Thursday, July 25, 2013

Allskonar heilsutöfrar

Við kærustuparið höfum nú ákveðið að fara að borða hollt. Umhumm. Ekki í fyrsta skipti eða annað. Það er þó ekki eins og við höfum synt í einhverju endalausu sukki - finnst bara voða gott að borða eitthvað skemmtilegt.

Í stað þess að fara á danska kúrinn, LKL kúrinn, beikonkúrinn, vatnsmelónukúrinn eða hvað sem þetta heitir nú allt var stefnan sett á að gera þetta bara af skynsemi. Hætta að drekka gos daglega, taka sykur í æð og baða sig upp úr hveiti.

Þess vegna varð ég steinhissa þegar minn maður lét pranga inn á sig einhverri olíu um daginn - já og gerasti söluaðili! Linol. Samkvæmt lýsingum á hún að gera kraftaverk og leysa allan heimsins vanda. Einmitt! Ég trúi ekki á neitt svona, ekki neitt. Vil ekki sjáða að borða Herbalife eða eitthvað annað, vil bara borða hollan mat og taka lýsi.

En, með því að taka þrjár skeiðar á dag á kólesterólið að lækka, blóðsykur að jafnast, blóðþrýstingur að lækka og ég veit ekki hvað og hvað. Síðast en ekki síst eiga að fjúka af manni kílóin, bara sísvona!

Ekki veit ég hvað varð til þess að ég lét til leiðast, en þetta með kólesterólið seldi mér 30% - en ég er með hærra kólesteról en togarasjómaður - og þetta með kólóafokið 70%.

Ég er búin að taka þetta samviskusamlega í nokkra daga núna, tja - svona þegar ég man eftir því. Átta mig ekki á því hvort þetta er bara í hausnum á mér eða hvort þetta virkilega virkar, en mig langar ekki stöðugt í eitthvað að borða eða eitthvað sætt. Er á meðan er!

Til vonar og vara þótti mér þó ráð að prófa að búa til hollt nammi sem tröllríður öllu um þessar mundir - gott að eiga eitthvað til þess að troða í sig þegar sykurþörfin tekur yfir. Sá þessa uppskrift hjá henni Sollu grænu.

Upprunalega uppskriftin hjóðar svona:

  • ½ dl hlynsýróp eða hunang
  • ½ dl hnetusmjör
  • ¼ dl kókosolía
  • 1 dl graskerjafræ
  • ½ dl kakóduft
  • ½ dl hampfræ
  • ½ dl kókosmjöl
  • ¼ dl kakónibbur (má sleppa)
  • smá salt

Ég athugaði hvað ég ætti í skápunum og komst asni langt með það. Þurfti þó í búð eftir fræjum og sýrópi og kakónibbum. 

Í Krónunni var ekki til nokkuð sem minnti á hlynsýróp eða hunang frá Sollu, þannig að ég notaði bara gamla, góða hunangið. Hampfræ voru heldur ekki til þannig að ég fjárfesti í fræblöndu og lét það duga. Kakónibbur sá ég heldur ekki, enda finnst mér nafnið eitt og sér hljóma afar illa. 


Ég glutraði svo öllu saman í skál, tróð í lítið form, skar rákir og setti í frost. Útkoman er mjög góð, mjög. Molarnir eru afar sætir og mettandi og slá mjög vel á sætindaþörf mína, svona þegar ég gleymi að úða í mig olíunni.


Prófið!

No comments:

Post a Comment