Wednesday, July 31, 2013

Óreiðupokar - snilldarhugmynd!Það sem ég sá frábæra hugmynd í nýjasta blaði Húsa og híbýla í dag...Óreiðupoka! Í blaðinu segir að finnsku óreiðupokarnir séu ómissandi inn á hvert heimili til þess að geyma dót sem á hvergi annarsstaðar heima. Þeir sem sýnir eru í blaðinu eru semsagt sérhannaðir sem slíkir, handsaumaðir- og prentaðirfrá frá fyrirtækinu CMIKistava. Að sjálfsögðu eru þeir staðsettir í hansahillum, nema hvað?

Ég er sjálf með risastóra óreiðuskúffu á mínu heimili, en það er algerlega nauðsynlegt þar sem merkilega margir hlutir eru algerlega heimilislausir.

Þó svo að finnsku pokarnir séu sérlega fallegir og skemmtilegir sé ég ekkert því til fyrirstöðu að nýta eitthvað sem til er á heimilinu, gamla körfu, kassa eða hvað annað sem til er. Svo kemur elsku IKEA sterkt inn - en sjálf gæti ég vel hugsað mér eitthvað af þessum óreiðulausnum...Notið hugmyndaflugið og segið óreiðunni stríð á hendur!


Monday, July 29, 2013

Skemmtilegar hugmyndir

Ég hef oft óskað þess að ég hafi hannað klemmuna - finnst það ein flottasta hönnun sem til er

Hef ekki prófað þetta, en hengi jólakortamyndirnar alltaf upp með klemmum um jólin

Hér væri líka hægt að skrifa fallegar setningar á einhverjar klemmur

Þetta er fallegri ToDo listin en minn!

Skemmtilegt að lauma klemmu að góðum vinum með fallegum boðskap

Ég prófaði þetta um daginn, góð hugmynd - en var með herðatréð staðsett á slæmum stað og hrundi aðeins of oft í gólfið!

IKEA hillur eru frábær hugmynd fyrir dúkkuhús!

Ég á tonn af smádýrum í geymslunni síðan krakkarnir voru litlir - spurning um að nýta þau betur?Friday, July 26, 2013

Nýtt ilmvatn?

Ég er svo aldeilis hissa. Haldiði að ég sé ekki búin að finna ilmvatn sem ég gæti hugsað mér að nota - já, bæði fæst það á Íslandi og er íslenskt! 

Ég hef alltaf átt alveg óskaplega erfitt með að finna mér ilmvatn, svo ekki sé meira sagt. Flest ilmvötn þykja mér bara vond. Sérþarfirnar eru töluverðar, en þau mega alls ekki vera "fersk/létt", blóma eða of væmin. Verða að vera "heit", sæt (en ekki of), krydduð og seyðandi - eins og ég greindi frá hér

Í dag átti ég stefnumót við vinkonu mína sem býr í Reykjavík og ég sé alllllt of sjaldan. Hún var varla sest niður hjá mér á kaffihúsinu þegar ég var byrjuð að "þefa" og greina þá dásamlegu lykt sem hún bar. Stóðst ekki mátið nokkru síðar að spyrjast fyrir um hana...

...töfrarnir eru íslensk framleiðsla, ELLA - og meira að segja heillaðist ég að dagilminum, ekki kvöld - sem er mjög óvanalegt. Eins og segir í lýsingunni minnir hann á gular sítrónur og blátt hafið. Eins og ég er viðkvæm fyrir "léttum" ilmum, þá er þessi það að einhverju leiti en einnig svo kryddaður. 

Langar!

Thursday, July 25, 2013

Allskonar heilsutöfrar

Við kærustuparið höfum nú ákveðið að fara að borða hollt. Umhumm. Ekki í fyrsta skipti eða annað. Það er þó ekki eins og við höfum synt í einhverju endalausu sukki - finnst bara voða gott að borða eitthvað skemmtilegt.

Í stað þess að fara á danska kúrinn, LKL kúrinn, beikonkúrinn, vatnsmelónukúrinn eða hvað sem þetta heitir nú allt var stefnan sett á að gera þetta bara af skynsemi. Hætta að drekka gos daglega, taka sykur í æð og baða sig upp úr hveiti.

Þess vegna varð ég steinhissa þegar minn maður lét pranga inn á sig einhverri olíu um daginn - já og gerasti söluaðili! Linol. Samkvæmt lýsingum á hún að gera kraftaverk og leysa allan heimsins vanda. Einmitt! Ég trúi ekki á neitt svona, ekki neitt. Vil ekki sjáða að borða Herbalife eða eitthvað annað, vil bara borða hollan mat og taka lýsi.

En, með því að taka þrjár skeiðar á dag á kólesterólið að lækka, blóðsykur að jafnast, blóðþrýstingur að lækka og ég veit ekki hvað og hvað. Síðast en ekki síst eiga að fjúka af manni kílóin, bara sísvona!

Ekki veit ég hvað varð til þess að ég lét til leiðast, en þetta með kólesterólið seldi mér 30% - en ég er með hærra kólesteról en togarasjómaður - og þetta með kólóafokið 70%.

Ég er búin að taka þetta samviskusamlega í nokkra daga núna, tja - svona þegar ég man eftir því. Átta mig ekki á því hvort þetta er bara í hausnum á mér eða hvort þetta virkilega virkar, en mig langar ekki stöðugt í eitthvað að borða eða eitthvað sætt. Er á meðan er!

Til vonar og vara þótti mér þó ráð að prófa að búa til hollt nammi sem tröllríður öllu um þessar mundir - gott að eiga eitthvað til þess að troða í sig þegar sykurþörfin tekur yfir. Sá þessa uppskrift hjá henni Sollu grænu.

Upprunalega uppskriftin hjóðar svona:

  • ½ dl hlynsýróp eða hunang
  • ½ dl hnetusmjör
  • ¼ dl kókosolía
  • 1 dl graskerjafræ
  • ½ dl kakóduft
  • ½ dl hampfræ
  • ½ dl kókosmjöl
  • ¼ dl kakónibbur (má sleppa)
  • smá salt

Ég athugaði hvað ég ætti í skápunum og komst asni langt með það. Þurfti þó í búð eftir fræjum og sýrópi og kakónibbum. 

Í Krónunni var ekki til nokkuð sem minnti á hlynsýróp eða hunang frá Sollu, þannig að ég notaði bara gamla, góða hunangið. Hampfræ voru heldur ekki til þannig að ég fjárfesti í fræblöndu og lét það duga. Kakónibbur sá ég heldur ekki, enda finnst mér nafnið eitt og sér hljóma afar illa. 


Ég glutraði svo öllu saman í skál, tróð í lítið form, skar rákir og setti í frost. Útkoman er mjög góð, mjög. Molarnir eru afar sætir og mettandi og slá mjög vel á sætindaþörf mína, svona þegar ég gleymi að úða í mig olíunni.


Prófið!

Wednesday, July 24, 2013

Dásamlegur drykkur á síðsumarkvöldi

Tel það beinlínis skyldu mína að upplýsa landann um þennan drykk hér, svo dásamlegur er hann á síðsumarkvöldum sem þessum...

Um ræðir Amarula (eða þá Baileys) með kaffiklökum útí

Maður einfaldlega hellir upp á sterkt og gott kaffi...

...kælir það og hellir í ísmolabox, eða þá klakapoka eins og í mínu tilfelli í dag og í frost!

Amarula er gott og kaffi er gott. Því er Amarula með kaffiklökum - þið vitið hvað ég meina.

Ekki á morgun heldur hinn!

Nú styttist aldeilis í einn af mínum uppáhaldsviðburðum yfir árið - Bræðsluna. Ég er að leggja íann í fjórða skipti og er alltaf jafn spennt!

Fyrir utan hvað er gaman að vera á svæðinu, það er ALLTAF sól og blíða - þá gerist eitthvað undarlegt á þessum tónleikum ár hvert. Þó mér væri boðið í stærstu og flottustu tónleikahöll heims með mínu uppáhaldsbandi, myndi ég frekar velja Bræðslutónleikana. Það er ekki hægt að lýsa stemmningunni fyrir þann sem ekki hefur upplifað, en það gerist eitthvað yfirnáttúrulegt inn í þessari gömlu bræðslu - endalaus gleði, súrefni, frábærir listamen, ást og samhugur.

Eftir tónleikana í fyrra hugsaði ég að þeir yrðu ekki toppaðir - en þar sungu til dæmis saman Mugison og Fjallabræður. Það leið nánast yfir mig svo dásamlegt varða! Ég hlakka ekkert minna til í ár, en ég tel niður klukkutímana þar til Ásgeir Trausti og Mannakorn stíga á svið, já og allir hinir. Djísús!

Get lofað tári á hvarmi þegar minn maður tekur þetta, fallegast í heimi! Læt fljóta með nokkrar myndir frá síðustu árum...


Við Silja mín tókum að sjálfsögðu myndasessjon á leiðinni...

...en fjöllin í Borgarfirði eru ekki eins og annarsstaðar!

Úr fókus af geðshræringu!

2011

2012
Monday, July 22, 2013

Bílveiki útrýmt, ég er að segja ykkur það!

Hér að neðan er lífsnauðsynleg lesning fyrir alla þá sem ætla að flýja keyrandi austur á land með bílveik börn í hafurtaskinu. Það er ekki skemmtilegt - þ.e.a.s. að keyra hringveginn með bílveik börn, það þekki ég af eigin raun.

Af mínum þremur er millistykkið bílveikt. Það hefur verið eins og við manninn mælt að Bríetarbarninu virðist meinilla við Djúpavogssvæðið en hún byrjar undantekningarlítið að æla þar á suðurleiðinni. Fyrir utan almennt umstang, fataskipti og ælupoka sárvorkennir maður henni svo í þessu leiðindarástandi og hálf veigrar sér við að fara með hana í langferðir.

Við vorum búin að prófa allt. Bílveikistöflur, jarðtengingu og láta hana sitja framí með opinn glugga. Mamma þóttist luma á "óhefðbundnum lækningum" eins og að láta hana taka eina skeið af hóstasaft áður en lagt væri íann. Einhverju sinni var ég stödd í Lyfju í Reykjavík og bað um bílveikistöflu. Konan sem afgreiddi mig stóð fastar á því en fótum sínum að hún mætti ekki afgreiða slíkt fyrir svo ung börn. Bauð mér hinsvegar meðgöngusleikjó í staðinn! Út fórum við mæðgur með sleikipinna í öllum regnboganslitum en allt kom fyrir ekki!

Ég var hætt að taka við almennun töfraráðum frá fólki því það skipti engu máli hvað gert var. Ég skellti því í fyrstu skollaeyrunum við þegar vinkona mín vildi lána mér armbönd sem strákurinn hennar hafði notað með góðum árangri við bílveiki. Umhumm, einmitt. Armbönd. Gat ég ekki alveg eins sett á hana eyrnalokka, hvolft svo tómum kaffibolla yfir hausinn á henni, borið kanil á handarbökin á henni og endað með því að láta hana hoppa þrisvar á vinstri fæti, rangsælis?

Armböndin sem um ræðir líta verulega sakleysislega út, sirka tveggja sentimetra breið teygja með lítilli plastkúlu sem þrýstir á úlnliðinn að innanverðu. Galdurinn er sá að kúlann á að sitja á jafnvægispunkti sem fríkar út í bílferðum og veldur ógleði.

Ég lét tilleiðast og prófaði. Fyrst bara þegar við fórum á Stöðvarfjörð sem er ekki nema 40 mínútna keyrsla. Bríet lenti sæl og glöð hjá ömmu Jónu, venjuleg á litinn en ekki ljósgræn. Ég var handviss um að tilviljun væri að ræða, trú mín var ekki meiri.

En, viti menn. Bríetarbarnið hefur nú í sumar farið tæplega tvo hringi kringum landið án þess að finna fyrir bílveiki. Ég er því miður ekki með böndin við höndina til þess að mynda þau en þessi töfralausn á að vera til í næsta apoteki á mjög viðráðanlegu verði.

Þið sem hafið átt við sama vanda að etja og ég, prófið - ég skora á ykkur, þó svo þetta hljómi eins og Baggalútsfrétt!

Bílveikisfrí Bríet

Wednesday, July 17, 2013

Eldhúsgluggagróðurhús

Æji, það þarf ekki einu sinni að spandera færslu um ást mína á IKEA - held að öll heimsbyggðin sé algerlega meðvituð. Finnst þessi sófi til dæmis fallegri en flest - enda uppseldur!
Ég greini hins vegar frá því með stolti að ég hóf kryddjurtarækt í eldhúsglugganum í gær. Ekki umfangsmikla en þó. Ég bind þó engar einustu vonir við að þær komist upp úr moldinni enda með ljósgræna fingur með afbrigðum. Mun þó gera mitt besta til þess að koma myntunni á legg, af augljósum ástæðum!

Einn, tveir og byrja! Basil, mynta og oregano.

Djöbblast í essu...

Á leið í gluggann. Myntan er að sjálfsögðu í heiðurssæti!

Mun greina frá því hvernig ræktunin gengur. Ef hún gengur þ.e.a.s. Endilega gefið mér góð ráð!

Tuesday, July 16, 2013

Erfiðir dagar - ár hvertÉg er algert síli þessa dagana. "Síli" er orð sem Hrafnhildur vinkona kenndi mér fyrir margt löngu og er svo ótrúlega lýsandi á ástandi þegar maður píííínulítill í sér og aumur. Í ofanálag eru dagarnir kringum 15. júlí mér alltaf mjög erfiðir ár hvert.

Ég get alveg feikað sílamennsku mína fyrir almenningi en krakkarnir mínir ryksuga allt svona upp eins og hálaunaðir ræstitæknar.

Ég fór með þau öll á Stöðvarfjörð um helgina, á bæjarhátíðina Pólar - sem var frábær. Eins og yfirleitt á þessum árstíma bárust örlög föður míns til tals innan fjölskyldunnar. Aðstæður í litla bænum voru svipaðar og þessa helgi fyrir 13 árum, líf, fjör og gott veður. Minntu mig óþægilega mikið á erfiða tíma. Ég hef oft rætt þetta allt saman við Almar Blæ og nú þótti þeim litlu mál til komið að fá að vita sitt...

Krakkar: "Mamma, finnst þér ekki leiðinlegt að eiga engan pabba?"

Ég: "Jú, mér finnst það mjög leiðinlegt?"

Krakkar: "Hvað var afi gamall þegar slysið varð?"

Ég: "Hann var 62 ára."

Krakkar: "Vá, svona ungur! Hvað varst þú þá gömul? Og brósi?"

Ég: "Ég var 24 ára og brósi 4 ára - ég er bara 20 árum eldri en hann."

Krakkar: "Heldur þú þá að ef að afi hefði ekki dottið í stiganum, væri hann þá kannski ennþá lifandi?"

Ég: "Já, örugglega"

Almar Blær: "Ég spái oft í það hvernig það væri ef við gætum bara farið á Stöddann og heimsótt ömmu Jónu og afa Steindór líka"

Helgin 14.-16. júlí árið 2000 er greipt í huga mér og "ef-in" eru mörg. Það eru sjálfsagt skiptar skoðanir um hvað er við hæfi að skrifa á opnum vef og hvað ekki. Viðkvæmir eru því hvattir til þess að skipta yfir á Smartland eða Baggalút núna og lesa bara frekar færslu morgundagsins sem verður jafnvel um skilyrðislausa ást mína á IKEA. Það hefur alltaf hjálpað mér að skrifa mig gegnum lífið og sérstaklega þegar ég er ekki stærri eða sterkari en fyrirburi í hitakassa...

______________

Ég var komin austur með Almar Blæ í frí. Á föstudagskvöldið var Jón Gnarr með sýningu sína Ég var einu sinni nörd í íþróttahúsinu. Ég ætaði að fara en Almar að vera heima hjá ömmu og afa. Hann var þó óskaplega súr með stöðu sína og grenjaði eins og stunginn grís þegar ég fór.

Gnarrinn stóð svo sannarlega fyrir sínu og allir skemmtu sér konunglega. Þegar afmælisbrandarinn hans um vörutalningadaginn 2. janúar - versta dag ársins til þess að eiga afmæli kom - litu allir bæjarbúar á mig og brostu, en við Jón deilum afmælisdeginum. Í pínulitlu þorpi þekkja allir alla og allir standa saman.

Heima hjá ömmu og afa fengu málin einnig farsælan endi, Almar Blær og afi skemmtu sér yfir glænýju spili, Bindu kúnni, sem sá litli hafði borið með sér úr höfuðstaðnum...

Laugardagurinn rann upp bjartur og fagur. Pabbi undirbjó sig fyrir að selja föndrið sitt á útimarkaðnum - en hann skar út undraverða hluti úr hreindýrshornum, lundanefjum og fiskibeinum - maður sem hafði hendur á stærð við bjarnarhramma!

Mamma fór í búð til þess að kaupa í kvöldmatinn, en við áttum von á gestum frá Reyðarfirði. Pabbi kemur inn með látum á neðri hæðinni, skellir hurðum og kallar "hæ" eins og vanalega. Skömmu síðar heyri ég dynk sem ég mun aldrei gleyma meðan ég lifi. Ég hljóp af stað á hljóðið og opnaði hurðina niður í kjallara. Það sem blasti við mér á ekki nokkur ætti að þurfa að upplifa. Pabbi minn lá hreyfinalaus á gólfinu með fæturna upp í stigann. Blóð lak út úr öllum vitum - alveg eins og atriði í lögguþætti á Stöð 2!

Krakkar: "Mamma. Hvað gerðir þú?"

Ég: "Ég hljóp upp og tók brósa frá, en ég vildi ekki að hann myndi sjá afa svona. Hringdi svo í lögguna og sjúkrabíl - já og Sissó bróðir og sagði honum að koma."

Krakkar: "En amma, hvað gerði amma?"

Ég: "Ég sá hvað ömmu leið illa og bað hana þess vegna ekki að vera þarna meðan sjúkraflutningamennirnir voru að taka afa í sjúkrabílinn."

Krakkar: "En, leið þér ekki illa mamma - hvernig gast þú verið þarna og séð afa svona slasaðann?"
________________

Ég hef einmitt oft hugsað akkúrat þetta. Merkilegt hvernig maður getur djöbblast í gegnum alla skapaða hluti þegar reynir á - eitthvað sem maður gæti ekki ímyndað sér.

Hann var fluttur suður og fór í aðgerð á Borgarspítalnum um nóttina. Við fengum strax afar raunhæfar fréttir með útlistun á ástandinu. Hann var marg-höfuðkúpubrotinn og blætt hafði út og suður um heilann. Læknarnir bjuggust síður við að hann vaknaði og ef svo væri þá mættum við búast við allt öðrum einstakling til baka, en skemmdirnar voru mestar á þeim svæðum sem stjórna persónuleikanum. Við gátum því frá fyrstu mínútu búið okkur undir það versta.

Fréttirnar flugu eins og eldur í sinu, bæjarbúar fylgdust með með skelfingu. Í pínulitlu þorpi þekkja allir alla og allir standa saman.

Við fórum suður tveimur dögum seinna. Við sátum yfir honum alla daga þar til 10. ágúst að hann gafst upp og dó. Hann komst aldrei til meðvitundar, þó svo ég hafi alltaf trúað því að hann hafi vitað af mér hjá sér.

Á þessum stutta tíma breyttist pabbi minn úr stórum og stæðilegum manni í beinagrind með sundurskorið höfuð. Ég var líklega í fimm ár að skola þá minningu út úr huga mér og hugsa frekar um hann eins og hann var. Almar Blær teiknaði heldur ekkert annað en fólk á sjúkrahúsum í marga mánuði og allir Playmoleikir einskorðuðust við sjúklinga með reifað höfuð.

Það er eitt sem hefur verið okkur ráðgáta. "Öndin" úr nýja spilinu sem þeir félagar spiluðu kvöldið fyrir slysið hefur aldrei komið í leitirnar. Við höfum alltaf verið viss um að afi er með hana hjá sér - við höfum enga aðra skýringu. Nema, ef, ef, ef, ef...

Síðan eru liðin mörg ár. Ég er ekki endilega sammála því að tíminn lækni sár, maður lærir frekar að lifa með því sem fyrir mann er lagt. Hugga mig alltaf við - fyrst þetta þurfti að gerast - að ég veit að pabbi hefði frekar viljað fara en að vakna sem hálfur maður. Það er þó merkilegt hvað hugurinn er skilyrtur, en þessir dagar ársins koma alltaf róti á huga minn. Alltaf.

Á morgun, eitthvað skemmtilegt. Til dæmis IKEA

Sunday, July 14, 2013

Pólar festival - svipmyndir helgar

Sumarhátíðin Pólar Festival var haldin hátíðleg á Stöðvarfirði, mínum uppeldisbæ, um helgina. Ótrúlega skemmtilegur viðburður þar sem áherslan var á sjálfbærni og hagnýtar listir. Frábært framtak og skemmtileg helgi sem ég vona að sé komin til að vera.

Getur verið að löggubílinn hafi ekki höndlað öll þrifin sem fram fóru á honum í gær? Hann er ekki vanur sko!

Það er ekki mikið fallegri aðkoman...
Líf...

...og list

Ó - ég græði alltaf svo mikið þegar ég fer á Stöddann!

...og næ alltaf að versla gersemar á klink...

Fyllti risastóran poka á "pokadegi" Rauða krossins. Finnst það besta búðin í bænum - lenti augljóslega á dánarbúspoka í gær, í það minnsta MIKLU góssi. 1500 kall, verskú!

Mamma lumaði á fullum kassa af góssi...

...merkilegt verður að teljast að hún hafi ekki verið búin að henda öllu saman. Allavega. Fullur kassi af Nýju lífi síðan 81-82 er minn. Jane Fonda og svona.

Hittum loksins litla Aron okkar - bróðurdótturson minn - sem býr í París og talar við okkur á frönsku!

Tilraun til myndatöku á Pólar

... þar sem blómakrans var staðalbúnaður

Siljubarnið mitt smakkar arfasalatMæðgur

Kvöldrölt myndatökunörda

Fallega, fallega stelpan mín!

Áfram Pólar!