Monday, January 6, 2014

Drykkfelld verðandi móðir!


Ég er alvarlega drykkfelld þessa dagana. Ekki þannig krakkar, ólétt konan. Drykkfellt á flest allt nema áfengi.

Ég hef aldrei upplifað matardellur eða þá ógeð á einhverjum fæðutegundum á mínum meðgöngum, eins og mér heyrist svo algengt hjá barnshafandi konum. Þessi meðganga er á allan hátt ólík hinum. Ekki nóg með að hafa verið konstant óglatt fyrstu þrjá mánuðina og vera almennt eins og drusla ennþá hef ég svo sannarlega upplifað matarblæti og óþol af öllu tagi.

Þeir sem mig þekkja hvað best vita að vart er hægt að finna meira matargat. Þá sem borðar jafn mikið, hratt og allt sem að kjafti kemur, allan daginn út og inn. Læt nú ekki bjóða mér bita tvisvar, ónei. Eftir að ég innbyrgði barnið hefur matarást mín dalað til mikilla muna. "Þú verður að borða krakki" segir móðir mín. Ég borða alveg, það er ekki málið. En mataráhugi minn hefur með nánast öllu fokið út um gluggann. Ég var yfirleitt farin að láta mig dagdreyma um hvað ég gæti haft í kvöldmatinn strax eftir hádegi. Í dag gæti mér bara ekki verið meira sama. Ég borða allt, en án mikils áhuga.

Eða borða allt. Ég get ekki með nokkru móti borðað gular baunir þessa dagana, eins og ég hafði nú mikið dálæti á þeim. Já, nei - þær eru algerlega dottnar úr tízku. Líka kaffi. Já, þið lásuð rétt. Kaffi. Mitt allra mesta uppáhald til áratuga!

Æsilegri drykkjarþörf virðist hafa verið skipt inná fyrir matarást. Ég vil drekka allan daginn, allan sólarhringinn. Núna til dæmis ruslaði ég mér á fætur til þess að fá mér þrjú glös af undanrennu. Klukkan er 02:06 og ég á að mæta í vinnu eftir sex tíma. Flott hjá mér.

Appelsínusafi, mjólk, undanrenna, kókosvatn og vatn. Eplasafi og sítrónuvatn. Allt goslaust, eitthvað sem hægt er að þamba í miklu magni. Með klaka. Kem vopnuð allskonar fljótandi góssi úr Krónunni á degi hverjum. Langar að baða mig í herlegheitunum. Ekki getur annað verið en að mig vanti kalk eða c-vítamín, slík er áfergjan. Mig dreymir drykki á nóttunni og dettur ekki í hug að tilgreina magnið sem ég læt ofan í mig á dag.

Tilvera óléttrar konu, undarlegt ferðalag.


No comments:

Post a Comment