. 


Monday, December 15, 2014

Jólaalmanak heimilisins - 15. desember

15. desember

Það er best að taka fram jólaljósin sem eiga að fara á jólatréð, athuga hvort þau eru í lagi og koma þeim í viðgerð ef svo er ekki. Ekki má gleyma að eiga aukaperur. 

--------

Sko. Upp er komið enn eitt vandamálið. Það er ekki pláss fyrir jólatré í íbúðinni okkar. Hún er roslega lítil, svolítið eins og hún hafi hlaupið í þvotti. Þetta slapp í fyrra, en með tilkomu Emils og alls hans hafurtasks, er hún sprungin - gersamlega. 

Kannski kaupi ég bara dúkkutré og set það upp á borð. Eða hengi það upp í loft. 
Annars er ekki veður til þess að gera neitt annað en kúra heima hér fyrir austan í dag. Það er brjálað, segi ég og skrifa. Krakkarnir fóru ekki í skólann og Gísli braust við illan leik í búðina. 

Kakó og lakkrístoppar. 

Þetta er samt alveg lúmskt kósý, já eða bara ferlega. 


Saturday, December 13, 2014

Jólaalmanak heimilisins - 13. desember

13. desember

Í dag er ágætt að láta klippa börnin ef með þarf, huga að jólaskrauti og kaupa nýtt ef með þarf. Einnig jólapappír, skraut og borða. Ekki er svo úr vegi að fara að huga að jólagjöfum. 

---------


Í gær fór ég einmitt í klippingu. Ætlaði að gera eitthvað voðalega hipp & kúl með rakstri og öllu tilheyrandi en hætti svo við á ögurstundu og fór í "bob". Rakstur má bíða vorsins. Hér að ofan var tilraun til "hár-selfí" en ég er ekki með réttindi á speglamyndatökur. Eins og sést. 
Það var löng opnum í bænum í gærkvöldi og ég hékk með uppáhalds stelpunum mínum sem mynda "litla kvenfélagið". Þar klipptum við meira en hár.Í hádeginu í dag kom svo minn uppáhalds Sölvi í heimsókn - en hann er sá allra fyndnasti og skemmtilegasti maður sem ég þekki. Óborganlegur. 

Thursday, December 11, 2014

Jólaalmanak heimilisins - 10. og 11. desember

10. desember

Ef frystikista er á heimilinu má flýta fyrir sér með því að útbúa í hana, hvort heldur sem er, soðið, steikt eða bakað. 

11. desember

Í dag væri gaman að bjóða vinum heim og útbúa í sameiningu heimaunnar jólagjafir handa börnunum. 

--------

Ég á aðeins eitt agnarsmátt frystihólf sem tekur hvorki við soðnu, steiktu eða bökuðu - enda er allt étið hér jafnóðum hvort sem er.

Við Emil buðum heldur engum heim í dag en gerðumst svo kræf að brjótast út í óveðrið og heimsækja litlu tvíburavini okkar, Þórodd Björn og Björgu Ingu.


Myndavélin var því miður ekki með í för en þessi var tekin af Emil í þeirra húsi um daginn - en honum finnst "geimstöðin" þeirra það flottasta og skemmtilegasta í gjörvöllum heiminum.  


Annars er það helst að frétta að Emil hefur innritað sig á leikskóla - frá og með ágústmánuði. Já, ég veit að hann er nýfæddur. Ég fyllist örlítilli skelfingu yfir þessu öllu saman. Svona aðeins rúmlega örlítilli.
 


Tuesday, December 9, 2014

Jólaalmanak heimilisins - 9. desember

9. desember

Í dag tökum við til við smákökubaksturinn. Sjálfsagt er að allir fjölskyldumeðlimir taki þátt í honum.

--------


Snickerskökurnar hafa algerlega slegið í gegn! Svo bragðast líka allt betur sem er í kristalsskálinni hennar ömmu Jóhönnu. 

Ég er á plani, annan daginn í röð - en í dag ætla ég einmitt að baka smákökur. Aftur. Það sem ég bakaði um daginn er nánast allt búið, eftir afmælið, auk þess sem á heimlinu eru litlir (og stórir) munnar sem geta vel hugsað sér eina og eina köku.

Þær kökur sem hafa algerlega slegið í gegn í ár eru Snickers smákökurnar af GULUR, RAUÐUR, GRÆNN OG SALT. Sú uppskriftasíða er mín uppáhalds og notast ég við hana oft í viku. Þar er að finna einfaldar, góðar og hollar uppskriftir, auk allskonar ómótstæðilegs gúmmelaðis.

Kökurnar eru einnig ferlega einfaldar og þeir sem segjast ekki kunna að baka myndu rúlla þeim upp. Til dæmis Jóhanna Seljan vinkona mín. Segist ekki geta bakað þó svo líf hennar og allrar stórfjölskyldunnar lægi við. En, meira að segja hún gæti gert þessar. Með bundið fyrir augu og standandi á öðrum fæti. Lofa.

Bakaði tvöfalda uppskrift af kökunum, það borgar sig. Endilega kíkið á þær hér. Já og bakið svo, sjáið ekki eftir því.

Monday, December 8, 2014

Jólaalmanak heimilisins - 8. desember

8. desember

Það er óþarfi að geyma fram á síðustu stund að þvo dúka og gluggatjöld og því ágætt að gera það í dag. Kvöldinu verjum við með börnunum og rifjum gjarnan upp jólasálma með þeim eldri en kennum þeim yngri. 

--------


Gardínur eru ofmetnar. Stórlega. 

Ég á semsagt frí í dag, en ég greindi einmitt frá slæmu gardínuóþoli mínu hér í fyrra. Í stuttu og endursögðu máli, ég á engar gardínur til þess að þvo. Ekki dúka heldur. Bara glugga til að pússa. 


Menn troða nú í sig graut þrátt fyrir lasleika. 

En ég á veikt barn, með hor og slef - í bókstaflegri merkingu. Slík stemmning merkir náttfatadagur. Án maskara og með toppinn í tagli eins og Mía litla. Er líklega búin að innbyrða 7000 hitaeiningar frá hádegi, en ég hef að mestu séð um að sópa upp afmælisafganga gærdagsins. Dugleg stelpa. 


Þessir jólasveinar skipa sérstakan stað í hjarta mér og eru mitt uppáhalds jólaskraut. Þá teiknaði Almar Blær þegar hann var sex ára gamall. Bræðurna alla, Grýlu, Leppalúða og Jólaköttinn. Þau eru alltaf "á snúrunni" öll jólin

Jólasálmarnir mæta líka afgangi. Almar Blær kom reyndar í kaffi með þrjá vini sína áðan og ég rifjaði upp fyrir þá nokkrar velvaldar barnasögur af honum - já og sýndi handverk. Hefði kannski frekar átt að fara með sálma að hans mati. 

Sunday, December 7, 2014

Jólaalmanak heimilisins - 7. desember

7. desember

Í dag kveikjum við á öðru kerti aðventukransins og öll fjölskyldan skrifar jólapóstinn sinn. Það sakar ekki að eiga eitthvað til þess að narta í meðan setið er við skriftir. 

--------

Hvað á að núa manni þessum jólapósti mikið um nasir? Nei, ég bara spyr?

Við héldum afmæli í dag og höfðum jú svo sannarlega eitthvað til þess að narta í. Hér eru svipmyndir frá deginum. Afmælisbarnið með "litla sinn". Bríet er óendanlega dugleg að druslast með hann daginn út og inn. 


Þessir eru flottir - strákarnir mínir og afi Oddur. 


Ég tárast alveg yfir þessum dásamlega hóp sem ég á - finnst stundum svo óskiljanlegt að ég eigi þessi fjögur heilbrigðu, duglegu og fallegur börn. Ekkert, ekkert er mikilvægara í gervöllum heiminum. 


"Ljósið"


Stubbur að máta jólabuxurnar frá Jónu ömmu á Eski. 


Heimsmálin krakkar...


...geta bara verið frekar spaugileg. Í dag var megrunarlausi dagurinn. 


Haffi frændi, Kristófer frændi og Emil. 


Þessar tvær. Þær eru frekar mikið uppáhalds hjá mér. 


Mamman mín. 

Góður dagur að baki. Svo mikið huggó að eiga afmæli á aðventunni.