Thursday, February 13, 2014

100 hamingjudagar - 2

Átti óvænta gæðastund með Bríetarbarninu í gær. Hún kom með mér á Eskifjörð seinnipartinn í vinnuerindum, en ég fór til þess að taka myndir á æfingu fyrir tónleika sem fram fóru í Menningarmiðstöðinni í gærkvöldi. Þar tróðu upp krakkar allsstaðar af Austurlandi, en þeir hafa verið á hljómsveitarnámskeiði upp á síðkastið. Sérstakur gestasöngvari var Jóhanna Guðrún og gátum við blaðakonurnar það ekki látið fram hjá okkur fara að taka smá viðtal við hana.

Skemmst er frá því að segja að við Bríet höfum eignast nýja uppáhalds söngkonu og urðum við svo skotnar í henni að við brunuðum á tónleikana líka, eftir að hafa heyrt brot af þeim í síðdegis. Krakkarnir stóðu sig einnig frábærlega og enginn þarf að örvænta að tónlistarlíf á Austurlandi verði ekki blómlegt í framtíðinni.

Þetta byrjaði nú allt á því að Jóhanna Guðrún söng eitt af mínum uppáhaldslögum með annarri ungri söngkonu og hljómsveit - lagið People get ready í útsetningu Evu Cassidy sem er mitt allra mesta uppáhald. Asnaðist ekki til þess að taka það upp, en hér er Evu-útgáfan.


Þessar eru pínu flottar! Bríet var með stjörnur í augunum þegar Jóhanna Guðrún lýsti mikilvægi þess að stutt væri við bakið á ungu tónlistarfólki og að það fengi tækifæri til þess að koma fram. 


Alltaf batnaði það! Haldiði að nýja vinkona okkar hafi ekki tekið upp á því að syngja mitt uppáhaldslag í öllum heiminum - Songbird, einnig í Evu Cassidy útgáfu. Tók það upp á símann minn en næ því miður ekki að koma því hér inn, þrátt fyrir mikla tæknilega aðstoð til mín í morgun. Ég veit, þarf eitthvað að læra betur á þetta allt saman. Auk þess er myndbandið svo hrist, af því ég þurfti að gráta svo mikið úr fegurð - og hormónum! En, hér má sjá hana syngja lagið mitt dásamlega, algerlega óhrist. 

Já krakkar, það eru svona móment - akkúrat svona sem veita hamingju. 

No comments:

Post a Comment