Wednesday, February 19, 2014

Vaxa hár, vaxa...

Vaxa hár, vaxa. Fer með þessa möntru oft á dag um þessar mundir. Hef enga þolinmæði fyrir hárvexti almennt. "Já, en þú ert búinn að vera að safna hári síðan við kynntumst fyrir tveimur árum," segir Gísli þá.

Já, já - díngadíngadong. Það má vel vera, ég sko bara klippi mig alltaf í millitíðinni. Eða ekki ég beint, heldur Helena vinkona mín, það er kannski of auðveldur aðgangur að henni fyrir mig. Það má vera, en því ætlum við ekki að breyta.

Hef svosem verið allskonar gegnum tíðina, með sítt, stutt, hanakamb, litað og ólitað. Nú síðustu fimm ár hef ég ekkert litað það og er mjög fegin að vera komin út úr því. Reglulega, já mjög reglulega, fæ ég einhverjar klippidillur sem ég verð að framkvæma þá í síðasta lagi eftir hálftíma. Þess vegna gengur svona illa að safna.Þarna er ég einmitt ásamt Helenunni minni. Við erum ekki með gulu, þetta er bara myndatakan sko...Er yfirleitt með topp. Enda alltaf þar aftur eftir að hafa gert ýmsar heiðarlegar tilraunir til þess að safna honum. Nú langar mig að safna. Uhumm, gangi mér vel. Rosa vel bara. Langar að safna topp og alles. Jebb, gangi mér enn betur.

Ekki þó halda að ég stefni á því að safna jafnsíðu hári og vera bara þannig, það gerir bara ekkert fyrir mig. Oj, ekki sjens.


Ó hvað hún er ótrúlega fín. Finnst "axlasítt með djúpri hliðarskiptingu" gasalega smart þessa dagana. Gæti jafnvel hugsað mér að fá mér lit og láta öllum illum látum. En, til þess þarf ég að safna topp, sem er þrautin þyngri.

Ég svoleiðis finn toppinn á mér vaxa, eins og arfa!
Tuesday, February 18, 2014

ELLA

Það er snúið að vera sérvitur á ilmvötn. Þá meina ég sérslega sérvitur, eiginlega alveg óþolandi sérvitur.

Ég hef alltaf haft sterkar skoðanir á því hvernig ilmvötn ég vil nota og ekki er það fræðilegur möguleiki fyrir vini, ættingja eða jafnvel kærasta að velja slíkt handa mér. Lyktin mín á að vera heit, sæt og krydduð, en ekki of þung. Get ekki lýst því betur. Nokkrar í heiminum hafa þóknast mér gegnum tíðina, en það versta er að þær hætta yfirleitt í framleiðslu þegar ég hef loks fundið þær.


Síðasliðið ár hef ég notað Flowerbomb frá Victor&Rolf - Extreme Perfume. Mér finnst hún mjög góð en fæ hana bara í Fríhöfninni og þar sem ég er nú ekki þar á hverjum degi er það nú búið.

Svo ég komi mér nú að máli málanna. Fyrir jól rakst ég á tvo ilmi frá íslenska framleiðandanum ELLU, annarsvegar ELLA-day og hins vegar ELLA-night. Til þess að flækja söguna enn frekar, þá komst ég svo að því að þriðji ilmurinn var til, ELLA-V, en það er sá nýjasti.
Nú var ég komin í töluvert vesen, þar sem V er ekki fáanlegur hér fyrir austan, en mig langaði að prófa hann þar sem ég hefði heyrt mjög góðar sögur af honum sem rímuðu afar vel við mínar þarfir.

Ég hafði þvi samband við stelpurnar í ELLU í Reykjavík og þær voru svo elskulegar að senda mér þrjú pínulítil glös með öllum lyktunum til þess að átta mig. Skemmst er frá því að segja að ég er fallin fyrir V. En, hvað? Auðvitað er hann uppseldur í bili. Kemur kannski aftur, já líklega, en ekki strax. Ó mig auma. Það hlaut að vera að ég félli enn einu sinni fyrir einhverju ófáanlegu.

En, ég má til með að hrósa ELLU fyrir frábæra þjónustu, að senda mér pakka ásamt fallegu bréfi. Þessa stundina er ég að gera það upp við mig hvort ég á að kasta mér á Day eða Night, hallast að nóttinni, hún er meira ég.


Ef einhver hefur rekist á glas af V í einhverri búð, þá má hinn sami láta mig vita. Ó, takk!

Sunday, February 16, 2014

Þjóðhátíðaprins á stærð við stórt mangó


Samkvæmt vísindalegum útreikningum er ég nú á 23 viku meðgöngunnar. Á mannamáli merkir það að ferlið sé rúmlega hálfnað. Samkvæmt babycenter.com er þjóðhátíðaprinsinn nú á stærð við stórt mangó, en þar eru mælieiningar viku fyrir viku allar tengdar við grænmeti og ávexti - pínu spes!

Mér finnst ég hins vegar freakar búin að vera ólétt í 23 mánuði. Endalaust. Það er magnað hvað þessi tími er lengi að líða. Er þó vissulega farið að líða mun skár en fyrst- sofna ekki standandi hér og þar eða er um það bil að æla á næsta mann, alltaf.

Mamma fór að versla fyrir helgi og var þar tjáð, algerlega í óspurðum fréttum, að 38 ára gömul kona væri allt of gömul til að standa í barneignum. Það fauk í mína og svaraði því til að þar væri hún ósammála og ég væri örugglega bara ekkert hætt að eignast börn. Mamma, sér um sína!

100 hamingjudagar - 5

Gladdi mig einstaklega mikið að sjá til himins í morgun og sólina læðast yfir fjallatoppana, en það hefur ekki gerst siðan fyrir krist, svona sirka. Við hjónaleysin lufsuðumst meira að segja í göngutúr og allt...
Matarboð dagsins var svo einnig sérlega kærkomið, en ég veit fátt betra en að nýta sunnudagana í að klessast með góðum vinum.
Aftur á móti áttaði ég mig á því í morgun að þessi 100 daga áskorun hentar mér ekki. Finnst hreinlega leiðinlegt að blogga ef "ég á að gera það". Líður svona svipað og þegar ég var í tónlistarskóla hér í denn og átti að læra nótur. Fannst það svo leiðinlegt að ég gerði það ekki, vildi bara spila eftir eyranum. Var rekin úr vistinni fyrir rest.

En, hugmyndin er skemmtileg, en ég hef ákveðið að spila þetta bara eftir eyranu.

Saturday, February 15, 2014

Hundrað hamingjudagar - 4

Það er fátt sem er betra en glansandi hrein íbúð eftir hádegi á laugardegi. Gleður mitt litla hjarta. Fram skal tekið að hún var ekki svona fyrir hádegi.


...

Friday, February 14, 2014

100 hamingjudagar - 3

Átti stefnumót við þennan í hádeginu í dag...


...á Salt þar sem ég tróð í mig þessum borgara og meððí. Á methraða...


Þó svo matur veiti mér alltaf mikla gleði, þá er hann sérstaklega ánægjulegur í svo góðum félagsskap. Þakka á hverjum einasta degi fyrir að eiga svona eldgamalt barn. Það er frábært!

Thursday, February 13, 2014

100 hamingjudagar - 2

Átti óvænta gæðastund með Bríetarbarninu í gær. Hún kom með mér á Eskifjörð seinnipartinn í vinnuerindum, en ég fór til þess að taka myndir á æfingu fyrir tónleika sem fram fóru í Menningarmiðstöðinni í gærkvöldi. Þar tróðu upp krakkar allsstaðar af Austurlandi, en þeir hafa verið á hljómsveitarnámskeiði upp á síðkastið. Sérstakur gestasöngvari var Jóhanna Guðrún og gátum við blaðakonurnar það ekki látið fram hjá okkur fara að taka smá viðtal við hana.

Skemmst er frá því að segja að við Bríet höfum eignast nýja uppáhalds söngkonu og urðum við svo skotnar í henni að við brunuðum á tónleikana líka, eftir að hafa heyrt brot af þeim í síðdegis. Krakkarnir stóðu sig einnig frábærlega og enginn þarf að örvænta að tónlistarlíf á Austurlandi verði ekki blómlegt í framtíðinni.

Þetta byrjaði nú allt á því að Jóhanna Guðrún söng eitt af mínum uppáhaldslögum með annarri ungri söngkonu og hljómsveit - lagið People get ready í útsetningu Evu Cassidy sem er mitt allra mesta uppáhald. Asnaðist ekki til þess að taka það upp, en hér er Evu-útgáfan.


Þessar eru pínu flottar! Bríet var með stjörnur í augunum þegar Jóhanna Guðrún lýsti mikilvægi þess að stutt væri við bakið á ungu tónlistarfólki og að það fengi tækifæri til þess að koma fram. 


Alltaf batnaði það! Haldiði að nýja vinkona okkar hafi ekki tekið upp á því að syngja mitt uppáhaldslag í öllum heiminum - Songbird, einnig í Evu Cassidy útgáfu. Tók það upp á símann minn en næ því miður ekki að koma því hér inn, þrátt fyrir mikla tæknilega aðstoð til mín í morgun. Ég veit, þarf eitthvað að læra betur á þetta allt saman. Auk þess er myndbandið svo hrist, af því ég þurfti að gráta svo mikið úr fegurð - og hormónum! En, hér má sjá hana syngja lagið mitt dásamlega, algerlega óhrist. 

Já krakkar, það eru svona móment - akkúrat svona sem veita hamingju. 

Wednesday, February 12, 2014

100 hamingjudagar - 1


Nú gengur sem eldur í sinu áskorunin á samfélagsmiðlunum sem ber yfirskriftina; "Can you be happy for 100 days in a row?"

Ég er nú ekki vön að eltast við slíkt, en það er eitthvað sem kitlar mig við þetta. Snýst í stuttu máli um að gefa því gaum sem gleður í dagsins önn. Stórt eða smátt. Að fókusa frekar á það sem veitir okkur gleði fremur en "ógleði" - en okkur er svo tamt að velta okkur frekar upp úr því sem aflaga fer. Í raun að lifa í núinu og vera meðvitaðri og þakklátari yfir því skemmtilega sem lífið hefur upp á að bjóða á degi hverjum. Ekki vera að bíða eftir helginni, sumarfríinu, nýja símanum eða Parísarferðinni. Heldur leyfa okkur að njóta augnabliksins, núna. 

Ætla að prófa þetta. Vel getur verið að ég hafi engan tíma til að deila, bara njóta. Sjáum hvað setur. Einn, tveir og byrja; Miðvikudagar eru góðir því þá "loka ég" blaðinu sem fer í prent á fimmtudagsmorgnum. Það er alltaf ákveðinn sigur að fylla hvert blað með nýju fréttaefni. Pínu eins og að klára jóla- eða vorpróf vikulega. 

P.s. Þarna má sjá vinnuvikuna mína í hnotskurn. Alltaf eins og 1000 bita púsl. Handskrifað skipulag hentar mér betur en að halda utan um það í tölvu. Já, svo get ég aðeins skrifað með einni tegund af pennum sem ég virðist vera að safna. Artline 200. Fine 0.4. Bestir.