Sunday, September 28, 2014

Svefnskóli Kristborgar Bóelar tekur til starfa

Svefnskóli Kristborgar Bóelar tekur til starfa hér í Bakkagerði 10 á mánudagsmorgun. Klukkan níu að staðartíma, stundvíslega. Aðeins einn nemandi er skráður í námið - Emil Gíslason, tæplega fjögurra mánaða.




Hér má sjá umræddan nemanda. Þó svo hann virki sakleysislegur hefur hann verið töluvert til vandræða upp á síðkastið og telja foreldrar hans að nú sé nóg komið af fígúrugangi.

Þó svo að næturnar hafi hafi alltaf verið frekar skrautlegar hefur steininn gersamlega tekið úr að undanförnu þegar hann hætti með öllu að sofa á daginn, nema í svokölluðum "powernap-dúrum". Þeir hafa ekki verið að gera nokkurn skapaðan hlut fyrir neinn, hvorki umönnunaraðila né þá hann sjálfan þó síður væri.

Unnið verður eftir bókinni Draumalandið eftir Örnu Skúladóttur. Byrjað verður á því að koma nemanda í ásættanlega rútínu á daginn og lengja lúra. Því næst að fækka næturgjöfum, en þá verða allir svo rosalega glaðir.


Hér má sjá handskrifaða stundarskrá sem hangir nú á ísskápnum. Ehh, já. móðir mín myndi hér segja; "Í Guðanna bænum barn, reyndu að skrifa svo það skiljist."

Emil virðist þó með einhverjum hætti skynja hvað liggur í loftinu, en hann tók sér til og svaf þrjá tíma úti í vagni í dag. Ég endurtek, ÞRJÁ TÍMA, en hann hefur einvörðungu splæst í 10-40 mínútur í einu síðustu tvo mánuði.

Amma hans er æsispennt og hyggst keyra alla leið frá Stöðvarfirði á morgun til þess að fylgjast með kennslu. Verður hún að öllum líkindum umsvifalaust skipaður prófdómari.

Spennandi tímar. Æsispennandi.




No comments:

Post a Comment