Tuesday, February 18, 2014

ELLA

Það er snúið að vera sérvitur á ilmvötn. Þá meina ég sérslega sérvitur, eiginlega alveg óþolandi sérvitur.

Ég hef alltaf haft sterkar skoðanir á því hvernig ilmvötn ég vil nota og ekki er það fræðilegur möguleiki fyrir vini, ættingja eða jafnvel kærasta að velja slíkt handa mér. Lyktin mín á að vera heit, sæt og krydduð, en ekki of þung. Get ekki lýst því betur. Nokkrar í heiminum hafa þóknast mér gegnum tíðina, en það versta er að þær hætta yfirleitt í framleiðslu þegar ég hef loks fundið þær.


Síðasliðið ár hef ég notað Flowerbomb frá Victor&Rolf - Extreme Perfume. Mér finnst hún mjög góð en fæ hana bara í Fríhöfninni og þar sem ég er nú ekki þar á hverjum degi er það nú búið.

Svo ég komi mér nú að máli málanna. Fyrir jól rakst ég á tvo ilmi frá íslenska framleiðandanum ELLU, annarsvegar ELLA-day og hins vegar ELLA-night. Til þess að flækja söguna enn frekar, þá komst ég svo að því að þriðji ilmurinn var til, ELLA-V, en það er sá nýjasti.




Nú var ég komin í töluvert vesen, þar sem V er ekki fáanlegur hér fyrir austan, en mig langaði að prófa hann þar sem ég hefði heyrt mjög góðar sögur af honum sem rímuðu afar vel við mínar þarfir.

Ég hafði þvi samband við stelpurnar í ELLU í Reykjavík og þær voru svo elskulegar að senda mér þrjú pínulítil glös með öllum lyktunum til þess að átta mig. Skemmst er frá því að segja að ég er fallin fyrir V. En, hvað? Auðvitað er hann uppseldur í bili. Kemur kannski aftur, já líklega, en ekki strax. Ó mig auma. Það hlaut að vera að ég félli enn einu sinni fyrir einhverju ófáanlegu.

En, ég má til með að hrósa ELLU fyrir frábæra þjónustu, að senda mér pakka ásamt fallegu bréfi. Þessa stundina er ég að gera það upp við mig hvort ég á að kasta mér á Day eða Night, hallast að nóttinni, hún er meira ég.


Ef einhver hefur rekist á glas af V í einhverri búð, þá má hinn sami láta mig vita. Ó, takk!

No comments:

Post a Comment