Tuesday, January 27, 2015

Dásamlega holl og góð hjónabandsæla

Ég bara verð að deila með ykkur uppskriftinni af hollu hjónabandssælunni sem ég bakaði um daginn og hef þurft að endurtaka ítrekað. 


Krakkarnir vita fátt betra en þegar ég baka eitthvað gott þegar þau koma svöng heim úr skólanum. Ég hugsa mikið um næringarsamsetningu þessa dagana og reyni því að finna uppskriftir sem innihalda til dæmis lítið af sykri. 


Með þetta að leiðarljósi eru bækurnar Heilsuréttir fjölskyldunnar alger snilld, en eins og ég hef áður sagt eru þær frábært samansafn af góðum, einföldum og hollum mat. Fyrri bókin er svo sannarlega á fjárhagsáætlun hjá mér í febrúar. 

Hjónabandssæla 

2 dl fínmalað spelt
2 dl haframjöl
1 dl kókosmjöl
1 dl sólblómafræ
1/2 dl hörfræ
1 dl kókospálmasykur, hrásykur eða Eryhritol 
1 tsk vínsteinslyftiduft
180 g mjúkt smjör eða kókosolía 
1 egg
250 g sykurlaus sulta (t.d. frá ST. Dalfour)


Hitið ofninn í 180 gráður

Hrærið eggi og smjöri saman

Bætið öllum þurrefnum saman við og hrærið vel

Þrýstið 3/4 hluta af deiginu í eldfast mót

Smyrjið sultu yfir

Fletjið út afganginn af deiginu. skerið í lengjur og leggið yfir. Einnig er hægt að sáldra deiginu yfir

Bakið í 35-40 mínútur

Hjónabandsssælan sló algerlega í gegn á heimilinu, hjá öllum aldursflokkum. Sjálf hef ég reyndar ekki borðað hveiti, glútein eða sykur í rúma 20 daga þannig að ég hef sjálf ekki smakkað hana, en af lofræðum að dæma ættuð þið að skella einni slíkri í ofninn á morgun.No comments:

Post a Comment