Monday, December 19, 2016

Dagurinn sem ég snéri veðurfræðingnum

Já, eða við Eiður.

Oft hefur það flogið gegnum huga minn að skrifa hugleiðingu um stöðu veðurfræðinga og birta á Austurfrétt - þá ekki stöðu þeirra varðandi kaup&-kjarasamninga, heldur hvernig þeir koma sér oftar en ekki haganlega fyrir framan við austurhluta landsins meðan þeir kveða upp dóm næstu daga, sem vissulega væri annað slagið gaman að fá að sjá.

Það var svo í gærkvöldi sem ég sá hnyttna stöðufærslu sem vinur minn Eiður Ragnarsson birti á Facebooksíðu sinni með þessari mynd: „Gengur á með jakkafötum og hvítri skyrtu austanlands næstu daga.“Þá ákvað ég að nú væri tíminn kominn, nú myndi ég gera eitthvað úr þessu. Ég vissi líka um 80 manna Facebookhóp sem kallaði sig Hættið að standa fyrir Austurlandi kæru veðurfræðingar. Í morgun sá ég að búið var að deila stöðufærslu Eiðs um 100 sinnum.

Ég hringdi því í hann og spurði hvort við ættum ekki að slá á létta strengi og koma með eina skemmtilega frétt svona í svartasta skammdeginu. Hann var til, sem endranær.

Við á Austurfrétt erum orðin þaulvön því að fréttirnar okkur rati áfram í aðra netmiðla landsins en mig óraði ekki fyrir því fjöri sem dagurinn færði mér í kjölfar þessa aðventugríns.

Hér má lesa upphaflegu fréttina á Austurfrétt, viðtalið við Eið, sem ég setti í loftið í morgun, en þar sagði meðal annars;

„Þetta er kannski óþarfa tuð og vel er hægt að skoða veðrið annarsstaðar, en svona fyrst þessi dagskrárliður er í sjónvarpinu þá finnst mér það lágmarks tillitssemi að hægt sé að gjóa augunum á helstu atriði eins og hitatölur og vind í sínum fjórðungi,“ segir Eiður og bætir því við að þessi tilhneiging veðurfréttamanna á RÚV hafi verið slæm síðustu misseri en hafi líklega náð hámarki í gærkvöldi. „Maðurinn stóð alveg fyrir landshlutanum í gær, gamla austfjarðakjördæmið sást aldrei allan veðurfréttatímann.“

Fljótlega tóku netmiðlarnir fréttina upp á sína arma. Vísir var með fyrirsögnina Austfirðingar argir; „Ég vil örvhentan veðurfræðing“, Mbl.is var þá setningu sem Eiður var með sjálfur „Geng­ur á með jakka­föt­um og hvítri skyrtu“ og útvarpsþátturinn vinsæli Reykavík síðdegis fjallaði um málið eins og heyra má hér.

Svo fór að færast fjör í leikinn þegar BBC fréttastofan fékk veður af öllu saman (flott orðagrín hjá mér) og hringdi í Eið alla leið á Djúpavog, en þá frétt má lesa hér.

Eiður sagðist ekki binda miklar vonir við að tuðið myndi nokkru skila frekar en endranær, en staðfestar fréttir herma að austfirðingar hafi sent fleiri en eina og fleiri en tvær formlegar kvartanir vegna þessa á fréttastofuna gegnum tíðina, án árangurs.

Hápunktur dagsins var svo að horfa á veðurfréttirnar í kvöld og taka stöðuna á veðurfræðingi dagsins. Yrði hann á sínum stað eða myndi hann flippa og vinda sér suður á bóginn? Þegar stórt er spurt er best að setjast niður og bíða svars.

Jú, ég get svoleiðis guðsvariðða! Hann fór suður nú eða vestur kannski frekar. Allavega tók sig upp frá austurhlutanum.


Rúsínan í pylsuendanum finnst mér svo orðsendingin frá RÚV nú í kvöld sem hljómar svona; 

 „Kæru Austfirðingar, svona bæta menn fyrir mistökin. Við biðjum ykkur að sýna okkur þolinmæði meðan unnið er að varanlegri lausn, en til stendur að veðurkortið verði ávallt sýnilegt um allt land allan tímann. Veðurfræðingar okkar gera sitt allra besta til að vera ekki fyrir í millitíðinni svo enginn þurfi að gera veður yfir þeim á meðan!“

P.s. þið hafið svo bara samband ef ykkur vantar fólk til athafna. Við snérum veðurfréttamanninum á RÚV - bara með einni lítilli krúttfrétt. Það er allt hægt. Allt.

Saturday, November 26, 2016

Fjórtán mínus sex


Í dag héldum við veislu til heiðurs afmælisbarni næsta föstudags, Bríetarbarninu sem þá fagnar fjórtán ára afmæli sínu - en þann dag fer hún til föðurhúsanna og því ákváðum við að taka forskot á sæluna í dag.

Mér finnst svo stutt síðan hún var bara agnarlítið skott. Nú er hún svo stór á allan hátt, ekki bara töluvert hærri en ég, heldur bara svo fullorðin.

Það er ótrúlega gaman og gefandi að eiga ungling, eins og ég hræddist þá tilhugsun áður en ég hlaut þá blessun í fyrsta skipti. Unglingar og ungt fólk í dag er svo ótrúlega flott, vel upplýst, framsýnt og duglegt, mér finnst mín börn og vinir þeirra svo miklu, miklu, miklu klárari en ég og mín kynslóð vorum nokkurntíman.Jólin koma alltaf þegar þetta meistaraverk er komið upp á vegg - þessa sveina teiknaði Almar Blær þegar hann var sjö ára gamall. Hjá okkur var fyrsti laugardagur í aðventu. Metnaðarfull hæðarkeppni sem endaði með "bak-í-bak" til þess að skera úr um sigurvegara. Sú gamla vann. Kjúklingasúpan góða. Afi Oddur metur stöðuna. Þessar tvær eiga svo fallega vináttu. Gæti étið þennan!Ég vinn aldrei neina stærðarkeppni. "Grettukeppni" sagði ljósmyndarinn. Hér er hart barist. Hvar er Emilsbarnið kann einhver að spyrja sig. Jú, bara sofandi. Í bíl sem lagt er kolólöglega. Hér má sjá tvo af mínum uppáhalds mönnum í öllum heiminum, Emil minn og afa Odd. Þeir eru líka svakalega góðir vinir og fara alltaf í fótbolta þegar þeir hittast. 
Eftir afmæli skunduðum við í bæinn þar sem ljósin á jólatrénu voru tendruð. Þar var svo fallegt veður að ég fór næstum að grenja margoft - bara yfir fegurð heimsins, hamingjunni og hve lífið er yndislega gott.


Emil sá jólasveina í fyrsta skipti eftir að hann "komst til vits og ára". Hann var mjög spenntur yfir þessu og við búin að ræða málin fram og til baka áður en við fórum á samkomuna. Hann var ekki mikill bógur þegar á hólminn var komið og vildi alls ekki og engan vegin dansa í kringum jólatréð með sveinunum. Ekki heldur gefa upp nafn sitt.


Í bílnum á leiðinni heim: 

Emil: Jóveinani heim í ballinn (Jólasveinarnir eru að fara heim í fjallið)

Ég: Já, einmitt. Til Grýlu mömmu sinnar. 

Emil: Gílu. 

Ég: Hvað heldur þú að Grýla segi við þá?

Emil: É ekka ði. 

...auðvitað. Bara eins og mömmur segja. Ég elska þig.Módel: Goggi.
Ljósmynd: EmilÆji, við bara kláruðum að jóla seinnipartinn...Varðmaður kominn við Múnínkönnurnar.You can do it!
Ferlega kósý hjá afmælisbarninu......sem vill bara "meiköpp" í allar gjafir. Ok bæ.Líka fínt hjá miðlungsstóra prins. 
Ást og friður til ykkar. 


Tuesday, November 8, 2016

Business Idea - 6/30Vinkonan: Við erum að fara í bæinn í kvöld sko - þú ert nú ekki á hverjum degi í Reykjavík og þetta dansar sig svo sannarlega ekki sjálft.

Ég: Já auðvitað förum við í bæinn í kvöld. Auðvitað.Ahhh. Alveg rétt. Iceland Airwaves. Sé miðbær Reykjavíkur fullur af fólki á venjulegu laugardagskvöldi þá má marfalda með fimm á svona helgum. Guð minn almáttugur.Vinkonan: Jæja, það er þá allavega nóg af sætum strákum í bænum, kannski aðeins meira úrval en þarna fyrir austan.Loftið, Kaldi bar, Ölstofan, Bar Ananas og KíKí bar. Allir helstu staðir bæjarins þræddir samviskusamlega. Ekkert gefið eftir, fulla ferð áfram.Vinkonan: Eigum við að taka einn hring hér, kannski einn drykk?

Ég: Þetta eru kjöraðstæður - "Klúbbur hávaxinna, dökkhærðra og skeggjara" er greinilega úti að skemmta sér.

Vinkonan: Sjæs, einmitt. Sástu gaurinn sem ég stóð við hliðina á barnum? Ógeðslega sætur og þokkalega mikið  að daðra við mig.

Ég: Já, sá hann. Hann er með stelpu sem ég þekki.

Vinkonan: Vot! Ertu að djóka? Það var ekki mikið að þvælast fyrir honum.Slík atvik endurtóku sig ítrekað þetta annars fína kvöld í miðbæ Reykjavíkur. Á heimleiðinni kviknaði hún;Ég: Ég er með viðskiptahugmynd.

Vinkonan: Nú, bring it!

Ég: Ég held að við getum orðið moldríkar og jafnvel bara sest í helgan stein ef við komum henni í framkvæmd. Gildir um allan heim.

Vinkonan: Ok, ok.

Ég: Þegar maður kemur á bar þá spyr dyravörðurinn; Síngúl? Ef svarið er já, þá fær viðkomandi vesti, bara svona endurskinsvesti eins og leikskólabarn. Til aðgreiningar. Sverða, það verður að koma upp einhverju sístemi, ég nenni ekki að vera að eyða tíma mínum og orku í að taka við einhverju daðri frá harðgiftum mönnum.

Vinkonan: Vá, þetta er það sniðugasta sem ég hef heyrt og myndi spara mikinn tíma og fyrirhöfn.


Við erum búnar að skrá okkur á brautargengisnámskeið vinkonurnar. Aðgreiningarvestin verða vonandi komin á markað í haust. Öllum til heilla.


Monday, November 7, 2016

Morning - 5/30


Today is a perfeck day to start living your dreams. Satt. Svo satt. Alltaf, alla daga.

Morgnarnir. Uppáhaldstími dagsins. Þegar allir eru komnir út í daginn - í skóla, leikskóla og vinnu. Að setjast niður og byrja að vinna. Skipuleggja daginn og hella sér svo í verkefnin.

Mér líður svo vel á heimilinu mínum eftir að við fluttum að ég vinn oft að heiman, það er ekkert notarlegra en það. Kaffi, kerti og alger friður.

Það var gott að koma heim eftir afar skemmtilega helgi í höfuðborginni. Ég er svo ánægð að hafa fengið þetta tækifæri á laugardagskvöldið - að taka þátt í lokaþætti RÚV 50 ára í beinni. Var frábært að fá að sjá hvernig þetta gengur fyrir sig, þið vitið, sminkið, undirbúninginn og "við byrjum eftir, 4, 3, 2, 1..." og allt það.Fékk þann heiður að vera með uppáhalds sjónvarpsmanninum mínum allra tíma í settinu, Jóni Ársæli Þórðarsyni.

Við spjölluðum heilmikið áður en útsending hófst þar sem við ræddum uppruna og ættfræði, auk þess sem hann sagðist alltaf horfa á Að austan, þætti þeir góðir og ég stæði mig mjög vel.

Ok. Jón Ársæll sagðiða. Ég þarf ekki meir, ég get nánast hætt, hamingjusöm á mínum toppi.

Okkur kollegana má sjá hér, á mínútu 43:30.


Wednesday, November 2, 2016

On your mind - 4/30


Síminn minn hringdi á vinnutíma fyrir viku. Númer sem ég þekkti ekki. Það er ekki í nokkrar einustu frásögur færandi því í vinnunni minni er ég alltaf að tala við fólk sem ég hef ekki talað við áður. Samtalið var nokkurn vegin svona;


Ókunnugur: Sæl. Kristborg Bóel?

Ég: Já, það er hún. (Taka verður fram að ég var aðeins annars hugar, enda að leggja lokahönd á skjal sem ég var þá og þegar orðin of sein að senda frá mér)

Ókunnugur: Rúnar Snær hérna megin.

Ég: Já, sæll og blessaður. (Rúnar Snær er fréttamaður RÚV á Austurlandi og því ekkert eðlilegra en hann hringi í vinnuerindagjörðum)

Rúnar Snær: Ég er verkefnastjóri fyrir RÚV 50 ára, þú veist, sjónvarpsþættirnir sem hafa verið sýndir að undanförnu.

Ég: Ok. (Humm, pínu spes að hafa Rúnar Snæ í þessu djobbi, svona búsettan út á landi, en bara, flott framtak hjá RÚV samt)

Rúnar Snær: Þannig er mál með vexti að laugardaginn 5. nóvember næstkomandi er komið að síðasta þættinum í þessari yfirferð sjónvarpsins - loksins, loksins segja einhverjir. Þessi þáttur verður aðeins frábrugðin hinum, þar sem við ætlum að taka fyrir mannlífsþætti frá upphafi og ekki aðeins að taka RÚV fyrir, heldur hinar stöðvarnar líka.

Ég: Ok. (Ætlar maðurinn aldrei að koma sér að efninu? Ætli hann sé að falast eftir innslagi frá okkur til að sýna? Já líklega. Hvað ætti ég að velja?)

Rúnar Snær: Þátturinn verður í beinni útsendingu og stjórnendur verða þau Gísla Einarsson í Landanum og Lára Ómarsdóttir. Þau höfðu samband við mig og vilja endilega fá þig sem viðmælenda í þáttinn. Gest í sett. Í beina.

Ég: Ha? Mig? Bíddu við hvern er ég eiginlega að tala?

Rúnar Snær: Þetta er Rúnar Freyr hérna, litli leikarastrumpurinn, þú manst?

Ég: Ó mæ gad. Hahahhaa. Ég er sko búin að tala við þig sem Rúnar Snæ, fréttamann á RÚV-Aust í fimm mínútur. Vá, ég skildi ekki hvað þú varst geðveikt formlegur og svo passaði röddin ekki alveg við þig. En, allt annað meikaði svona nokkurnvegin sjens þannig að ég lét þetta bara rúlla.

Rúnar Freyr: Hahahah, jahá. Skemmtilegt. Ég veit alveg hver nafni minn á RÚV er.

Ég: Bíddu og hvað. Ég að koma. Ég hélt að Rúnar Snær væri að falast eftir innslögum úr Að austan?

Rúnar Freyr: Já líka. En þau vilja fá þig í settið, sem talsmann dagskrárgerðarmanns á landsbyggðinni.

Ég: Ja hérna. Jú, jú. Ég á reyndar að vera í vörutalningu með dóttur minni í BYKO þessa helgi, en það reddast. En, þetta er í Reykjavík sko, 700 kílómetra í burtu og allt það þú veist.

Rúnar Freyr: Já, við fljúgum þér að sjálfsögðu fram og til baka. Ertu ekki til í það, þetta verður skemmtilegt, lokakvöldið í þessu verkefni og svona.


Þetta var misskilnasta símtal sem ég hef tekið. Í það minnsta eitt þeirra. En, þetta er semsagt on. Ég skrópa í vörutalningu og skelli mér í beina. Verð í setti með Jóni Ársæli, kollega mínum. Bara komiði sæl og blessuð!

Segja má að þetta sé "on my mind" þessa dagana. Með pínu fiðrildi í maga en aðalega ferlega mikinn spenning fyrir allri helginni. Ég veit reyndar ekkert hvað ég er að fara að segja, en iss, mun allavega reyna að vera mér og landsbyggðinni til sóma. Verð meira að segja með klappstýru í sal. Sem ég er þó búin að leggja lífsreglurnar.

Ef það verður ekki tilefni til að poppa þarna, þá veit ég ekki hvenær.

P.s Rúnar Snær/Rúnar Freyr. Poteito/Potato.Tuesday, November 1, 2016

Handwriting/Your name - 3/30

Sko. Taldi vitlaust, ekki í fyrsta skipti. Myndasögurnar eru 31 en ekki 30 og því sérlega hentugt að smella saman þessu tvennu, handskrift og nafninu mínu.

"Í Guðanna lifandis bænum barn, reyndu nú að fara að skrifa almennilega, þetta skilst ekki," segir móðir mín reglulega. Eða allavega stundum.

Ok. Ég veit. S-ið mitt er eins og C. A, M og N er allt eins og svo mætti lengi telja. Það er gersamlega vonlaust fyrir mig að senda einhvern annan með minnismiða eftir sjálfa mig í búð.

Það hræðir mig líka hversu lélegur maður er að skrifa, en ég skrifa mjög lítið með penna orðið. Í það skipti sem ég þarf að skrifa eitthvað umfram óskiljanlega búðarmiðann fæ ég krampa í hendina og bugast. En að pikka, þar er ég á heimavelli, maður lifandi. Já. Þrátt fyrir að hafa svindlað mig í gegnum vélritun í tíunda bekk. Ehhh. Já, það var nú meiri vitleysan.


Á þessum miða má einmitt sjá mína fögru eiginhandaráritun. Hæ mamma!

Nafnið mitt. Kristborg Bóel. Ég heiti eftir föðurömmu minni sem hét Kristborg. Bóelarnafnið er úr ættinni minni og dregið af karlmannsnafninu Bóas sem var ríkt í henni á árum áður. Móður-langamma mín kom til mömmu þegar ég var nýfædd og bað um að ég yrði skírð Bóel.

Ég hef sæst við nafnið mitt á síðustu árum en það fór alveg virkilega í taugarnar á mér þegar ég var yngri. Mér fannst Bóelarnafnið alveg hræðilegt og hótaði því að láta taka það af mér um fermingu. Sem betur fer náði ég ekki að frekja því í gegn því mér þykir það mjög fallegt í dag og þykir vænt um það. Fólk sem ég hef kynnst síðastliðin ár kallar mig gjarnan Bóel og ég kann virkilega að meta það.

Ég er ýmist kölluð Kristborg, Kristborg Bóel, Bóel eða Krissa. Krissunafnið festist við mig í efri bekkjum grunnskóla og alveg þegar ég fór í menntaskóla, líklega af því Kristborgarnafnið er svo gífurlega misskilið að ég nennti ekki einu sinni að kynna mig þannig.

Það er alveg rosalegt. Ég kynni mig; Kristborg. Já, sæl Kristbjörg, segir mótleikarinn.

Ég held ég hafi nánast aldrei fengið rétt stafsetta póstkröfu eða pakka, það er í 99% tilfella skrifað Kristbjörg.

Þetta er ástæðan fyrir því að 3/4 barna minna heita einu nafni og það nafni sem nánast ómögulegt er að stytta.

Ég held að það sé mikilvægt að ná sátt við nafnið sitt og læra að elska það, en það er svo stór hluti af manni sjálfum og hvern eigum við að elska fyrst og fremst - jú alveg rétt, okkur sjálf en með því móti erum við megnug að elska einhverja aðra. Ekki satt?


Monday, October 31, 2016

Makes you happy - 2/30 (Viðauki: Í ömmuhúsi & uppskrift)

Mér fannst vanta eitthvað við færsluna í gær, þessa um hamingjuríku helgina mína. Hún var bara svo löng að það var ekki forsvaranlegt að prjóna meira við hana. Reyndar fannst mér vanta ákveðinn pistil og þrjá uppskriftir, en ætla þó að láta pistilinn og eina uppskrift duga.

Pistilinn, Í ömmuhúsi, birtist fyrst í tímaritinu Fyrstu skrefin í desember árið 2003. Síðan þá hef ég sett hann reglulega hér á síðuna mína, alltaf í kringum jól. Já, það eru að koma jól - þið heyrðuð það fyrst frá mér!

Þetta er eini pistillinn sem ég hef birt oftar en einu sinni og oftar en tvisvar, en mér finnst bara eins og hver önnur aðventuhefð að lesa hann.

-----------------


Þarna er ég reyndar ekki með tíkó "eins og segir í laginu", en þó með myndarlega slaufu í hárinu. Engu að síður er ég þarna stödd í eldhúsinu hennar ömmu, í mínu sæti. Að sjálfsögðu í merktum Súlugalla og með California. Nema hvað. 


Í ömmuhúsi

Ég lygni aftur augunum og leyfi huganum að reika. Eins og svo oft áður hvarflar hann beinustu leið í ömmuhús. Ég verð einn og þrjátíu á hæð og tuttugu og fimm kíló. Með skakka tíkarspena, þvertopp og gleraugu.

Í firðinum litla er froststilla og dagurinn hefur verið dimmur. Það skiptir engu máli því í ömmuhúsi er bæði hlýtt og bjart. Við stelpurnar erum að hefja jólabaksturinn. Með fagurlitaðar svuntur hlustum við á Gerði G. Bjarklind kynna jóladúetta með Ellý og Vilhjálmi Vilhjálmsbörnum.

Ég hef lengi hlakkað til bakstursins og ekki að ástæðulausu. Ég gegni þar ábyrgðamiklu hlutverki. Það er ég sem sé um að sjálfar engiferkökurnar líti vel út. Buffhamarinn er notaður til verksins. Af mikilli nákvæmni, með tunguna út í öðru munnvikinu, miða á á kökuna og ýti. Undan hamrinum sprettur lystilegt mynstur. „Flott hjá þér elskan mín, það held ég að þær eigi eftir að bragðast vel þessar.“

Á meðan ég sit við eldhúsborðið og vinn mitt verk sýslar amma sitt. Við segjum ekki margt. Það er óþarfi – samveran er okkur nægjanleg. Bökunarlyktin líður um loftið, tíminn er afstæður og mér líður vel.

Ég naut þeirra forréttinda sem barn að hafa óskertan aðgang að ömmu og afa. Í ömmuhúsi ríkti alltaf einstakur friður og ró. Enginn þurfti að flýta sér. Að engu þurfti að ana og allur heimsins tími var fyrir mig. Í minningunni var amma sérsmíðuð fyrir mig og okkar sterka samband hefur mér alla tíð verið mjög dýrmætt.

Sem móðir tel ég samband kynslóðana vera veigamikinn þátt í uppeldi barna sem beri að rækta af alúð. Það er yndislegt fyrir hvern þann sem getur með sjálfum sér og öðrum rifjað upp og deilt ljúfum minningum úr æsku. Minningarbrotin þurfa ekki endilega að tengjast merkilegum atvikum. Í mínu tilfelli eru það litlu og hversdagslegu hlutirnir sem standa uppúr.

Í nútímasamfélagi þar sem hraðinn og græðgin ætla allt um koll að keyra tel ég nauðsynlegt að staldra við og íhuga hvað það er sem mestu máli skiptir. Þegar öllu er á botninn hvolft er fjölskyldan hornsteinninn. Án hennar væri lífið innantómt og jeppinn og pallurinn myndi missa mesta glansinn. Staðreyndin er sú að fjölskylduböndin þarf líka að bóna ekki síður en jeppan og að þeim þarf að dytta ekki síður en pallinum.

Sorglegt er til þess að hugsa að fólk þurfi að lenda í alvarlegum veikindum eða aðstæðum þar sem dauðinn ógnar til þess að átta sig á því á hversu dýrmætur sjóður þeirra nánustu eru og ekki er sjálfgefið að allir hittist heilir að kvöldi.

Ekki er óalgengt að lesa viðtöl við fólk sem lent hefur í miklum hremmingum og lofar þar bót og betrum í náungakærleik. Bæta skal á einu bretti upp öll árin þar sem vinnan var í fyrsta sæti. Íslendingar hafa verið kallaðir vinnualkar og litið hefur verið á þá sem vinna mest sem sannar hetjur. Fyrir hvern hetjuskapurinn er drýgður er ekki gott að segja. Börnin meta það án efa meira ef við gefum þeim tíma til þess að taka þátt í þeirra daglegu athöfnum en að annríkið sé bætt upp með fjarstýrðum bíl eða Baby born.

Ég lít á samverustundir sem ég á með fjölskyldunni minni sem og þeim sem eru mér kærir líkt og innlegg á bankabók. Ef lítið er lagt inn á reikninginn er ekki hægt að vænta hárra vaxta eða gildrar innistæðu.

Nú þegar helgasti ársins fer í hönd er rétt að standra við og forgangsraða rétt. Að mörgu þarf að huga við undirbúning hátíðahaldanna og auðvelt er að gleyma sér í dagsins önn. Setjumst niður og gefum okkur tíma til þess að njóta aðventunnar með okkar fólki. Gáfulegra er að taka húsið í gegn í vor þegar birtu nýtur og sólargeyslarnir leiða okkur í sannleikann um hvar á eftir að pússa. Tökum börnin okkur til fyrirmyndar. Hjá þeim er hinn sanna jólaanda að finna. Þau hafa engar áhyggjur af því þó svo eitt og eitt rykkorn leynist í skápahornunum.

Jólabakstur okkar ömmu endaði á viðeigandi hátt – með kökuáti og ískaldri mjólk. Sjálfsagt hefur gólfið verið hveiti stráð, en það skipti engu máli. Engiferkökurnar mínar minntu á stjörnur á næturhimni, svona fagurlega flúraðar.

Í skápinn fyrir ofan ísskápinn sótti amma mikinn fjársjóð. Þar leyndust glös sem mér þótti mikilengilegri en þynnsta postulín. Glösin voru úr plasti og engin tvö voru í sama lit. Öðrum hefur varla þótt þau merkileg en mér fannst mjólkin bragðast betur úr þeim en öðrum glösum. Ég fékk þau eingungis til afnota þegar mikið stóð til og ég valdi alltaf gula glasið. Merkilegir töfrar áttu sér stað í hvert skipti sem ég drakk mjólk úr því. Hvernig sem á því stóð öðlaðist drykkurinn hversdagslegi alltaf sítrónubragð. Svona var allt töfrandi í ömmuhúsi.

Gefum hvert öðru tíma og athygli, ekki síst börnunum okkar. Hlustum á það sem þau hafa að segja og látum þau finna að þau skipti okkur máli. Kveikjum á kertum, hlustum á fallega tónlist og ekki væri úr vegi að narta í smákökurnar sem fjölskyldan hefur bakað – saman.

Verð að láta uppskriftina fylgja með, beint úr handskrifuðu stílabókinni hennar ömmu.


Engiferkökur

500 grömm hveiti
500 grömm sykur (má nú líklega minnka það töluvert)
250 grömm smjörlíki (ég nota alltaf íslenskt sjör í allt, aldrei smjörlíki)
2 egg
1 tsk natron
4 tsk lyftiduft
2 tsk engifer
2 tsk kanill
1/2 tsk negull

Öllu hnoðað saman í vél. Gott að kæla yfir nótt áður en bakað í 8-10 mínútur við 180 gráður. Gerir gæfumuninn að móta litlar kúlur og munstra þær með buffhamri. Lofa.