Friday, July 29, 2016

Pestó og pastasalat af öðrum heimi!


Mér finnst ég bara skyldug til þess að deila með ykkur einni þeirru mestu matardásemd sem ég hef kynnst nýverið, en það er "döðlu- og ólífupestó" sem ég fékk hjá henni Jóu minni um daginn. Ég hætti ekki að hugsa um það eftir að ég kom heim og gerði það strax daginn eftir og bauð fólki í mat til þess að breiða út boðskapinn. 

Upphaflega er uppskriftin fengin hér á uppskriftasíðunni Gulur, rauður, grænn og salt, en sú síða finnst mér yfirleitt sú langbesta. 

Allavega. Öllu því sem mér þykir sjúklega gott er troðið saman í einn graut og úr verður þetta pestó sem jafnast á við, ég bara veit ekki hvað, rað-eitthvað! 

Ekki skemmir fyrir að galdurinn er sáraeinfaldur, sirka svona; 

- Ein krukka rautt pestó.
- Hálf krukka af fetaosti og dass af olíunni af honum líka, aðeins stappaður. 
- Einn og hálfur dl ólifur, smátt saxaðar (ég notaði grænar af því að mér finnst þær betri, en í uppskriftinni eru svartar). 
- Einn og hálfur dl döðlur, smátt saxaðar.
- Einn og hálfur dl af kasjúhnetum, smátt söxuðum. 
- Einn og hálfur bolli fersk steinselja (ég sleppti henni). 
- Tvö hvítlauksrif, pressuð. 

Öllu blandað saman í skál og kælt í einhverja stund ef kostur er. Ég gerði uppskriftina semsagt nokkrnvegin svona nema skipti grænum ólífum inn fyrir svartar og sleppti steinseljunni af því hún var ekki til. Ég setti nánast alla olíuna af fetaostinum og bætti meira að segja við smá af hreinni olíu þegar ég tók það úr kæli. 

Jóa var ekki með ólífur um daginn og líkelga minna af hnetum og döðlum en ég gerði svo og mér fannst hennar samt alveg dásamlegt! Við borðuðum það bara með kexi hjá henni, en ég sá strax að þetta væri líklega sjúklega gott út á pastasalat. 

Í gær var ég með pasta, grænmeti, pestóið og ferskan parmesan og ég sverða, það er ekki hægt hvað þetta er gott. Gesturinn minn kolféll á sama hátt og ég, fékk uppskriftina og mun kynna hana fyrir fleirum í dag. Mér líður eins og trúboða!

Allavega. Góða helgi og verði ykkur að góðu!


Thursday, July 21, 2016

River Þessir eru æði, efast um að ég fari mikið úr þeim í haust, nú nema þá kannski til að hoppa í rauðu stígvélin úr Rauða krossinum sem ég fann á Akureyri um daginn, 


Ég tel það morgunljóst að ég gæti varla bjargað lífi mínu með því að gerast tískubloggari, er mun meira fyrir annað hvort að rífa kjaft eða tala um eitthvað frá hjartanu. Ekki láta mynda mig í tengslum við "dress dagsins".

Mér bara finnst ég þurfa að segja ykkur frá austfirsku-fataperlunni River á Egilsstöðum og fékk því dóttur mína til þess að gera þennan magnaða myndaþátt með mér í kvöld. Ég var svo "mis" á öllum myndunum þannig að hausinn fékk að fjúka. Vondur hár-húð og allskonar dagur.

Allavega. Þegar ég sá fram á það að vera í sjónvarpstökum vikulega gerði ég mér grein fyrir því að ég væri komin í nokkuð vond mál - en fataskápurinn minn verður ekki tilnefndur til nokkurra rokkstiga þessi misserin þegar endar ná vart saman fyrir mat hjá mér frekar en nokkrum öðrum einstæðum foreldrum.

Eftir bara alls enga umhugsun hafði ég samband við Björk og Gunnu í River og er búin að vera í frábæru samstarfi við þær í vetur. Þær eru algerir snillingar, búðin er alltaf full af allskonar flottu - íþróttafötum, skóm, töskum, fylgihlutum og fötum, bæði frá þekktum merkjum, íslenskum hönnuðum og svo einnig allskonar á góðu verði.

Almesta snilldin er hvernig þær stöllur standa að útsölunum, en þær setja nánast allt á útsölu og dúndra verðunum verulega vel niður og sitja þannig ekki uppi með allskonar gamalt stöff þegar næsta árstíð hefst, já og viðskiptavinir njóta heldur betur góðs af.

Ég myndi kíkja í heimsókn í River ef þið eigið leið um Egilsstaði - og já, útsalan er í blússandi gangi!


Fór einmitt í þessum Adidas bol í síðustu tökur og hann er æði, Tók hann frekar mikið stóran, var í stuði fyrir það! Þessar buxur eru líka sjúklega þægilegar.Ég finn mér alltaf gallabuxur í River sem ég verð skotin í. Þessi peysa er líka þaðan. 


Hef notað þessa peysu endalaust, en vinkona mín á eins og er nánast líka gróin við sína. Hún er bæði kósý heima á kvöldin en gengur alveg sem yfirhöfn á góðum degi. 


Þetta er allt úr River, nema gulu Iðunnarskórnir sem fundust á sínum tíma í gömlum lager í Kaupfélaginu á Stöðvarfirði. Er því miður á góðri leið með að gera út af við þá og tærnar nánast komnar út úr. En, mæli með þessum leggings, já og kjólnum og gollunni! 

Facebooksíðan þeirra er hér

Friday, July 15, 2016

Hvað í andskotans djöflinum er að frétta?


Ég fann hvernig pirringur minn stigmagnaðist þegar ég sat þarna í anddyrinu á Skattstofunni á Egilsstöðum við undirbúning árlegra frétta um tekjur Austfirðinga fyrir síðasta skattaár.

Ein og ein kona á stangli slægðist inn á listann yfir tekjuhæstu einstaklinga hvers bæjarfélags fyrir sig og þá helst með því að við lækkuðum „viðmiðið“ til þess að koma þeim inn.

Ég hugsaði með mér, að vildi ég ná að lifa sómasamlega og réttu megin við hungurmörk, væri aðeins tvennt í stöðunni; að fara á sjóinn eða skipta um kyn.

Hvað er andskotans málið? Afsakið orðbragðið. Ekki að þetta séu nýjar fréttir. En bara, hvað er?
Menntunarstig kvenna hérlendis er hærra en karla ef eitthvað er. Konur gegna sömu stöðum og vinna jafn mikið og karlar. Eini munurinn er að þær fá minna borgað fyrir það.

Orðið „feministi“ á það til að bjagast í umræðunni og hefur verið túlkað í þá veru að með því vilji konur yfirtaka heiminn. Það er vissulega ekki rétt og samkvæmt skilgreiningu merkir orðið; „Femínisti er karl eða kona sem veit að jafnrétti kynjanna hefur ekki verið náð og vill gera eitthvað í því.“ Skilgreiningin gengur í báðar áttir og snýst aðeins um jafnan rétt einstaklinga á öllum sviðum samfélagsins, óháð kyni.

Flest eigum við börn og mörg okkar bæði syni og dætur. Viljum við börnunum okkar ekki það allra besta? Líka dætrum okkar? Viljum við ekki að þær séu metnar af verðleikum, ekki að útborguð laun þeirra gengisfellist við það eitt að þær séu konur?

„Þessu þarf að breyta og við verðum að berjast fyrir því að leiðrétta launamun kynjanna.“ 

Hefur einhver heyrt þessa klausu sagða? Berjast fyrir hverju? Af hverju þarf að berjast? Hvað er það sem er svona flókið? Þarf að hugsa þetta eitthvað? Þarf að gera það í einhverjum skrefum? Er ekki bara ósköp einfalt að borga tveimur einstaklingum sömu laun fyrir sömu vinnu?

Jæja. Ég kom svo heim eftir þessa útsvars-yfirlegu og kveikti á sjónvarpinu. Datt þar inn á viðtal við þjálfara og fyrirliða meistaraflokks kvenna hjá Þór á Akureyri. Umræðan var mismunun kynjanna innan íþróttahreyfingarinnar.

Stelpurnar í meistaraflokknum fá ekki krónu fyrir að stunda sína íþrótt meðfram fullri vinnu. Það fá strákarnir hins vegar.

Ekki nóg með það, heldur krefst það mikilla ferðalaga að spila í efri deildum og þurfa að sækja leiki í önnur landshorn. Til þess að fjármagna þessar ferðir, sem að mér skildist á viðtalinu að væru í það minnsta fjórtán til Reykjavíkur yfir keppnistímabilið, þá þrífa þær íbúðir eða telja vörur í verslunum. Ekki strákarnir þurfa ekki að skila slíkri vinnu þar sem þeir eru með fleiri og stærri styrktaraðila.

Þjálfarinn, sem var karl, talaði um mikil hughrif og fegurð þessara aðstæðna – hér væri á ferðinni sönn áhugamennska. Þáttastjórnandi bar það upp hvort þetta væri eins og við vildum hafa það, hvort vandinn lægi ekki í því að láta þetta viðgangast. Þjálfarinn sagði það kannski vera, en við ættum bara að taka hattinn okkar ofan fyrir þessum stelpum sem fengju aldrei neitt upp í hendurnar og sýndu af sér mikinn karakter með þessu.

Þáttastjórnandi spurði þá bara hvar við værum stödd samkvæmt þessu, nú árið 2016?

Ég geri það sama. Hvað er að frétta? Persónulega tek ég ekki ofan af mér hattinn fyrir þessu bulli. Líklega hefur þetta verið vel meint og allt það. Ég sé enga fegurð í þessu og verð ekki fyrir nokkrum hughrifum. Bara, fokkit!