Sunday, October 30, 2016

Makes you happy - 2/30


Helgi eins og þessi gerir mig hamingjusama. Þegar ég er með börnunum mínum og í allskonar vinakúldri með. Það er mín uppáhalds uppskrift.

Ég elska kaffi- og matarboð, svona svo því sé haldið til haga. Bæði að halda þau sjálf og ekki síður vera boðin í önnur hús. Um helgina atvikaðist það þannig að húsið mitt var fullt út úr dyrum alla helgina - pizzaboð á föstudagskvöldið, "litlu jólin" á laugardaginn og vinastund sem endaði í mat í kvöld.

Á laugardaginn var hér hópur sem ég er búin að hlakka til að fá lengi, Hrafnhildur, ein af mínum allra bestu vinkonum með sína fjölskyldu. Hrafnhildi kynntist ég í Kennaraháskóla Íslands fyrir tæpum 20 árum síðan (ok sjitt) og höfum við átt stóran hluta í hvor annarri síðan. Þau búa í Reykjavík og við bölvum 700 kílómetrunum sem skilja að og ekki síður Flugfélagi Íslands fyrir hamlandi verðlag.

En, um helgina voru þau hér og þá var tíminn nýttur vel, mikið talað, hlegið og ólöglega miklu kaffi skolað niður. Við vinkonurnar erum jólabörn af þeirri stærðargráðu sem varla þekkist og því var löngu búið að ákveða að þessa helgi yrðu "litlu jólin" okkar haldin. Sem og þau voru, en ég henti í eina smákökusort, setti upp fjórar stjörnur í gluggana og setti Helgu Möller á fóninn, sem er jú holdgerfingur jólanna. Með gleði leikmanna til viðbótar var útkoman himnesk.


Engiferkökurnar hennar ömmu Jóhönnu koma öllum í jólaskap, þær eru svona eins og að borða jólin sjálf. Ég fékk alltaf að baka þær, já og flest annað, með ömmu, en athöfnin við að gera þær var heilög. Amma bjó til litlar kúlur úr deiginu og ég fékk að ýta á þær með buffhamrinum, en fyrr voru þær ekki tilbúnar. Mandarínurnar eru mættar á Reyðó en stoppa alltaf fremur stutt við hér á heimilinu...Þrjár af mínum uppáhalds manneskjum í lífinu, Hrafnhildur og stóru strákarnir mínir, en Almar Blær fékk hádegishlé á flugvellinum, fór með móður sinni á kjörstað og tók kaffibolla í leiðinni. Unglingaborðið - en sænska kladdkakan sló í gegn eins og alltaf, enda hættulega góð!
Óttalegt annríki í eldhúsinu, en að sjálfsögðu buðum við stöllur upp á Jóa Fel eins og við köllum það, uppáhalds réttinn okkar úr Hagkaupsbókinni sem hann tók saman á árum áður. Í alvöru, hvað gerðist! Þegar við kynntumst þá átti ég bara Almar Blæ minn sem var aðeins þriggja ára og Hrafnhildur var barnlaus. 

Almar Blær hefur fyrirgefið Hrafnhildi að mestu, en hann þoldi ekki þegar hún kom og tók mig með sér til að vinna hópverkefni í Kennó, en þau voru bæði mjög tímafrek og rosalega mörg. Honum stóð því ógn af henni, en þegar hún mætti merkti það að mamma var að fara að heiman í marga tíma. 

Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar. Núna eigum við samtals sjö börn, það elsta tvítugt. Yngsta þriggja mánaða. Allt þar á milli. Ég skil ekki. Gæfan er alger.

Þessi mynd lýsir okkur best, allir að tala ofan í alla og eitthvað að arrisera. 

Þetta og akkúrat þetta "makes me happy"

No comments:

Post a Comment