Monday, January 20, 2014

Matseðilsgerð, innkaupaplan og letipasta á mánudegi

Hef oft ætlað mér að setja mér þá skemmtilegu reglu að elda í það minnsta einu sinni í viku, einhverja uppskrift sem ég hef ekki prófað áður. Hef farið vel af stað en svo gleymt mér áður en langt um líður. Ég er þess viss um að sama "vandamálið" sé uppi á fleiri heimilum en hér í B10 - þ.e. að sömu réttirnir rúlli ár eftir ár þrátt fyrir að allt sé yfirfullt af uppskriftabókum- blöðum og upplýsingum á netinu.

Ég las nýverið færslu hjá Facebook-vinkonu minni sem fjallaði um sparnaðarráð í innkaupum. Það fólst í þeirri einföldu aðgerð að setjast niður í ró og næði á sunnudagsmorgni yfir rjúkandi kaffibolla. Fletta bókum og blöðum og skipuleggja matseðil viku fram í tímann (sé fyrir mér í það minnsta fimm daga). Skrifa niður allt sem honum tengist og hægt er að kaupa inn með svo miklu fyrirvara. Vel má þá bjóða fjölskyldumeðlimum í kósýheitin í blálokin og finna í sameiningu  "nýja rétt" vikunnar. Vinkonan mælir svo með því að fara vopnuð skipulögðum innkaupalista í búðina eftir hádegi, barnlaus.

Með þessu vinnst ekki aðeins tími seinnipartinn í annasamri viku, sem annars fer í velta upp þeirri skemmtilegu spurningu "hvað er í matinn" - heldur sparast bæði tími,  fjármunir og geðheilsa að þurfa ekki í búðina á hverjum degi.

Ég hef tekið tímabil eftir þessari snjöllu leið og þá skrifað tilvonandi matseðil á ísskápinn þannig að allir séu meðvitaðir um hvað framundan sé - en með því móti er miklu minna suð og tuð hjá yngri kynslóðinni. Ég hef ekki enn komið mér í réttu stellingarnar, en stefni ótrauð á sunnudaginn næsta.

Í dag - á mánudegi - þegar búið er að rigna stanslaust frá áramótum nennti ég bara ómögulega takk að verja miklum tíma í matarplön eða þá eldamennsku. Fór á eina af mínum uppáhalds uppskriftasíðum, Gulur, rauður, grænn & salt og fann uppskrift af þessu dásamlega letipasta hér, sem hæfir einmitt blautum og köldum dögum sem þessum. Dásamlega einfalt og gott og mjög miklar líkur eru á því að þú eigir allt í réttinn án þess að fara út í búð.

Ég átti einnig tvær lúkur af klettasalati sem ég bauð með og það passaði einstaklega vel við.

Letipasta - ljósmynd og uppskrift gulurraudurgraennogsalt.com





Tuesday, January 14, 2014

Aumingja vesalings drengurinn

Fékk skemmtilega sendingu í dag - kassa frá vinkonu minni sem innihélt slatta af barnafötum frá því Bríet var lítil. Ég var búin að steingleyma tilvist þessara agnarsmáu kjóla, en ég hef alltaf verið dugleg að koma fötum krakkana frá mér.

Við mæðgur dýfðum okkur ofan í kassann, strákarnir höfðu aðeins minni áhuga - svona eins og gerist og gengur.

Smálegt brot af góssi!



Við Bríet höfum ákveðið að klæða afkvæmið í þessi krúttföt, sama hvort kynið verður. 

Monday, January 13, 2014

Stefni á bumbu-bikiniform í sumar





Enginn vakandi á heimilinu nema ég og eftirlegu jólastjarna í glugga. Að sjálfsögðu ekki, enda nótt. Það virðist mig bara ekkert varða um. Þetta er tíminn sem ég gefst upp og fer fram. Borða í leiðinni og svona. 

Umhumm, einmitt. Borða. Las einhvern pistil í dag um að nú væri rétti tíminn til þess að koma sér í bikiniform - bar ekki seinna vænna. Ekki er þverfótað fyrir slíkum færslum, enda árstími fagurra fyrirheita runninn upp. Stöðufærslur um vítamíninntöku, lífræna tómata og kílómetraafrek á hlaupabretti hvert sem litið er.

Staldraði þó aðeins við greinina. Við hana var mynd af einstaklega grannri konu, rass og brjóstalausri. Meira svona eins og fermingarstrákur. Bikiniformið 2014. Það er einmitt það. Er fallegt að vera ekki með neitt hold utan á sér? Nei, nú spyr ég bara eins og fávís kona.

Eins og oft áður mun ég synda á móti straumnum að þessu sinni. Á meðan landinn keppist við að komast niður í sína eigin fæðingarþyngd safna ég bumbu. Risastórri. Stefni á að vera í mínu besta bikiniform í kringum 21. júní. Er einhver keppni við hæfi í gangi?

Wednesday, January 8, 2014

Z óskast


Og ég er andvaka. Ekki að klukkan sé eitthvað brjálæðislega margt, en ef taktur síðastliðinna daga og vikna helst mun Óli Lokbrá ekki mæta á deit með mér fyrr en korter í þrjú - ömurlegur gaur!

Vesenið er ekki nýtt af nálinni, þ.e.a.s. á mínum meðgöngum. Að vísu man ég ekkert frá því ég gekk með Almar Blæ, enda 18 ár síðan - á síðustu öld! Ég efast á stundum stórlega að hafa verið með hann innvortis. Litlu minna eftir meðgöngunni með Bríeti, nema að þá var eins og ég væri stanslaust með ofvirknilyf í æð, svo mikið gekk á í hreiðurgerð ýmiskomar og almennu stússi.

Svefnvandinn hófst í það minnsta þegar ég gekk með Þór, fyrir átta árum síðan. Það man ég. Að vísu var lét hann (vandinn) ekki á sér kræla eins snemma og núna. Ég man ég fór að kvarta yfir þessu við ljósmóðurina sem ég var með þá og hún sagði; "Já essgan, það er bara verið að æfa þig fyrir komandi andvökunætur". Giv-mí-a-breik! Í fyrsta lagi átti ég tvö börn fyrir sem vöktu og voru með almennt vesen allar nætur fyrsta árið og þurfti því ekki á nokkurri æfingu að haldan. Í öðru lagi taldi ég að besti undirbúningurinn hefði verið að hvíla sig meira en þrjá tíma á nóttu, svona áður en þriðja eintakið hóf sambærilegt næturbrölt.

Ég er nú dottin í sama farið. Það er ekki vitund að mér, ég bara get ekki sofnað á kvöldin/nóttunni. Ef þið lumið á einhverjum ráðum um fram það að telja kindur og drekka kamillute, þá já takk.

Monday, January 6, 2014

Drykkfelld verðandi móðir!


Ég er alvarlega drykkfelld þessa dagana. Ekki þannig krakkar, ólétt konan. Drykkfellt á flest allt nema áfengi.

Ég hef aldrei upplifað matardellur eða þá ógeð á einhverjum fæðutegundum á mínum meðgöngum, eins og mér heyrist svo algengt hjá barnshafandi konum. Þessi meðganga er á allan hátt ólík hinum. Ekki nóg með að hafa verið konstant óglatt fyrstu þrjá mánuðina og vera almennt eins og drusla ennþá hef ég svo sannarlega upplifað matarblæti og óþol af öllu tagi.

Þeir sem mig þekkja hvað best vita að vart er hægt að finna meira matargat. Þá sem borðar jafn mikið, hratt og allt sem að kjafti kemur, allan daginn út og inn. Læt nú ekki bjóða mér bita tvisvar, ónei. Eftir að ég innbyrgði barnið hefur matarást mín dalað til mikilla muna. "Þú verður að borða krakki" segir móðir mín. Ég borða alveg, það er ekki málið. En mataráhugi minn hefur með nánast öllu fokið út um gluggann. Ég var yfirleitt farin að láta mig dagdreyma um hvað ég gæti haft í kvöldmatinn strax eftir hádegi. Í dag gæti mér bara ekki verið meira sama. Ég borða allt, en án mikils áhuga.

Eða borða allt. Ég get ekki með nokkru móti borðað gular baunir þessa dagana, eins og ég hafði nú mikið dálæti á þeim. Já, nei - þær eru algerlega dottnar úr tízku. Líka kaffi. Já, þið lásuð rétt. Kaffi. Mitt allra mesta uppáhald til áratuga!

Æsilegri drykkjarþörf virðist hafa verið skipt inná fyrir matarást. Ég vil drekka allan daginn, allan sólarhringinn. Núna til dæmis ruslaði ég mér á fætur til þess að fá mér þrjú glös af undanrennu. Klukkan er 02:06 og ég á að mæta í vinnu eftir sex tíma. Flott hjá mér.

Appelsínusafi, mjólk, undanrenna, kókosvatn og vatn. Eplasafi og sítrónuvatn. Allt goslaust, eitthvað sem hægt er að þamba í miklu magni. Með klaka. Kem vopnuð allskonar fljótandi góssi úr Krónunni á degi hverjum. Langar að baða mig í herlegheitunum. Ekki getur annað verið en að mig vanti kalk eða c-vítamín, slík er áfergjan. Mig dreymir drykki á nóttunni og dettur ekki í hug að tilgreina magnið sem ég læt ofan í mig á dag.

Tilvera óléttrar konu, undarlegt ferðalag.