Friday, January 29, 2016

Eftir einn og hálfan sólarhring verð ég um borð í flugvél Icelandair á leið til Frankurt. Þar mun ég vippa mér yfir í vél sem ber mig til Singapore. Eftir þrettán tíma flug fer ég svo í þriðju vélina sem kemur mér á áfangastað, Bali.

Jebb, Bali.

Af hverju? Með hverjum ertu að fara, af hverju ertu að fara þangað og hvað ertu að fara að gera? Já og síðast en ekki síst, hvar verða börnin þín?! Þetta eru algengustu spurningarnar á Íslandi í dag.

Er von þið spyrjið? Það er ekki eins og ég sé að skreppa til Akureyrar!

Ég er sem sagt að fara í smá skóla á Bali, fyrstu lotu í þerapistanámi sem nefnist "Lærðu að elska sjálfan þig" - prógramm sem ég sjálf er búin að vera í síðan í september þegar líf mitt fór á hvolf, gersamlega.

Ég tók skyndiákvörðun í nóvember að fara í námið og gera það helst á Bali. Í stuttu máli þá setti ég allt á fullt til þess að skoða þennan möguleika, sem yrði þá einnig kærkomið frí eftir ógeðslega þungan vetur. Í ljós kom að ég er að borga í "rétt" stéttarfélag í þessu tilfelli, en AFL borgar nánast allt námið mitt og niðurgreiðslu á fluginu mínu.

Fluginu sem kom mér verulega á óvart að væri ekki dýrara en það er. Það kostar mig tæpar 170 þúsund krónur að koma mér hinu megin á hnöttinn, að fljúga sex leggi, samtals um 20 tíma hvora leið. Það finnst mér ekki mikið svona miðað við það að flug á fullu fargjaldi milli Egilsstaða og Reykjavíkur kostar nánast það sama!

Ég er semagt að fara í nám hjá henni Ósk sem hefur verið með vinsæl námskeið fyrir konur á Bali um nokkurt skeið. Munurinn er sá að ég er ekki að fara á slíkt námskeið, heldur kennaranám og læra það sama og hún.
Ég mun dvelja tvær vikur á stað sem heitir Ubud - en það er einmitt staðurinn sem kvikmyndin Eat, pray, love með Juliu Roberts var tekin upp. Mér skilst að Bali sé alger paradís og ég eigi eftir að upplifa dásamlegar stundir næstu tvær vikur.

Ég er með þessri uppákomu minni að fara ansi vel út fyrir þægindahringinn minn, en ég er afskaplega lítið veraldarvön stúlka og hef til dæmis aldrei ferðast ein gegnum alþjóðlegan flugvöll. Ég er ó-ratvís með eindæmum og villist á Keflavíkurflugvelli ef því er að skipta, þannig að þetta verður eitthvað!

En, með því að gera þetta, ferðast alein, á mér eftir að líða eins og algerum sigurvegara, þar sem ég er búin að búa mér til alveg hræðilega stórt flugvallaskrímsli sem verður frábært að fella.

Og já, ég verð ein á Bali, svona þegar ég verð ekki í skónaum. Ein með sjálfri mér er allt sem ég þarf núna. Þetta þykir með eindæmum undarlegt. Ein. Fólki þykir það undarlegt. Mjög.

Já og börnin mín verða bara hjá feðrum sínum í góðu yfirlæti, en ekki hvað? Ekki á Rauða kross hóteli.
En, nú verð ég að fara að pakka. Ekki seinna en strax þar sem ég fer suður snemma í fyrramálið. Skilst í þessu tilfelli sé kúnstin að pakka nánast í tóma tösku. Er þetta svosem ekki það eina sem raunverulega þarf?

Sjáumst í Ubud.

Saturday, January 16, 2016

ÞorrablótUpp er að renna einn skemmtilegasti viðburður ársins – þorrablótið!

Sjálf er ég þó ekki hokin af reynslu hvað þetta varðar, hef aðeins farið á þrjú blót á Reyðarfirði, eitt á Eskifirði og einu sinni á Kommablót í Neskaupstað. Síðastliðin þrjú ár hef ég setið heima vegna óléttu og ungbarnakveisu en sá hátturinn verður svo sannarlega ekki á núna. Ekki aldeilis krakkar mínir!

Mér finnst allt sniðugt og skemmtilegt við þorrablót. Bara bókstaflega allt.

Í fyrsta lagi treð í mig dragúldnum og súrum þorramat eins og ég sé á svimandi háu tímakaupi við átið og læt ekkert ósnert, nema þá kannski lundabagga. Ég er að miklu leyti alin upp hjá ömmu minni og afa og þar var mér kennt að borða allan mat. Þeim tókst einstaklega vel upp þar, já svona einum of á köflum.

Samfélagið hreinlega breytir um lit meðan þorrablótsundirbúningurinn stendur yfir. Sá hátturinn er hafður á hér á Reyðarfirði, sem og víðar, að fráfarandi nefnd kýs og ljóstrar upp arftökum sínum á blótinu sjálfu.

Sama setningin flýgur svo um loftið hvert einasta ár: „Það verður ekki möguleiki að toppa þetta blót, ekki sjens.“

Svo fara töfrarnir af stað og alltaf verður blótið hverju sinni það lang besta. Það er alveg ótrúlegt hvað einn hópur, sem yfirleitt er þverskurður úr samfélaginu, getur sett upp magnaða sýningu – en í það minnsta er annállinn hér á Reyðó á pari við flottustu sýningar Borgarleikhússins. Metnaðurinn er mikill og nefndarmeðlimir leggja allan sinn tíma, hjarta og sál að veði í margar vikur fyrir lokakvöldið sjálft.

Sjálfri hefur mér ekki hlotnast sá heiður að vera kosin í nefnd þrátt fyrir að hafa búið á staðnum í mörg ár og reglulega fæ ég grátköst vegna þessa, eða svona, þið vitið.

Ég tel ástæðu þess að ég dregst aldrei upp úr hattinum ekki vera þá að ég sé ekki stútfull af skemmtun og hæfileikum sem myndu sóma sér vel á stóra sviðinu, nei, nei, heldur vegna þess að ég er svo sjúklega mikill skítakrakki.

Það er allt of mikið vesen á mér, sem felst í því að ég get alls ekki ákveðið mína persónulegu stöðu í samfélaginu. Ætla ég að vera „par“ eða ætla ég að vera einhleyp?

Þessi djöfulgangur í mér verður þess valdandi að fráfarandi nefnd getur ekki með nokkru móti glöggvað sig á því hvoru megin borðsins ég muni vera að ári og því hvorki hægt að kjósa mig sem „par“ eða þá í annað tveggja sætanna fyrir einhleypa.

Meðan ég get ekki hagað mér mun ég bara sitja úti í sal og njóta. Já, og horfa á sjálfa mig tekna fyrir á sviðinu, eins og alltaf!

P.s. Og hvað. Er nefndin ákveður að sjá í gegnum fingur sér með það að ég sé nýskilin, aftur og nýbúin, og aumki sér yfir mig og kjósi mig, má ég þá ekki komast á sjens á blótinu? 

Ég sem er búin að panta mér svaðalegan „veiðigalla“ að sunnan sko. Sjitt hvað er flókið að vera fullorðinn!


Gleðilega blótatíð!