Friday, September 5, 2014

Með rassakrem á enninu


Þarna má sjá Emil Gíslason. Með olíu í hárinu, ekki brilljantín. Í dag fór fram töluverð aðgerð sem miðaði að því að minnka skán á höfðinu sem oft vill koma hjá ungum börnum. Verkið fólst í því að maka olíu í hársvörðinn, greiða ósómann úr og enda svo allt saman með baðferð.

Ferlið hófst reyndar í gær. Við hárlínuna var Emil einnig með einhverskonar þurrk sem ég gat ekki lengur látið óáreittan. Bara ekki. Tók því til minna ráða og ákvað að bera sérhannað barnarakakrem á ennið. Málið steindautt.

Eitthvað gekk illa að koma kreminu inn í húðina. Emil var þó óvenju slakur og virtist njóta andlitsbaðsins. Kann gott að meta. Þegar við vorum í miðjum klíðum kom Bríet heim úr skólanum.


Bríet: Hvað ertu að gera?

Ég: Bara reyna að losna við þennan þurrk.

Bríet: Af hverju ertu að bera rassakrem á ennið á barninu?!

Ég: Rassakrem? Þetta er ekkert rassakrem. 

Bríet: Iiii, jú! Þetta er sama kremið og var alltaf borið á rassinn á Rúnari (lítill bróðir föðurmegin)


Móðir ársins. Smurði rassakremi framan í barnið sem ætlað er að blokkera bleytu frá húð. Uppskar því ekkert nema hvítar kremklessur ofan í þurrkinn og barn sem leit út eins og trúður.

Bríet, hún er alltaf með hlutina á hreinu - enda mamma númer tvö. Guði sé lof.

No comments:

Post a Comment