Tuesday, November 1, 2016

Handwriting/Your name - 3/30

Sko. Taldi vitlaust, ekki í fyrsta skipti. Myndasögurnar eru 31 en ekki 30 og því sérlega hentugt að smella saman þessu tvennu, handskrift og nafninu mínu.

"Í Guðanna lifandis bænum barn, reyndu nú að fara að skrifa almennilega, þetta skilst ekki," segir móðir mín reglulega. Eða allavega stundum.

Ok. Ég veit. S-ið mitt er eins og C. A, M og N er allt eins og svo mætti lengi telja. Það er gersamlega vonlaust fyrir mig að senda einhvern annan með minnismiða eftir sjálfa mig í búð.

Það hræðir mig líka hversu lélegur maður er að skrifa, en ég skrifa mjög lítið með penna orðið. Í það skipti sem ég þarf að skrifa eitthvað umfram óskiljanlega búðarmiðann fæ ég krampa í hendina og bugast. En að pikka, þar er ég á heimavelli, maður lifandi. Já. Þrátt fyrir að hafa svindlað mig í gegnum vélritun í tíunda bekk. Ehhh. Já, það var nú meiri vitleysan.


Á þessum miða má einmitt sjá mína fögru eiginhandaráritun. Hæ mamma!

Nafnið mitt. Kristborg Bóel. Ég heiti eftir föðurömmu minni sem hét Kristborg. Bóelarnafnið er úr ættinni minni og dregið af karlmannsnafninu Bóas sem var ríkt í henni á árum áður. Móður-langamma mín kom til mömmu þegar ég var nýfædd og bað um að ég yrði skírð Bóel.

Ég hef sæst við nafnið mitt á síðustu árum en það fór alveg virkilega í taugarnar á mér þegar ég var yngri. Mér fannst Bóelarnafnið alveg hræðilegt og hótaði því að láta taka það af mér um fermingu. Sem betur fer náði ég ekki að frekja því í gegn því mér þykir það mjög fallegt í dag og þykir vænt um það. Fólk sem ég hef kynnst síðastliðin ár kallar mig gjarnan Bóel og ég kann virkilega að meta það.

Ég er ýmist kölluð Kristborg, Kristborg Bóel, Bóel eða Krissa. Krissunafnið festist við mig í efri bekkjum grunnskóla og alveg þegar ég fór í menntaskóla, líklega af því Kristborgarnafnið er svo gífurlega misskilið að ég nennti ekki einu sinni að kynna mig þannig.

Það er alveg rosalegt. Ég kynni mig; Kristborg. Já, sæl Kristbjörg, segir mótleikarinn.

Ég held ég hafi nánast aldrei fengið rétt stafsetta póstkröfu eða pakka, það er í 99% tilfella skrifað Kristbjörg.

Þetta er ástæðan fyrir því að 3/4 barna minna heita einu nafni og það nafni sem nánast ómögulegt er að stytta.

Ég held að það sé mikilvægt að ná sátt við nafnið sitt og læra að elska það, en það er svo stór hluti af manni sjálfum og hvern eigum við að elska fyrst og fremst - jú alveg rétt, okkur sjálf en með því móti erum við megnug að elska einhverja aðra. Ekki satt?


No comments:

Post a Comment