Friday, July 29, 2016

Pestó og pastasalat af öðrum heimi!


Mér finnst ég bara skyldug til þess að deila með ykkur einni þeirru mestu matardásemd sem ég hef kynnst nýverið, en það er "döðlu- og ólífupestó" sem ég fékk hjá henni Jóu minni um daginn. Ég hætti ekki að hugsa um það eftir að ég kom heim og gerði það strax daginn eftir og bauð fólki í mat til þess að breiða út boðskapinn. 

Upphaflega er uppskriftin fengin hér á uppskriftasíðunni Gulur, rauður, grænn og salt, en sú síða finnst mér yfirleitt sú langbesta. 

Allavega. Öllu því sem mér þykir sjúklega gott er troðið saman í einn graut og úr verður þetta pestó sem jafnast á við, ég bara veit ekki hvað, rað-eitthvað! 

Ekki skemmir fyrir að galdurinn er sáraeinfaldur, sirka svona; 

- Ein krukka rautt pestó.
- Hálf krukka af fetaosti og dass af olíunni af honum líka, aðeins stappaður. 
- Einn og hálfur dl ólifur, smátt saxaðar (ég notaði grænar af því að mér finnst þær betri, en í uppskriftinni eru svartar). 
- Einn og hálfur dl döðlur, smátt saxaðar.
- Einn og hálfur dl af kasjúhnetum, smátt söxuðum. 
- Einn og hálfur bolli fersk steinselja (ég sleppti henni). 
- Tvö hvítlauksrif, pressuð. 

Öllu blandað saman í skál og kælt í einhverja stund ef kostur er. 



Ég gerði uppskriftina semsagt nokkrnvegin svona nema skipti grænum ólífum inn fyrir svartar og sleppti steinseljunni af því hún var ekki til. Ég setti nánast alla olíuna af fetaostinum og bætti meira að segja við smá af hreinni olíu þegar ég tók það úr kæli. 

Jóa var ekki með ólífur um daginn og líkelga minna af hnetum og döðlum en ég gerði svo og mér fannst hennar samt alveg dásamlegt! Við borðuðum það bara með kexi hjá henni, en ég sá strax að þetta væri líklega sjúklega gott út á pastasalat. 

Í gær var ég með pasta, grænmeti, pestóið og ferskan parmesan og ég sverða, það er ekki hægt hvað þetta er gott. Gesturinn minn kolféll á sama hátt og ég, fékk uppskriftina og mun kynna hana fyrir fleirum í dag. Mér líður eins og trúboða!

Allavega. Góða helgi og verði ykkur að góðu!


No comments:

Post a Comment