Wednesday, October 26, 2016

Hard work - 1/30




Af hverju ertu ekki að blogga segja þau. Eins og einu sinni. Eða snappa, eins og út á Bali?


Góðar spurningar, færri svör.

Held reynar að ég væri afleitur "snappari", í það minnsta svona á daglegum basis. Fannst gaman að sýna heiminum frá paradísinni Bali, en hér heima, æji nei. Held ég hefði ekki úthald eða tíma í það.

En bloggið, ég sakna þess. Ástæðan fyrir algeru viðveruleysi mínu hér undanfarið rúmt ár er að það hefur verið ógeðslega drullu-fokkíng-erfitt og stundum er bara best að steinhalda kjafti. Hef þó aldrei skrifað eins mikið og þennan tíma, eða vel rúmlega 10 þúsund orð.

Finn að mig langar til að fara að blogga aftur, það er kominn tími til. Rakst á svo ferlega skemmtilega "instagram-áskorun" á veraldarvefnum sem ég reyndar sá strax fyrir mér sem litlar smásögur. Er semsagt sett upp sem þrjátíu daga áskorun, að taka eina mynd á dag af ákveðnu efni. Mig langar til þess að gera það, en þó með frjálsri aðferð, semja leikreglurnar sjálf.

Stefni á að taka þessar þrjátíu myndir, en ekki endilega daglega og segja frá þeim. Alls ekki í þeirri röð sem þær eru uppgefnar, bara svona það sem er í gangi hverju sinni. Og svo kannski ekki allar.

Allavega, fyrsta nefnist "Hard work".


Ég: Nennir þú að koma við og hjálpa mér að bora upp þessar fjárans hillur í dag. Ég nenni ekki að hafa þetta hérna út um allt.

Vinkonan: Já auðvitað.

Ég: Ég verð bara að læra þetta, meika ekki að vera alltaf upp á einhverja aðra komin með að gera þetta, þoli það ekki. Hvað gæti mögulega verið svona flókið við þetta? Heldur þú að við náum þessu ekki alveg?

Vinkonan: Juuú, jú.

Ég: Ég meina, samtals erum við 78 ára. Og eigum sjö börn. Og erum með tvær og hálfa háskólagráðu. Fjandinn hafi það.

Vinkonan: Áttu borvél, hallamál og skrúfur?

Ég: Já, auðvitað, hvað heldur þú að ég sé?

Vinkonan: En börnin. Hvað eigum við að gera við börnin á meðan?

Ég: Börnin já. Mútum stóru stelpunum til að fara út með þau. Með kex eða eitthvað. Djöfull er ég spennt fyrir þessu verkefni.


Vinkonan mætti galvösk klukkan sextánhundruð nú síðdegis. Út fóru börnin með börnin. Inn fórum við, fullar eldmóði.


Vinkonan: Áttu annan bor í vélina?

Ég: Annan bor? Af hverju? Það veit ég ekkert um.

Vinkonan: Þetta passar ekki, þú sérð það. Þetta er allt of sver bor fyrir þetta gat.

Ég: Hvaða, hvaða. Látum við það ekki sleppa? Þurfum við ekki tappa?

Vinkonan: Nei, það held ég ekki.

Ég: Jú, ég held það örugglega.


Upp hófst sena sambærileg og í tékknesku þáttunum um klaufabárðana. Við reyndum að mæla fyrir helvítis hillunni. Það gekk svona og svona. Því næst reyndum við að glöggva okkur á því hvaða skrúfur pössuðu og hvaða tappar. Og þá hvort að borinn bæri í eða úr leik. Þegar við áttuðum okkur á því að við gætum ekki svarað okkur þessum spurningum rauk vinkonan í símann.


Vinkonan: Hæ skan. Héddna, ertu í landi? Og heima. Já, ok. Sko. Getur þú skotist og hjálpað tveimur hjálparvana konum að bora upp eina hillu? Við ætluðum að gera þetta sjálfar, en þetta bara gengur ekki. Getur bara litið á þetta sem samfélagsþjónustu, svona góðverk. Ok, æði, takk.

Ég: Í hvern varstu að hringja?

Vinkonan: Æji þú veist. Þetta gengur ekki. Eigum við ekki að koma upp þessari hillu?

Ég: Jú. Guð hvað við erum leim. Ég bara skammast mín. Jesús minn.

Vinkonan: Sko. Við segjum ekki nokkrum manni frá þessu. Segjum bara að við höfum gert þetta alveg sjálfar. Já og lærum af þessu í leiðinni, lítum á þetta sem nokkurskonar starfsþjálfun.

Ég: Já. Samt fokkíng glatað. Ég verð að læra þetta. Það er bara þetta með mælinguna. Mig fer bara að svima.


Og þar við sat. Við hringdum í vin sem kom og boraði upp hilluna og tvær aðrar til.

Ekki segja neinum. Þið heyrðuð þetta ekki frá mér. Og þessi mynd, hún er algert búllsjitt. En, sagan er góð.



No comments:

Post a Comment