Friday, December 19, 2014

Jólaalmanak heimilisins - 19. desember

19. desember

Nú skrifum við á lista allt sem þarf að kaupa inn til jóla af matvöru og kaupum jólaölið. 

--------

Listinn er klár og bíður Bónusferðar á morgun. Grænar baunir, malt&appelsín, rauðkál og jólaservíettur. Menningarferð í Egisstaði, það er nú eitthvað. 


Handklæðaofninn okkar er ekki í svo Guðlegum ljóma. Myndefnið er bara svo lítið spennadi að ég gat ekki annað en filterað það pínulítið. 


Nýja þurrk- og "hitunaraðstaðan"

Annars finn ég mig knúna til þess að segja frá "atvinnutilboði" sem mér barst í dag. Ég er með "app" í símanum mínum sem heitir Alfreð. Þar skráði ég helstu upplýsingar um mig, við hvað mig langaði að starfa og upp á hvað ég hef að bjóða sem starfskraftur. Ekki að ég sé að leita mér að vinnu - þetta er áhugamál hjá mér, svona rétt eins og að skoða fasteignaauglýsingar daglega þó svo ég sé ekki að leita okkur að íbúð. 

Allavega. Ég hef kannski eitthvað ofmetið mig þegar ég skráði upplýsingarnar hjá Alfreð. Eða þannig. Hef oftar en einu sinni og oftar en tvisvar sagt frá slakri stærðfræðikunnáttu minni opinberlega. Var mitt versta fag alla mína skólagöngu og mig dreymir enn reglulega að ég eigi eftir að klára einn stærðfræðiáfanga til stúdentsprófs. Viðbjóður. Alltaf jafn slæm martröð. 

Í dag bárust hins vegar eftirfarndi skilaboð frá Alfreð stórvini mínum; 

"Hæ. Alfreð hér. Ég er með starf sem gæti hentað þér. Verkefnastjóri við tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík."

Já, ok. Það er nebblega það. 

Ég er með kenningu. 

Ég tel að nýtilkomin tækni- og verkfræðikunnátta mín hér innanhúss hafi spurst út og þá í herbúðir Alfreðs. 

Við fjölskyldan höfum nú búið í nýlegri íbúð í Bakkagerði 10 í eitt og hálft ár. Það var svo um daginn að mér datt í hug að kveikja á handklæðaofninum á baðherberginu. Ekki spyrja mig að því af hverju ég gerði það ekki fyrir einu og hálfu ári fyrst, því get ég ekki svarað. Nú eða þá einhver annar. 

Stuttu síðar gekk dóttir mín inn á bað og segir; "Nau, nau. Það er kominn gólfhiti á baðinu"

BINGÓ. 

Verði ljós.
Tendrun handklæðaofns = gólfhiti. 

Ég sumsé lagði gólfhita á baðherbergisgólfið alein og sjálf. Með einu handtaki. Eins og að drekka vatn. 

Kvöld eitt átti ég leið inn á bað. Þar lágu vinnufötin hans Gísla eins og hráviður um allt. Ég spurði hverju þessi umgengni sætti. Jú, hann var að hita fötin, svo voða, voða notarlegt að fara í þau volg á morgnana. 

Ja, hér og hér. 

Í gær lá leið mín enn og aftur inn á bað. Að þessu sinni lá á gólfinu risastórt handklæði. Eins og hundur. Ég spurði dóttur mína af hverju hún hafi hent íþróttahandklæðinu sínu á gólfið. 

"Það var blautt, ég er að þurrka það,"  sagð'ún. 


Nó vorrís, ég er búin að fjarlægja límmiðann af gleraugunum mínum. 

Tækni- og verkfræðikunnátta mín hefur því aldeilis skilað betra lífi hér í B10. 

Já veistu Alfreð, ég held ég treysti mér bara alveg til þess að taka þetta að mér. 

Hvenær á ég að byrja?


No comments:

Post a Comment