Tuesday, October 28, 2014

Er stuðningur við nýbakaðar mæður nægjanlegur hérlendis?

 Takk.

Er nú hlaðin ráðum og jákvæðum straumum, en mér bárust vel á annaðhundruð athugasemdir og skilaboð frá mæðrum í tengslum við greinina Vanhæf móðir - en það sýnir bersýnilega að umræðan er þörf!

Fæstar þeirra þekki ég, en allar höfðu þær lent í svipaðri aðstöðu - svefnleysi ungabarna og afleiðingum þess. Ég er þeim afar þakklát fyrir að gefa sér tíma til þess að lesa og deila með mér sinni reynslu og hugmyndum til úrbóta.

Ýmsar tilgátur voru settar fram um óværð Emils, svo sem bakflæði, járnskortur og orkuspenna í íbúðinni. Flest vötn runnu þó til mjólkuróþols og mjög margar reynslusögur greindu frá óværum börnum sem lagast höfðu á örfáum dögum eftir að allri kúamjólk var kippt úr fæðu þeirra.


Litla undurfagra og óværa kraftaverkið mitt.

Margar kvennanna lýstu alvarlegum afleiðingum svefnleysis og ofþreytu - afleiðingum sem geta hæglega haft skaðleg áhrif á heilsuna.

Ein þeirra sagði; "Ég held það sé allt of algengt að mæður missi heilsuna af álagi og ég tel því mjög mikilvægt að tala opinskátt um þessi mál. Ég finn mikla samkennd með þér þar sem ég átti tvíbura fyrir rúmum 17 árum. Ég kláraði sjálfa mig algerlega og einkennin voru einmitt þau sem þú ert að lýsa. Ég uppskar algert skipbrot, slæma vefnagigt og síþreytu sem ég glími enn við í dag. Mitt ráð til þín er að þú fáir fleiri í lið með þér til þess að hugsa um gullmolann þinn svo þú haldir heilsu og fáir svefn. Langvarandi svefn- og hvíldarleysi er einfaldlega stórhættulegt.

Þú ert góð mamma að huga að þessu áður en þú siglir í algert strand, því ég komst á það stig (í stolti mínu að standa mig) að geta ekki sinnt börnunum þegar ég fékk mígrenisköst þar sem ég lamaðist öðru megin, missti málið og sjónin fór í klessu. auk höfuðverkja sem ég hélt að væru að drepa mig. Þetta reyndist vera áreynslumígreni. Svo elsku móðir, settu súrefnisgrimuna á þig svo þú getir verið til staðar."

Þó svo ofangreinda dæmið hafi verið það alvarlegasta sem mér barst voru því miður allt of mörg sem hljómuðu ekki vel - s.s um áfallastreitu og framlengingu fæðingarþunglyndis til margra ára.


Emilstásur - þriggja vikna. Ljósm. Jónína Harpa.

Sjálf lenti ég í atviki síðsumars sem ég hef mikið velt vöngum yfir og ætla ég að deila því með ykkur.

Ég hef barist við kvíðafjanda í mörg ár og upplifði mitt fyrsta kvíðakast fyrir fjórum árum. Ég fór grandalaus að sofa en vaknaði um miðja nótt og hélt ég væri að fá hjartaáfall. Ég lá í rúminu þung eins og blý og fannst eins og ísvatni væri sprautað í hverja æð í líkama mínum. Ég varð dofin í höndunum. Hjartslátturinn var svo hraður og hávær að hann bergmálaði í hausnum á mér eins og kirkjuklukka. Ég átti erfitt með að anda og hélt hreinlega að ég myndi kafna. Orkaði ekki að leita að símanum mínum til þess að hringja í 112 og segja þeim að ég væri að deyja. Staulaðist fram og út á svalir til þess að freista þess að ná andanum. Leit í spegil á leiðinni og dauðbrá - en ég var myntugrængrá í framan.

Sagan endurtók sig svo núna í ágúst, þegar Emil var tæplega þriggja mánaða.

Ég var samviskusamlega látin fylla út þunglyndispróf þegar ég mætti með barnið í mæðraskoðanir, bara svona eins og lög gera ráð fyrir. Það fyrsta þegar hann var sex vikna. Í ljós kom að ég skoraði óþarflega hátt og dansaði á línunni með að vera með fæðingarþunglyndi. Prófin versnuðu heldur í hvert skipti. Í ofanálag bættist svefnleysið. Hjúkkan var yndisleg og tók mig í auka viðtal og sagði mér að ég gæti hringt í sig hvenær sem væri, liði mér illa.

Það var svo einn ágústmorgun þegar barnsfaðir minn var staddur í Reykjavík að mitt annað kast helltist yfir mig. Bara sísvona. Í rauninni þakka ég Guði fyrir að hafa upplifað þetta áður þar sem ég áttaði mig betur á því hvað var að gerast og náði einhverri stjórn.

Það var þó eins og við manninn mælt. Ég varð máttlaus, full af ísvatni, hjartslátturinn rauk upp og ég þurfti út á svalir til þess að ná andanum. Inni lá kornabarnið mitt í vöggunni. Ég þorði ekki að vera ein og hringdi grátandi í hjúkkuna sem kom að vörmu spori. Engill í mannsmynd. Sat hjá mér, bíaði mig og náði mér niður. Hossaði Emil inn á milli. Sagði svo að hún vildi að ég hitti lækni, en það vildi svo til að nóg væri af lausum tímum þennan dag, sem er harla óvanalegt. Bað mig að fara til vinkonu minnar meðan hún færi niður á stöð og útvegaði mér tíma, hún vildi ekki að ég væri ein heima með barnið í mínu ástandi. Hún myndi svo hringja eftir smá og boða mig, vonandi bara fljótlega.

Sem og hún gerði. Hringdi og sagðist miður sín yfir þvi því að hafa lofað læknatíma upp í ermina á sér, en læknirinn vildi ekki hitta mig. Ég hváði og spurði hvort það væri þá ekkert laust. Jú, það var ekki málið, læknirinn vildi bara ekki sjá mig - gæti hvort sem er ekkert gert fyrir mig, nema segja aftur allt það sem hún var búin að segja mér. Hún var gersamlega miður sín og bað mig um að vera í sambandi við sig eftir helgi. 

Ég horfði sljóum, tárvotum augum á vinkonu mína og sagði henni tíðindin, að læknirinn vildi ekki hitta mig. Nýbakaða móður með fæðingarþunglyndi og í kvíðakasti. Hafði líklega eitthvað þarfara að gera. 

Ég leitaði utan minnar heimabyggðar og komst fljótlega í samband við frábæran lækni sem hjálpaði mér og ég er á alveg þokkalega góðum stað í dag.


Mæðgin.

Það sem veldur mér þó frekara hugarangri eru allar þær sögur sem mér voru sendar sem hljóða allt of margar upp á sömu bókina - að konur upplifi ekki nægilegan stuðning innan heilbrigðiskerfisins eftir barnsburð.

Ein þeirra var á þessa leið; "Ég endaði með minn hjá svefnráðgjöfunum niður á Landspítala þegar hann var 10 mánaða. Ég var þaðan send beint niður á Hvíta band með bullandi fæðingarþunglyndi sem ég skrifa alfarið á svefnleysi - sem er jú versta pyntingaraðferð sem til er, eins og þú orðaðir það í færslunni þinni.

Ég man að læknirinn minn skildi bara ekkert í þessu væli í mér, barnið svæfi jú þegar ég labbaði með það í vagninum, gæti ég ekki bara hvílt mig þá?! Já hún sagði þetta í alvörunni! Ég starði bara á hana tómum augum, þar til hjúkkan sagði henni sem betur fer, að hún hefði nú aldrei getað keyrt vagn og sofið á sama tíma.

Fólk verður líka að átta sig á því að maður er ekki að biðja um vorkun eða sé vanþakklátur fyrir heilbrigða, lifandi barnið sitt - heldur aðeins skilning á að þetta er oft alveg drullu-helvíti-erfitt!"
Þetta er aðeins eitt dæmi af fjöl-fjölmörgum sem ég fékk send. Þar sem mæður spyrja sig - og mig- að því af hverju svo mikið kappsmál sé að gangast undir þunglyndisprófin í mæðraskoðun þegar lítið sem ekkert fari í gang í kjölfarið til þess að rétta þær af.

Flokkurinn "nýbakaðar mæður" er þó líklega ekki í verri málum en hver annar innan heilbrigðiskerfisins og sem betur fer í fæstum tilfellum upp á líf og dauða. Ég veit að tímarnir eru slæmir - læknar í verkfalli auk þess sem fæstir nýlæknar kjósa að starfa hérlendis vegna vinnuálags og lakra kjöra.

Finnst þetta svo ergilegt allt saman. Hvar endar þessi vitleysa?

Ísland, best í heimi?

Friday, October 24, 2014

FöstudagsÉg er með botnlausa dellu fyrir Chillisúpu og var þessi borin á borð í B10 í hádeginu. 

Get því miður sjaldan gefið upp heildrænar mataruppskriftir, meira svona dass af þessu og sirka af hinu. Set bara það grænmeti sem ég á, eða er í stuði fyrir hverju sinni. Þó eru þrjú atriði sem alls ekki mega klikka - chilli, hvítlaukur og tómatar. Heilög þrenning líkt og gull, reykelsi og myrra. Annað er aukaatriði, algert. 

Súpa dagsins var nokkurnveginn svona: 

Sex stórir, ferskir tómatar
Fimm hvítlauksrif
Einn stór, ferskur chilli
Íslenskar gulrætur, kannski svona sex
Ein stór, rauð paprika
Einn laukur
Nokkrar kartöflur
Nýrnabaunir

Henti öllu í pott, nema nýrnabaunum. Svissaði smá stund upp úr olíu og bætti svo við vatni og lét sjóða góða stund. Kryddaði með salti, pipar og grænmetisteningum, en þið bara finnið út hvað ykkur þykir best. Nýrnabaunirnar þurfa ekki í pottinn fyrr en rétt í restina. 

Af því föstudagar eru uppáhalds bauð ég upp á harðsoðin egg út á. Já og ost. Laumast oftar en ekki til þess að setja fjórar, fimm eða sex ostsneiðar á diskbotninn sem bráðna
 dásamlega saman við herlegheitin. Fæ sæluhroll við það eitt að skrifa bráðinn ostur. 

Geri oft fullan pott af súpunni á sunnudagskvöldum til þess að eiga í hádeginu eitthvað fram í vikuna. Eins og flestar súpur er þessi enn betri upphituð. Hún tekur oftar en ekki breytingum frá degi til dags, gott er að bæta í kjúklingi, hakki eða öðrum baunum. Einnig að hakka allt lauslega saman í matvinnsluvél og bera fram með sýrðum rjóma.Emil græðir undantekningarlítið eitthvað prjónles hvern föstudag. Í dag kom amman færandi hendi með einstaklega kósý "vagnsokka". Eeh, látið sem þið sjáið ekki slefið á barninu, það hefur aðeins gleymst að setja á hann smekk í nokkrar mínútur. Hæglega væri hægt að virkja með munnvatnsflæði hans.Jólin eru loksins komin í IKEA. Hélt þeir ætluðu bara ekki að hafa það af að koma þeim upp. Landsbyggðarbúseta á vissulega sína kosti en einnig sína arfaslæmu galla. Einn þeirra er 700 kílómetra fjarlægðin við sænska himnaríkið.
Hef þó lært að lifa með þessu og fer í mína verslunarleiðangra á IKEA síðunni. Oftar en ekki við kertaljós og með rauðvínsglas innan seilingar. Prýðilegt bara. Gerði jólainnkaupin áðan og aðventubakkinn minn mun skarta rauðum "heimaprjónuðum" kaðlakertum. Fyrsta stútkannan hans Emils er komin í hús. Neyðist hér með til þess að uppljóstra enn eitt stórundarlegt blæti mitt.

Veit fátt skemmtilegra en að skoða og kaupa ungbarnahluti á borð við snuð, pela, könnur og naghringi. Sogast að þessum rekka í apótekinu þar sem ég get eytt óþarflega miklum tíma í að spá og spekúlera. Held að mér sé meira kappsmál að barnið hafi snuð til þess að ég geti bætt í safnið, heldur en af praktískum ástæðum. Vandræðalegt.
Þessi beið mín svo í Krónunni í dag. Nóa Sírius bæklingurinn er jafn órjúfanlegur hluti jólaundirbúningsins og skatan. Nei, segi það nú kannski ekki, en fæ alltaf hlýtt í hjartað þegar ég sé hann bíður mín við kassann.

Af gefnu tilefni. Það eru aðeins 60 dagar þangað til ég mun troða í mig svo mikilli kæstri skötu að maginn á mér logar eftir, Elsku Þorláksmessa, besti dagur ársins.

Njótið helgarinnar. 

Tuesday, October 21, 2014

Vanhæf móðir

Í það minnsta finnst mér ég vera það þessa dagana. Og vikurnar. Vanhæf móðir.  

Af hverju? Nú, ég ræð engan vegin við tæplega fimm mánaða gamlan son minn. Barnið sefur ekki, hvorki að nóttu né degi. Eins og einhverjir lásu hér fyrr í haust hélt ég úti einka-svefnkennslu fyrir Emil, en allt kom fyrir ekki. Já, bara alls ekki!

Er búin að reyna öll trixin í bókinni. Öll. Gefa ábót, gefa að borða, stytta dúra, færa dúra, snudda, rugga og sofa í öðru herbergi. Emil Gíslason varðar akkúrat ekkert um þetta vandamál. Hann bara heldur sínu striki og vaknar á 50 mínútna fresti á nóttunni og sefur kannski í tvo tíma yfir daginn með því að skrapa öllum ördúrum saman. Vaknar að vonum dragúldinn og pirraður og er eins og heftiplástur á mér allan daginn án þess að ég hafi nokkra innistæðu til þess að vera með hann stanslaust í fanginu. 

Hvernig má það vera að þessi draumfallegi og dásamlegi drengur sé svo baldinn?

Nú hugsa nýjir lesendur. Æji greyið, fyrsta barn ossonna, byrjunarhnökrar. Já, nei, nei. Litli púkinn er mitt fjórða barn. Vantar ekki reynsluna, er hokin. 

Hin voru reyndar svona líka, kol-vita-vitlaus fyrsta árið. Ástandið kemur mér því ekki á óvart en verð þó að viðurkenna að ég eygði örlitla von um að örverpið myndi hugsanlega haga sér. 

Bríet
Til dæmis um það fór ég með dóttur mína til barnalæknis þegar hún var tíu mánaða og spurði hann hreint út hvort mögulegt væri að barnið væri andsetið. Það fannst ekkert að henni, hún bara svaf ekki og var vansæl. Um sama leyti fór ég ásamt fleirum á fótboltaleik til Liverpool. Sofnaði yfir You never walt alone meðan aðrir grétu. Er líklega eini íslendingurinn sem hefur hrotið á Anfield.  

Á meðgöngu á ég sjálf við svefnvandamál að stríða. Gersamlega óþolandi. Ekkert að angra mig, nema ég bara sef ekki. Telst því til að ég sé ekki búin að ná djúpsvefni í átta eða níu mánuði. 

Svefnleysi hefur einnig alvarleg áhrif á geðheilsu og þráðurinn þessa dagana því hvorki langur né þykkur sem svo auðvitað bitnar á þeim sem síst skyldi. Er skíthrædd um að klessa algerlega á vegg einni daginn.

Get ekki meira. Er alveg pass. Svefntruflanir eru pyntingaraðferð í sumum fangelsum. Ég er ekki hissa, þetta er ógeðslegt. Vaknaði með hjartsláttartruflanir í vikunni vegna ofþreytu, Líður alla daga eins og ég hafi verið á blindafylleríi kvöldið áður. Finnst eins og ég með moð í hausnum og hangi í lausu lofti inn í sápukúlu. Man ekki neitt. Langar að láta leggja mig inn á sjúkrahús eða heilsuhæli og sofa og sofa. Þar til um jól. 

Ansi margir dagar fara fram á náttfötunum. 

Ekki misskilja mig - ég sé ekki sólina fyrir litla undrinu, en viðurkenni þó að ég myndi njóta enn frekar ef ég mér liði ekki eins og ég sé bara skynvilla. 

Hjálp. Ef einhver þekkir svona fígurugang í ungabörnum eru öll ráð vel þegin hér í kommentum, nú eða í skilaboðum á Facebook síðu bloggsins, sem ég hvet alla endilega til þess að "læka"

Monday, October 20, 2014

Jólalög dulbúin sem "sumarsmellir"Fyrsti snjórinn er kominn á Reyðarfirði. Það sem hundslappadrífan féll falleg og friðsæl til jarðar.

 Stóðst ekki mátið að taka mynd af þessu krútthúsi sem ég átti leið hjá. Fannst ég um stund vera sögupersóna í bók eftir Asdrid Lindgren, búsett í Smálöndum. Á jólunum.

Snjórinn rammaði enn frekar inn jólaskapið sem helltist yfir mig um helgina, likt og vatn úr skúringafötu. 


 Eftir miðjan október eru einfaldlega komin jól í mínum kokkabókum. Rúmlega tveggja mánaða aðventa. Alltaf sama kitlandi tilfinningin.

Laumaði þessu seríuhrúgaldi í gluggann fyrir helgi svo lítið bæri á.


Reyni alltaf að pukrast með þetta ár hvert eins og laumu-reykingarmaður. Er ekkert sérlega góð í því, en reyni. 

Erfi þetta líklega frá móður minni sem alltaf var farin að hlusta á jólaplötu Brunaliðsins, Með eld í hjarta, fyrir allar aldir. Pálmi Gunnars og Ragga Gísla. Ahhhh. 

Heilkennið virðist svo hafa hoppað lóðbeint yfir í börnin mín. Mikið var ég ánægð í fyrra þegar unglingurinn minn útbjó jólalagalista á Spotifi, dulbúinn sem "Sumarsmellir". Það er töluvert síðan við mæðgin fórum að smella honum á fóninn í haust og tókum við góða rispu á honum síðasta föstudag. 


Tengdamóðir mín kórónaði svo allt saman í gær með því að bjóða okkur í hamborgarhrygg, brúnaðar kartöflur og jólabland í hádeginu í gær. 

Lyktin, bragðið, fegurðin. Nánast jólin. Alls ekki misskilja mig. Rjúpur eru sjálf jólin. Og skata. Hamborgarhryggurinn svona milli jóla og nýárs. En samt. 


Elsku, kveikið á kertum og njótið skammdegisins.

Friday, October 17, 2014

Föstudags

Ó elsku föstdagar, Svo kærkomnir. 


Ákvað að breyta út af vananum og hvíla heilsubrauðið sem ég baka flesta föstudaga fyrir mömmu. Í dag var einnig von á fleiri gestum og því fátt annað í stöðunni en að henda í kjúklingasalat. 

Það spila ég oftast af fingrum fram. Í dag steikti ég fjórar bringur með með heilum chilli, fullt af hvítlauk og slettu af þessari hnetusósu.  


Auk þess heilan poka af blönduðu salati, papriku, tómata, rauðlauk, avakadó og fetaost.  

Punkturinn yfir i-ið er þó dressingin;

2 hvítlauksrif
Hunang (ca ein góð teskeið)
Dijon sinnep (ein teskeið)
Ólifuolía (dass)
Balsamikedik (dass)

Smakkist til út frá því hvort þið viljið hafa hana sæta, súra, eða sterka - eða dásamlega "passlega". Hefði vel getað troðið þessu fati í mig alveg ein og óstudd. 


B10 minnti einna helst á félagsmiðstöð um hádegisbilið þegar mér taldist til að um tíu manns hefðu verið samankomnir. Gaman, gaman. 

Hér má sjá ömmu Jónu vera að segja einhverja brjálæðislega skemmtilega sögu!Tvíburarnir og bestu vinir Emils - Þóroddur Björn og Björg Inga létu sig ekki vanta. Hér er þó um "sviðsetta mynd" að ræða, eða úr þeirra húsi í liðinni viku. 

Emil þykir mikið til þeirra koma, enda fimm mánuðum eldri. Finnst Þóroddur fyndnari en allt sem fyndið er. 

Hefur þó ekkert í þau eins og er og verður að láta það yfir sig ganga að þau finni sig knúin til þess að hafa allt það dót sem hann er með - liggur bara eins og kartöflupoki á gólfinu. 

Leikar munu þó jafnast fljótlega og spáum við mæður þeirra að um sérlega fjörugan árgang verði að ræða!


Börnin heim!

Ekkert í heiminum betra, en aðskilnaðurinn kemst aldrei nokkurntíman upp í vana. Menntskælingurinn, sjöundi bekkingurinn og fjórði bekkingurinn. Að fá knús á hverju horni, hlátur og líf í kotið. Emil er heppinn strákur að eiga slíkan hóp. 

(Hér er einnig um sviðsetta mynd að ræða - tekin fyrir tæpu ári á 11 ára afmæli Bríetar.)


Í dag gerði ég einnig góðverk. Hér má sjá íþróttaskó húsbóndans, örlítið slitnir og bera merki um mikla notkun. 

Hann tók upp á því í vikunni að fara í þrektima klukkan sex á morgnana. Já, um miðja nótt. Kom heim og sagðist þurfa að æla á mánudagsmorguninn og hefur nánast ekki komist klakklaust upp og niður stiga alla vikuna. 

Hvað gerir besta kærasta í heimi þá? Gat hún látið sinn vera ælandi, haltan af harðsperrum OG í götóttum skóm. Nei er það?


Hans beið því pakki við heimkomu í dag. Mikið er ég góð!

Góða helgi. 

Monday, October 13, 2014

Kaizen á verðandi unglingaherbergi


Kaizen er skemmtilegt orð sem ég lærði og notaði mikið þau ár sem ég vann í mannauðsteymi Alcoa Fjarðaáls. Orðið er japanskt og merkir stöðugar umbætur og var notað um skilgreinda umbótaviðburði víðsvegar um verksmiðjuna. 

Ég er afskaplega mikið fyrir að "kaizena" heima hjá mér og hef alltaf verið. Stöðugar umbætur. Líður aldrei betur en þegar ég er búin að tæta innan úr skápum og skúffum - henda, flokka, endurskipuleggja og litaraða. Nei, kannski ekki alveg, en svona allt að því. 


Á haustin umturnast skipulagsfíkillinn í mér og heimilismeðlimir hafa ekki farið varhluta af hamförum síðustu vikna. Eldhúsið kaizenað, hansahillurnar á ganginum fengu að finna fyrir því sem og flestir skápar og skúffur íbúðarinnar. 

Blessuð börnin eru þó löngu hætt að kippa sér upp við þetta og láta sér fátt um finnast. Einn daginn þegar Bríet kom heim úr skólanum spurði hún hvort ég gæti hjálpað sér að "kaizena" herbergið sitt.Mig hafði lengi klæjað í puttana að fara þangað inn en hafði einmitt vonað að hún bæri þessa stórskemmtilegu hugmynd upp sjálf! Verður 12 ára í desember og er því á mörkunum að vera barn og unglingur. Inni hjá henni kenndi ýmissa grasa sem hún vildi fara í gegnum og setja í geymslu.  

Ja, ekki stóð á mér. Við stálumst í nammi og hún tjúnaði upp unglinga-playlista af Spotify. Almáttugur minn. 


Bollastellið, dúkkurnar og ýmislegt annað fer nú í geymslu og bíður betri tíma. 
Við vorum í miklu stuði og allt varvoðalega smellið.Bríet minnir mig ansi mikið á sjálfa mig á þessum aldri - hún er sífellt að hanna hús og híbýli. Ætlar sér að verða arkitekt eða listamaður. 

Unnum eins og berserkir í einn og hálfan tíma. Emil fann að honum var ofaukið og svaf úti í vagni mestan hluta tímans. Þegar Þór skrönglaðist heim úr skólanum vorum við að klára og sýndum honum árangurinn, afar upp með okkur. 

Hann horfði í kringum sig, svo á Emil sem hafði verið lagður á teppi á gólfinu og sagði; "Létuð þið Emil liggja þarna allan tímann?" Daddara! Allt þetta á leiðinni í geymslu. Herbergiseigandinn var alsæll eftir og sagðist geta hugsað skýrar í herberginu sínu núna. Það sem ég skil hana. 


Rokk on - áfram Kaizen. 

Friday, October 10, 2014

Föstudags

Móðir mín heiðrar mig alltaf með nærveru sinni á föstudögum. Kemur og hossar Emil ásamt því að drekka ótæpilegt magn af kaffi mér til samlætis. Ferlega notarlegt.

Það er orðin órjúfanleg hefð að baka þetta brauð fyrir þessar samverustundir.


4 dl spelt
2 dl tröllahafrar
1 dl graskersfræ
1 dl sólblómafræ
1/2 dl hörfræ
1/2 dl sesamfræ
5 döðlur - skornar í litla bita
2 tsk vínsteinslyftiduft
1 tsk sjávarsalt
4 dl Ab-mjólk

Blandið öllu saman, skellið í jólakökuform og bakið við 180 gráður á blæstri. Í 40 mínútur, 

Etið upp til agna. Rosa gott með kotasælu, smjöri og osti, já eða bara hverju sem er. 

Ég fer nú oftar en ekki frjálslega með uppskriftina, set bara þau fræ sem ég á hverju sinni. Einnig aðeins meira af döðlum, já eða svona helmingi! Í dag átti ég ekki Ab-mjólk og setti bara vatn í staðinn, fann ekki að það skipti nokkru máli. Strái svo pínu Maldonsalti yfir deigið áður en ég set það í ofninn.

Er alltaf á leiðinni að prófa að skipta döðlunum út fyrir grænar ólífur. 

Uppskriftin kemur upphaflega úr bókinni Heilsuréttir fjölskyldunnar eftir Berglindi Sigmarsdóttur, en hún og fyrri bókin hennar eru skyldueignir á hverju heimili. Það var þó nágrannakona mín sem kom mér á bragðið en hún kom færandi hendi með brauð í körfu einn daginn, alveg eins og í amerískri bíómynd. Tengdamamma kom frá Noregi í vikunni. Hún kom ekki tómhent heim. Ó nei. Það sem börnin græddu, maður lifandi. Lengi lifi H&M og Lindex. Fyrstu jólagjafirnar duttu inn um lúguna í dag. Já ég er byrjuð. Mig dreymir reglulega mikinn óreiðudraum, þar sem komin er Þorláksmessa og ég ekkert farin að gera. Vondur draumur fyrir steingeitur. Grét aðeins í morgun. Það er svo sem engin nýlunda. Nú yfir viðtali við Bubba Morthens í Fréttatímanum. Ég hef aldrei verið mikill aðdáandi Bubba eða tekið hann mjög alvarlega. En í dag felldi ég tár yfir sögu hans af því þegar kona hans fæddi andvana barn. Að missa barn er martröð allra foreldra og ekki auðveld lesning fyrir ósofnar ungbarnamæður. Úff. Já, ég fór svo í klippingu á mánudaginn. Ég sem var að safna! Hafið þið heyrt þennan áður? Ætlaði að safna jafnsíðu hári, alveg langt niður á bak. Svona eins og allir. Þegar ég var búin að skarta gosbrunni í marga mánuði til þess að ná niður toppfjandanum, var mér allri lokið. 

Átta mig svo alltaf á því í miðju hársöfunarferli að mig langar alls ekki neitt í jafnsítt hár. Finnst bara akkúrat ekkert spennandi við það og alveg laust við allan karakter. 


Já það er alveg krúttlegt. En ekki til lengdar. Alls ekki heldur þegar hárið fýkur af manni eftir barnsburð og liggur í sátum út um alla íbúð. Jesús minn. 

Um síðustu helgi fórum við í heimsókn til mágkonu minnar og fjölskyldu á Egilsstöðum. Toppurinn var að buga mig, gersamlega. Ekkert annað var í stöðunni en að fara inn á bað og stela eins og tveimur hárspreygusum. Eitthvað frekar lélegt sprey svona, greinilega ekkert verið að splæsa í "extra hold". Fór fljótlega aftur. Dassaði vænni gusu. Tók svo eftir því að alls ekki var um hársprey að ræða, heldur svitasprey húsbóndans. Einmitt. 12 stig. 


Ég er komin heim. 

P.s. Þessi ætlar að vera hjá mömmu sín um helgina. Ahhh. Barnið skutlaði mér út í bæ áðan og af því tilefni splæstum við í eina rándýra sjálfu. 


Góða helgi. 

Wednesday, October 8, 2014

Ekki gera ekki neittAuglýsingaherferð Krabbameinsfélagsins hefur líklega ekki farið fram hjá neinum, en þar er leitað að stúlkum sem ekki hafa farið í leghálsskoðun.

Sjálf hef ég verið nokkuð samviskusöm að mæta í skoðanir þegar kallið kemur. Það er líka eins gott.


Haustið 2012 fór ég í hefðbundna skoðun og fékk í framhaldi bréf þess efnis að greinst hefðu vægar frumubreytingar.

Ég verð að viðurkenna að í augnablik fór tilveran á hvolf - en ég á það til að "láta vindinn ráða för" hjá hugsunum mínum og þá semja heilu sápuóperurnar á örfáum mínútum. Já, ég eiginlega bara afskrifaði mig. Fólkið mitt og sérfræðingar báðu mig lengstra orða að róa mig í það minnsta um 90%, þar sem vægar breytingar sem þessar gengu oftar en ekki sjálfkrafa til baka. 

Eftir endurmat nokkrum mánuðum síðar kom þó í ljós að breytingarnar voru enn til staðar og því keiluskurður nauðsynlegur. Aftur fór sápuóperugerðin í fluggír. Kæmist fyrir þetta? Gæti ég átt fleiri börn? Myndi ég yfirhöfuð bara vakna aftur? 

Skurðlæknirinn kom mér aftur niður á jörðina. Þessi aðgerð væri ekkert mál - allar líkur væru á því að eftir hana væri vandamálið úr sögunni, barneignir yrðu venjulega ekki vesen og jú, ég myndi vakna hressari sem aldrei fyrr. 

Allt þetta stóð heima. Ég vaknaði "fresh-fresh" og okkur að óvörum plantaði litli laumufarþeginn sér innra með mér aðeins nokkrum vikum síðar. 

Nú, rúmu ári síðar fór ég í mína fyrstu skoðun eftir aðgerð. Bréfið sem beið mín í forstofunni á mánudaginn var því afar kærkomið. 


Hæ hó jibbí jei! Emil samfagnaði með því að snúa sér í fyrsta skipti á magann. Það sem hann var hissa af afreki sínu. Og montinn!
Elsku þið allar. Ekki gera ekki neitt. 

Ef þið eruð ekki búnar að fara, pantið þá tíma strax á morgun - en hér er að finna allar upplýsingar. 

Þetta er ekkert mál. 

Það getur hins vegar orðið að máli að fara ekki. 

Tjobb, tjobb.